Grein sem lesa þarf til enda
25.10.2008 | 10:12
Bendi hér á afar góða grein sem ég hvet ykkur til að lesa alveg til enda. Er nokkuð viss um að hún harmonerar við hugsun okkar margra í dag.
http://visir.is/article/20081025/SKODANIR03/278188353/-1
Tími til að breyta
24.10.2008 | 21:39
Verð að láta þessa grein fljóta hér. Hún segir allt sem segja þarf í ástandinu sem nú ríkir. Frábær grein hjá nýkjörnum formanni UVG.
Nú, rétt eins og fyrir tæpum 19 árum, horfum við á þjóðskipulag byrja að hrynja til grunna. Þá byrjaði hrun sovétkommúnismans með falli Berlínarmúrsins sem var táknmynd þess þjóðskipulags. Hrun íslensku bankanna markar upphafið á falli nýfrjálshyggjunnar, sem er þjóðskipulag græðgi og sérhagsmuna. En hún fellur ekki ein, heldur tekur hún ævisparnað stórs hluta Íslendinga, sparnað sem átti að tryggja þeim áhyggjulaust ævikvöld, með sér í gröfina. Við syrgjum því ekki nýfrjálshyggjuna, heldur allt það sem hún tók frá okkur.
Fólk er, skiljanlega, reitt og sorgmætt. Þetta átti aldrei að gerast. Enginn getur sagt að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir þetta. Það er óþarfi að reyna að afsaka skefjalausa græðgi með því að tala um alþjóðafjármálakreppu, einfaldlega því að við sjáum að aðrar þjóðir eru ekki jafn djúpt sokknar og við. Þetta er sárt og þetta er ósanngjarnt því íslenskur almenningur á ekki sök á þessu. En við höfum hins vegar ekki rétt á því að láta sorgina og reiðina heltaka okkur. Við skuldum komandi kynslóð að þerra tárin, standa á fætur og hefja uppbyggingu.
Tækifærin eru til staðar á Íslandi og það sem mikilvægara er, þau eru enn sameign íslensks almennings, ekki séreign þeirra sem vilja skapa af þeim gróða fyrir sig eina. Sem betur fer voru sumir alsgáðir í einkavæðingarpartíinu og stóðu vörð um það sem við erum fegnust að eiga ennþá, nú þegar skóinn kreppir að. Þau tryggðu að orkulindir landsins yrðu áfram sameign þjóðarinnar. Þau börðust með kjafti og klóm gegn markaðsvæðingu heilbrigðis- og menntakerfisins og hafa varist stöðugum árásum nýfrjálshyggjunnar á velferðakerfið síðustu ár. Þau hafa staðið með íslenskri náttúru og hafa talað fyrir jafnrétti allra í þjóðfélaginu. Og þau standa enn vaktina fyrir íslensku þjóðina, því má hún treysta.
Ísland er ekki á hausnum. Það er fiskur í sjónum, matvælaframleiðsla í sveitum, orka og fegurð í náttúrunni, duglegt fólk á öllum aldri í framhalds-, iðn- og háskólum og útflutningsiðnaður í sókn. Við höfum tækifæri til menntunar, við höfum duglegt fólk sem ekki mun draga af sér við uppbygginguna og við höfum hvort annað. Við erum nógu klók til að læra af reynslunni og byggja ekki upp sama þjóðfélagsskipulag og var við lýði til þess eins að láta það hrynja undan okkur aftur.
Það er kominn tími til að breyta. Það er kominn tími til að bæði kynin komi í jöfnum mæli að ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Það er kominn tími til að aflétta leynd og pukri og gefa fólki aftur trú á lýðræðisleg stjórnmál. Það er kominn tími til að taka velferð þjóðarinnar fram yfir gróðavon einstaklinga. Og það er kominn tími til að stokka spilin og gefa aftur, því síðast var vitlaust gefið.
Steinunn Rögnvaldsdóttir
Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. október 2008
Vetrarfrí og kvennafrídagurinn
24.10.2008 | 20:59
Jibbý loksins komið vetrarfrí í skólanum. Vann til kl. 18:30 og lauk við yfirferð á ritgerðum, verkefnum, prófi og því sem útaf stóð í sögu hjá nemendum mínum. Allir búnir að fá einkunn.
Á morgun er svo djamm í Tjarnarborg en Maggi mágur ber að vanda hitann og þungan af skemmtuninni. Þemað í ár er latino og er ég mjög spennt því þetta er tónlist að mínu skapi.
Vonum bara að veðrið setji ekki strik í reikninginn en hér er ansi hvasst en sáralítil úrkoma enn sem komið er allavega.
Svo er að minnast kvennafrídagsins sem er í dag og því miður eru málin enn of mikið á skjön fyrir konur. Nýjasta dæmið eru bankastjóralaunin.
Í bili........
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvern á að senda úr landi?
23.10.2008 | 16:23
Ein besta bloggsíða landsins er án efa síða Ögmundar Jónassonar http://ogmundur.is Auk hans skrifa hinir ýmsu aðilar pistla og fannst mér samantekt félaga Hugins hreint ágæt um skrif Ögmundar um að jöfnuð og réttlæti væri ekki fórnandi fyrir bankana. Margir urðu til þess að gagnrýna skrif Ögmundar eins og nú. Huginn er með krækjur á þá sem skömmuðust mest.
Endilega lesið http://ogmundur.is/frjalsir-pennar/nr/4168/
Hvern fjandann er fólkið að meina?
23.10.2008 | 11:14
Starfs míns vegna neyðist ég til að lesa kreppufréttir daginn út og daginn inn. Auðvitað finnst mér þetta alveg hræðilegt og allt það en það er eitt sem ég skil ekki. Flestir tala um að nú sé kominn tími til að sinna börnunum sínum, fjölskyldu og vinum. Hvað í andskotanum heldur þetta fólk að íslenskur almenningur hafi haft fyrir stafni? Skyldi það ætla að við höfum verið viti okkar fjær og stigið trylltan dans í kringum gullkálfinn á meðan börnin okkar, vinir og ættingjar lágu óbættir hjá garði? Umkomulausir og einmana þar sem enginn hafði nokkurn tíma fyrir þá?
Ég sjálf og allir sem ég þekki hafa nú verið uppteknir af því að vinna fyrir sér, að vísu ekki að vinna fyrir bankastjóralaunum heldur bara svona til að eiga fyrir salti í grautinn. Þessi sauðsvarti almúgi sem ég þekki hefur bara hugsað vel um börnin sín, takk fyrir. Hringt í vini og ættingja og heimsótt þá jafnvel ef sérlega vel hefur legið á fólki.
Mér finnst þessi umræða gjörsamlega fáránleg. Það er verið að slá ryki í augun á okkur með því að við getum nú gert svo margt gott og nytsamlegt þótt búið sé að ræna okkur aleigunni og marga starfinu. Nú þakkar maður fyrir það helst að hafa þó vinnu. Það er verið að koma inn hjá okkur samviskubiti, að við höfum nú ekki hugsað sem best um þá sem næst okkur standa. Nú þegar við erum orðin atvinnulaus og blönk getum við allavega gefið okkur tíma að sinna börnunum í stað þess að æsa okkur yfir því að það sé búið að svipta okkur aleigunni og atvinnunni. Við eigum nefnilega ekkert að vera að velta okkur upp úr því hver sé ástæðan fyrir þessum hremmingum, við erum hvort eð er svo vitlaus að við munum aldrei geta skilið að þetta var eiginlega alveg óvart og mönnum í útlöndum að kenna. Hvað er svo sem að marka einhverja aumingja sem eiga ekki einu sinni part í þyrlu?
Ég fyrir mína parta ætla að halda áfram að sinna börnunum mínum, ættingjum og vinum. En ég ætla líka að vera reið, alveg fjúkandi vond, og ekki hætta fyrr en ég hef fengið svör við því hvernig í andskotanum allt gat farið hér til helvítis á einni nóttu.
Afsakið orðbragðið.
Kona
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Knús dagur
23.10.2008 | 11:10
Hann Júlli Júll facebook félagi sendi mér þetta og verð ég að setja þessi orð hér og vísa ykkur svo á enn ljúfari lesningu á heimasíðu hans.
Yfirskriftin er: Hefur þú knúsað í dag?
Þegar á bjátar er afar mikilvægt að við stöndum öll saman, sýnum nærgætni, og látum ekki svartsýni og pirring ná tökum á okkur. Það þurfa allir að hugsa vel um sig, gæta þess að fá nægan svefn og velta sér ekki of mikið uppúr því neikvæða. Að mínu mati er eitt það mikilvægasta sem við getum gert er að knúsast, gott faðmlag er það sem að allir þurfa á að halda og sanniði til að þeir sem fá nóg af knúsi eru ríkir og eru tilbúnari fyrir lífið og verkefni dagsins.Látum knús ganga.
Fínn fundur
22.10.2008 | 11:33
Við Helgi minn fórum á fundinn í gær með Steingrími sem var fjölmennur. Að vanda fór Steingrímur vel yfir málin og komu ýmsar spurningar úr sal. Ekki voru allir Vinstri grænir svo þetta var engin hallelúja samkoma. En hins vegar voru þeir örfáu sem ekki voru í VG fyrir gengu flestir í flokkinn að sjálfsögðu.
En ég fékk sent frá félaga mínum á Facebook eftirfarandi en þó stytt um helming:
SÓSÍALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú gefur nágranna þínum aðra þeirra.
KOMMÚNISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og gefur þér mjólk.
FASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og selur þér mjólk.
NASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar...og skýtur þig svo.
SKRIFRÆÐI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar, skýtur aðra þeirra, mjólkar hina og hellir svo allri mjólkinni.
HEFÐBUNDINN KAPITALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og kaupir naut. Þú stofnar kúabú og hagnast vel. Þú hagnast vel, selur kúabúið og sest í helgan stein
SÚRREALISMI
Þú átt 2 gíraffa.
Ríkið krefst þess að þú farir í harmonikkunám.
BANDARÍSKA FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og þvingar hina til að gefa af sér mjólk á við fjórar kýr. Þú ræður svo sérfræðing til að komast að því hvers vegna hún datt niður dauð.
ÁHÆTTUFJÁRFESTINGAR
Þú átt 2 kýr.
Þú selur 3 þeirra til fyrirtækis á opnum markaði með veði í gervifyrirtæki mágs þíns, gengur svo frá yfirtöku með vísan í skráningu á markaði þannig að þú færð allar 4 kýrnar tilbaka og skattaívilnanir vegna einnar til viðbótar. Afurðarétturinn af kúnum 6 er færður yfir á fyrirtæki í Karíbahafinu, en leynilegur meirihlutaeigandi þess selur þér aftur réttinn að öllum 7 kúnum. Samkvæmt ársskýrslu á fyrirtækið nú 8 kýr, með eigendarétti að einni til viðbótar. Þú selur eina kú til þess að þóknast ónefndum stjórnmálamanni og átt þá níu kýr. Rétturinn að nautinu er seldur almenningi í hlutafjárútboði.
Opinn fundur um efnahagsmál á Akureyri í kvöld
21.10.2008 | 13:23
Minni á fund í kvöld sem ber yfirskriftina:
Opinn fundur um efnahagsmál með Steingrími J. Sigfússyni, fomanni Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, í kvöld, þriðjudag kl. 20 á Hótel Kea.
Hver er staðan í efnahagsmálum?
Hvaða leiðir eru færar við þessar aðstæður?
Allir sem hafa áhuga á stöðunni í efnahagslífi þjóðarinnar eru hvattir til að koma.
Kjördæmisþing Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi
19.10.2008 | 22:54
Um helgina var haldið kjördæmisþing Vinstri grænna og var það á Egilsstöðum. Alltaf gaman að koma austur og ekki síst að gista á Klöpp hjá frú Þuríði Backman.
Stjórnarfundur var haldinn á föstudagskvöldið þar sem allt milli himins og jarðar var rætt. Ég hef viljað að stjórn kjördæmisráðs verði enn virkari en hún hefur verið og þá sérstaklega sem stuðningur við svæðisfélögin. Ég tel að þörfin sé mikil nú í því ástandi sem ríkir í samfélaginu að styðja við hinn almenna flokksmann.
Nýr formaður var kosinn, Hlynur Hallsson en ég gaf ekki kost á mér áfram. Tek hins vegar við hlutverki gjaldkera ráðsins. Við kusum tvo ungliða í stjórnina og vona ég að þau verði dugleg og virk í umræðunni með okkur "gamla" liðinu.
Nú laugardagurinn tók á móti okkur með sól og blíðu en fundurinn hófst kl. 11. Efnahagsmálin tóku mestan tíma eins og við var að búast og lá mörgum mikið á hjarta. Ég verð líka að taka undir þá sem glöddust yfir því að vera Vinstri græn því við höfum ekki tekið þátt í þeirri vitleysu undanfarinna ára sem nú orsakar þann vanda sem við búum við.
Við lögðum svo í hann heim á leið uppúr kl. 17 og enn var autt á vegum og fallegt veður svo ferðin gekk ljómandi vel.
Læt hér fylgja nokkrar ályktanir sem á fundinum voru samþykktar.
Sex áherslur VG í NA-kjördæmi í efnahagsmálum
Kjördæmisþing Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi, haldið á Egilsstöðum 18. okt. 2008
Nýfrjálshyggju og einkavæðingarstefna ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins í rúm 17 ár, með Alþýðuflokknum, Framsóknarflokknum og Samfylkingunni, er nú hrunin með geigvænlegum afleiðingum fyrir samfélagið. Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir því risavaxna verkefni að vinna sig út úr þrengingunum sem þessi stefna hefur leitt yfir hana og hefja endurmótun og uppbyggingu samfélagsins á nýjan leik. Nú þurfum við að læra af mistökunum og heita því að endurtaka þau aldrei aftur. Við þurfum að byggja nýtt Ísland á nýjum gildum þar sem hófsemi, jöfnuður, samhjálp og virðing fyrir fólki og náttúru eru í öndvegi. Við þessar aðstæður leggur kjördæmisþing VG í Norðausturkjördæmi sérstaka áherslu á eftirfarandi:
- Að sveitarfélögin verði efld og þeim gert kleift að sinna sínu mikilvæga hlutverki við þessar aðstæður, þeirri velferðarþjónustu, félagslegu aðstoð og nærþjónustu við almenning sem sveitarfélögin eru ábyrg fyrir. Sveitarfélögin eru einnig mikilvæg sem stórir atvinnurekendur í landinu. Til þess að Sveitarfélögin geti sinnt sínu bráðnauðsynlega hlutveri við þessar aðstæður er óumflýjanlegt að styrkja fjárhagsgrundvöll þeirra.
- Velferðarkerfið og innviði samfélagsins verður nú að styrkja. Aldrei er velferðarkerfið mikilvægara en á erfiðleikatímum, eins og nú berja að dyrum. Þá reynir á mikilvægi almannatrygginga og atvinnuleysisbóta, þá er dýrmætara en nokkru sinni að hafa skólakerfi og heilbrigðisþjónustu án gjaldtöku sem allir geta reitt sig á óháð efnahag.
- Nú verður að standa vörð um eignir og auðlindir þjóðarinnar og verjast ásælni erlendra sem innlendra hræætna sem berja að dyrum og reyna að ná undir sig verðmætum sameignum þjóðarinnar eða læsa klónum í auðlindir landsins á útsölukjörum.
- Sú barátta sem þjóðin stendur nú frammi fyrir er í raun ekki aðeins barátta við efnahagslegt hrun, heldur líka ný sjálfstæðisbarátta. Framundan er orrusta um það, hvort Ísland getur áfram staðið á eigin fótum, stjórnað málum og nýtt auðlindir sínar í eigin þágu en ekki samkvæmt þvingunarskilmálum annarra, hvorki á klafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins né gráðugra erlendra fjárfesta.
- Möguleikar landsbyggðarinnar við þessar aðstæður eru margvíslegir. Þjóðin mun nú á nýjan leik átta sig á mikilvægi sjávarútvegs, landbúnaðar- og matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og hefðbundinna atvinnugreina þar sem raunveruleg framleiðslustarfsemi og raunveruleg verðmætasköpun á sér stað. Nú verðum við að treysta á þessar atvinnugreinar og þá nýsköpunarmöguleika í öðru fjölbreyttu atvinnulífi sem til staðar eru. Þess vegna er eitt allra mikilvægasta verkefnið nú, að tryggja útflutningsatvinnuvegum og hefðbundnum framleiðslugreinum lífvænleg starfsskilyrði og hlúa að þeim möguleikum til sóknar og aukinnar verðmætasköpunar sem þar felast. Hið margrómaða góðæri, byggt á gríðarlegum erlendum lántökum og þar með á brauðfótum, eins og nú hefur komið í ljós, fór að mestu leyti hjá garði á landsbyggðinni. Þar af leiðandi getur vel farið svo að landsbyggðin finni síður fyrir hinum harkalega samdrætti eða hruni sem nú á sér stað. Nú þarf þjóðarbúið allt sem aldrei fyrr á landsbyggðinni að halda og þeirri verðmætasköpun, atvinnu og möguleikum sem þar felast. Þessa möguleika verður nú að virkja. Það er í þágu okkar allra. Í öllum erfiðleikum felast líka tækifæri og eitt þeirra nú er að virkja möguleika landsbyggðarinnar og atvinnulífsin þar, virkja mannauð sem nú losnar til nýsköpunar og uppbyggingar á landsbyggðinni.
- Loks varar kjördæmisþing Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi við þeim ofstækisfullu hugmyndum sem fram hafa komið að undanförnu um að lausn á vanda þjóðarinnar nú sé að hjóla í náttúru landsins af tvöföldu offorsi. Þau sjónarmið hafa heyrst að ýta beri til hliðar öllum lögum og leikreglum um mat á umhverfisáhrifum og eðlilegum náttúruverndarsjónarmiðum. Það má ekki gerast að til viðbótar því stórtjóni sem tugþúsundir Íslendinga eru nú að verða fyrir vegna glæframennsku fjármálamanna og afglapa bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar bætist það við að stórspjöll verði unnin á náttúru landsins. Nóg er komið af slíku. Leiðarljós okkar við alla atvinnuuppbyggingu eiga að vera leikreglur sjálfbærrar þróunar. Lausn á vandanum nú getur ekki verið meira af því sama og bjó vandann til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laaaangur bæjarstjórnarfundur
15.10.2008 | 21:27
Það er ekki ofsögum sagt að fundur bæjarstjórnar Fjallabyggðar var langur í gær. Hann stóð frá kl. 17-22:10. Í sjálfu sér ekki svo rosalega margt á dagskrá en mál sem þurfti og þarf að ræða vel.
Fundargerðir bæjarráðs og annarra nefnda voru í upphafi en síðan tók við umræða um erindisbréf nokkurra nefnda sveitarfélagsins, menningarstefnu, frístundastefnu og fræðslustefnu. Mikill tími hefur farið í vinnu á þessum stefnum en betur má ef duga skal. Því varð úr að bæjarstjórnarfulltrúar ætla að koma saman á "vinnufundi" þar sem þær verða kláraðar sem og starfsmannastefna sveitarfélagsins.
Töluverð umræða skapaðist um stefnur og tilgang þeirra. Hvað við viljum fá út úr slíkum stefnum og hvernig er hægt að ganga úr skugga um að eftir þeim sé farið. Ekki viljum við "skúffuplagg".
Einnig var mikil umræða um framtíðarsýn varðandi stofnanir bæjarins en tveir forstöðumenn hafa sagt starfi sínu lausu á árinu, forstöðumaður íþróttahúss Siglufjarðar og forstöðumaður bókasafns Ólafsfjarðar. Á að sameina undir einn hatt og hafa einn forstöðumann eða....? Hvenær á að taka slíkar ákvarðanir? Við gerum ekki allt þegar búið er að opna göngin. Við eigum að nýta öll svona tækifæri og segja "svona ætlum við að hafa þetta".
Nú það var farið yfir endurskoðaða fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ljóst að halda þarf vel á spöðunum þar sem viðsnúningurinn er mikill. Fjármagnsliðirnir eru þar stærstir en reksturinn fór líka mikið fram úr áætlun. Ég ræddi það í gær og hef áður gert á bæjarstjórnarfundi að mér finnst áætlanagerð og útboðsgögn ekki vera vel unnin þar sem sífellt er um aukaverk að ræða eða eitthvað gleymist.
Það er t.d. ekki eðlilegt að hér á leikskólanum Leikhólum hafi gleymst að gera ráð fyrir eldhúsinu, planinu, girðingum o.s.frv. Einhverjir verða að axla ábyrgð í þessu þá á ég líka við að ekki er ásættanlegt að slíkir hlutir gerist æ ofan í æ eins og verið hefur. Þá þurfum við að skoða hver leggur upp það sem aðrir framkvæma fyrir okkar hönd, bæjarfulltrúanna.
Nú við ræddum um framtíð Hornbrekku en ljóst er að töluverðar breytingar eru þar framundan. Heilsugæslan að sameinast á Úteyjarsvæðinu og þar með skilst hún frá dvalar- og hjúkrunarheimilinu. Í þessu máli þarf bæjarstjórn að taka ákvörðun.
Í bili..........