Mótmælafundur
15.11.2008 | 18:13
Ég tók þátt í mótmælagöngu á Akureyri í dag og var nokkurt fjölmenni. Fólk á öllum aldri ungir sem gamlir. Nokkrir tóku til máls m.a. Valgerður Bjarnad., Hlynur Hallsson, Óðinn Svan og fleiri.
Mér fundust orð Óðins um að ef hann hefði öryggisvörð í búðinni sinni sem hleypti þjófum út í sífellu þá myndi hann byrja á því að reka öryggisvörðinn áður en hann færi að elta þjófana. Með þessu var hann að vísa til þess að losa þyrfti allt liðið sem nú fer með stjórn mála í ríkisstjórn, seðlabankanum og fjármálaeftirlitinu. Mér heyrðust flestir vera honum sammála alla vega var mikið klappað.
Í bili.......
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga
14.11.2008 | 07:28
Sat í gær fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem mörg áhugaverð erindi voru flutt. Hinn nýji framkvæmdastjóri Karl Björnsson var með gott yfirlit yfir rekstrarstöðu sveitarfélaga 2007 og hugsanlega áætlun fyrir 2009 þar sem hann gaf sér forsendur sem við vitum flest að eru mjög á reiki.
Honum var tíðrætt um að 2007 væri svolítið "plat" niðurstaða þar sem hjá stóru sveitarfélögunum væru allar þessar lóðir sem seldar voru og nú er búið að skila inn. Bakreikningurinn er sem sagt mjög stór og kemur á 2008.
Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri lánasjóðs sveitarfélaga var einnig með mjög gott erindi um lánasjóðinn. Það er nefnilega þannig að ekki er nóg að fá leyfi til að skila áætlun sveitarfélaga með halla - einhver þarf samt að fjármagna hallan og ljóst að sjóðurinn stendur ekki undir því.
Vonbrigði dagsins var ræða fjármálaráðherra, veit ekki af hverju ég hélt að hann myndi segja eitthvað en það gerðist ekki. Eftir að Halldór formaður sambandsins hafði ítrekað kröfu sambandsins um viðbótarframlagið úr jöfnunarsjóði og miklar umræður úr sal þá sagðist hann hafa það í huga þegar yfir málin yrði farið. Hann kom hins vegar upp um fáfræði sína þegar hann var spurður hvort hann teldi að viðbótarframlagið væri nota í lúxus eins og hann komst sjálfur að orði þegar hann talaði um í hvað peningar sveitarfélaga færu. Hann vissi sem sagt ekki í hvað viðbótin væri yfir höfuð notuð - mismunandi vissulega en flest til reksturs grunnþjónustannar.
Ráðherra sveitarstjórnarmála byrjaði eftir hádegi og fengu sveitarstjórnarmenn líka lítil svör þar.
Í kjölfarið voru flottar konur með framsögu og fannst mér Aldís, bæjarstjóri í Hveragerði, með fína framsögu. Hún talar "mannamál" eins og stundum er sagt og velti upp stöðunni sem flest sveitarfélög eru í - hvað á að skera niður og hvaða álögur á að hækka.
Annars var það sammerkt í framsögunum að meiri og minnihlutar eru að vinna saman að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og svolítið talað þannig að það væri alveg nýtt undir sólinni.
Sigurbjörg Árnad. endaði svo með yfirferð yfir Finnsku leiðina sem mér sýndist stuða marga í salnum. Margur ekki gert sér grein fyrir hvernig hún birtist fólki sem bjó og býr í Finnlandi.
Jæja best að koma sér í morgunmat og síðan heldur dagskráin áfram.
Í bili........
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sannkölluð fundarvika framundan
10.11.2008 | 19:58
Já það er ekki ofsögum sagt að þessi vika er fundarvika. Á morgun eru það foreldraviðtöl, síðan er það bæjarstjórnarfundur sem haldinn verður á Sigló. Það lítur allt út fyrir að við þurfum að fara lengri leiðina ríflega 300 km. Get ekki sagt að ég sé rosalega spennt.
Annars hefur veður skánað og kannski verður Lágheiðin mokuð - vonum það besta.
Á miðvikudaginn verður svo rokið af stað til að ná flugi þar sem fjármálaráðstefnan verður í borginni á fimmtudag og föstudag. Ætla að fljúga til Akureyrar á föstudaginn og gista og fá svo far með mínum kæra heim á laugardaginn.
Af því svona er þá er víst best að nota tímann núna og halda áfram að vinna í kennsluáætlunum fyrir næstu önn.
Í bili.....
Birtan
9.11.2008 | 12:38
Var að lesa grein úr Fiskifréttum eftir vin minn Björn Val þar veltir hann því fyrir sér hvort útgerðin sé að fara á hausinn. Bjössi rifjar upp fyrri tíma í sögu útgerðar og fiskvinnslu og hvað íbúar lítils sjávarþorps gerðu þegar erfiðir tímar voru í sjávarútveginum.
Leikfélagið setti upp kabarett og gerði góðlátlegt grín af mönnum og málefnum og þá sérstaklega "áberandi þorpsbúum" eins og hann kemst að orði.
Það má segja að hér í Óafsfirði sé fólk að bregðast við þeim þyngslum sem fylgja ástandi eins og nú ríkir einmitt á svipaðan hátt. Leikfélagið okkar er með á fjölunum leikritið "Á svið" sem hefur verið vel tekið af bæjarbúum.
Það er nefnilega nauðsynlegt í skammdeginu að lyfta sér svolítið upp og slá á létta strengi, "gleyma" áhyggjum hversdagsins og njóta stundarinnar.
Lýsum upp skammdegið með kertaljósum og fallegri birtu og tökum eftir smáu hlutunum, hrósum hvort öðru.
Ýmsu safnar maður
4.11.2008 | 13:41
Þessa dagana er varla hægt að tala um að safna einhverju - alla vega ekki peningum en ástarhöldin stækka hjá mér en nú er hafið átak í þeim málum.
Annað sem ég er ekki eins glöð með að safna eru mýs. Mjög mikill músagangur er hér í firðinum þessa dagana og erum við búin að veiða sex á þrem dögum.
Það er varla að maður þori orðið í heita pottinn af ótta við að rekast á mýs á leiðinni ofan í. Ég óttast svo sem ekki þessi grey en finnst þau afspyrnu ógeðfelld og gæti alveg án þeirra verið. Dætur mínar vilja helst að farið sé með mýsnar til fjalla og þeim sleppt en þær væru líklega snöggar til baka í hlýjuna og ætið.
Í bili......
VG í stjórn
2.11.2008 | 14:10
Loksins fékk formaður VG pláss hjá Agli í Silfrinu en sá síðarnefndi hefur sniðgengið formanninn svo eftir hefur verið tekið. Reyndar í allri umræðu er VG ekki að fá nema örstuttan tíma ef eftir áliti þeirra er yfirleitt leitað.
Viðtalið var gott en því ástandi sem nú ríkir er auðvitað ekki auðvelt að gera öllu skil sem formaðurinn hefði eflaust viljað.
En viðtalið er síðustu 20 mínúturnar í Silfrinu og má finna hér.
Hvað annað
30.10.2008 | 20:37
Það hlaut að koma að því að fólk áttaði sig. Kosningar þurfa að eiga sér stað nú á útmánuðum. Þetta úrtak er með því stærra þar sem tæplega 4000 manns taka afstöðu.
Vinstri græn hafa verið staðföst í málflutningi nú í kringum það ástand sem ríkir sem og áður í þingsályktunum sem lúta að efnahagsmálum.
Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viltu hafa áhrif?
30.10.2008 | 20:08
Þá er ein af þeim leiðum að knýja fram kosningar hið fyrsta, ekki seinna en á útmánuðum.
Farðu þá á http://kjosa.is/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Smá dæmisaga vegna hinnar svokölluðu
30.10.2008 | 12:21
Verð að setja þetta inn sem ég fékk sent í tölvupósti.
Íslensk kona hefur verið að styrkja námsmann í Uganda sem "óvænt varð á vegi hennar" eins og hún orðaði það. Hann var búinn að lofa að senda henni einkunnirnar sínar sem hann og gerði þegar þar að kom. Þar kom fram að hann hafði fengið A í öllum fögum og góða umsögn að auki. Það var nefnilega búið að gera honum ljóst að góður árangur væri lykillinn að því að hann fengi áframhaldandi styrk.
En allt er breytingum undirorpið í henni veröld og ýmislegt getur vissulega haft áhrif á afkomu Frónbúans og getu hans til að láta gott af sér leiða. Hún var að velta því fyrir sér hvort rétt væri að reyna að segja honum frá gangi mála hér á landi, þ.e. kreppunni og öllu því. Og það gæti því miður reynst nauðsynlegt að skera eitthvað niður styrkinn vegna hins breytta ástands hérna megin. Það eru nefnilega tiltölulega litlar líkur á því að fréttir af Íslenska skipbrotinu hafi borist alla leið til hans þarna í Entebbe. Og svo er alls ekki víst að hann skilji alvöru málsins á sama hátt og við hér heima. En ef reynt væri að útskýra hið Íslenska kreppuástand fyrir honum sem virðist ætla að fara langt með að sliga þjóðina einhver þó nokkur ár inn í framtíðina, gæti það samtal orðið á eftirfarandi nótum.
*Heyrðu félagi, það er úr vöndu að ráða. Íslenska þjóðin er gjaldþrota!
Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra, eigið þið þá ekki fyrir baunum og maís?
*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og enginn vöruskortur.
Hvað segirðu, þið eigið þá mat. Það er gott. En eigið þiðþá ekki þak yfir höfuðið lengur!
*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir og það eru fáir heimilislausir á Íslandi.
En hvað segirðu mér þá? Gengur plága yfir landið, eru allir veikir og heilbrigðiskerfið lamað?
*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með ágætt heilbrigðiskerfi.
Nú jæja. Það var gott að heyra. En eru þá skólarnir að loka og fá kannski ekki allir tækifæri til að læra að lesa lengur og sérstaklega þá ekki konur.
*Jú reyndar er 99,9% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með háskólagráður og konur ekki síður en karlar.
Það er nú gott, en þið verðið þá að passa er að lenda ekki í stríði við nágrannaþjóðir ykkar.
*Uuuu við erum reyndar ekki með her og teljumst nú frekar friðsæl þjóð. En við þurfum bara að hlusta á bullið og stríðsyfirlýsingarnar í fíflinu honum Gordon Brown. Það er það sem við munum líklega komst næst því að fara í stríð.
Ok. Segðu mér nú samt ekki að þið komist ekki í hreint vatn.
*Við eigum reyndar besta vatn í heimi.
Nú, er vegakerfið þá ónýtt? Hérna í Afríku ganga allir eða nota asna og stundum reiðhjól. Það eru líka til strætisvagnar hérna, en þeir eru alltaf yfirfullir.
Eru kannski strætóarnir hjá ykkur hættir að ganga?
*Neeee... Það er verið að ræða um hvort almenningssamgöngur hér eigi að vera ókeypis, en það eru flestallir vegir malbikaðir og næstum allir eru á nýlegum bílum.
Eigið þið þá enga peninga til að gera ykkur glaðan dag? Ég meina, þú sagðir að þjóðin væri gjaldþrota.
*Flestir eiga reyndar einhvern sparnað á bókum þó sumir hafi tapað honum eða hluta hans síðustu daga. Það verður alla vega erfitt að kaupa stærri flatskjái og utanlandsferðunum verður að fækka.
Já, ég á kannski einhvern tíma eftir að fara til útlanda, en ég er nú líka frá Uganda. Hefur kannski enginn vinnu og þurfið þið núna öll að betla?
*Neiiij...! Atvinnuleysið er um 2% en við verðum að flytja Pólverjana aftur heim og fara sjálf að vinna vinnuna sem þeir unnu.
Hmmm... Svo þið hafið peninga, mat, húsaskjól, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, búið við frið, eigið nóg hreint vatn og samgöngur eru góðar.
Segðu mér, hvert var vandamálið aftur?
Eftir þessar vangaveltur um aðstæður okkar hérna uppi á skerinu og þetta ímyndaða samtal, ákvað hún að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum áhyggjum sínum af "gjaldþrota" eyríki norður í ballarhafi. Námsgjöld hans skulu greidd hér eftir sem hingað til og kannski fær hann líka smá vasapening með. Hann getur þá kannski tekið strætó í skólann endrum og sinnum í stað þess að þurfa ganga í marga klukkutíma eins og venjulega. Fé hins meinta íslenska terrorista yrði þá líklega bara vel varið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sá sem alltaf þorir
28.10.2008 | 22:53
Já það er ekki ofsögum sagt að Steingrímur Joð þorir. Það var löngu tímabært að íslenskur stjórnmálamaður léti í sér heyra á opinberum vettvangi um þessa ljótu framkomu Brown.
Vonum að Norðurlöndin sjái sóma sinn í að taka undir með okkur Íslendingum. Það á engum að líðast að framkvæma það sem Brown og Darling gerðu.
Steingrímur skammaði Brown | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |