Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Alveg að taka enda

Nú er ég búin að vera í starfsnáminu við HA þessa vikuna, nema í dag þá kenndi ég krökkunum mínum í 7. - 8. bekk - reyndi það minnsta kosti. Nú á ég bara þrjá og hálfan dag eftir og klára um miðjan apríl. Jibbí.Smile

Er reyndar búin að læra helling hjá henni Solveigu í náms- og starfsráðgjöfinni og vona að ég fái vinnu við þetta í nánustu framtíð.

En er á leið á Akureyri aftur þar sem við stöllur, Adda, Heiða, Þurý og ég ætlum að vera í bústað í Kjarnaskógi og reyna að klára þau tvö verkefni sem eftir eru.Whistling 

Við ætlum að hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

Í dag er:

Alþjóðlegur dagur brjálæðislega glæsilegra og geysilega gáfaðra kvenna þar sem boðorðið er:Lífið á ekki að vera rólyndis rölt að grafarbakkanum með það að markmiði að komast örugg á áfangastað í huggulegum og vel varðveittum líkama. Miklu heldur á það að vera blússandi gleðibuna og ískrandi yndisflug með súkkulaði í annarri og vínglas í hinni í fullnýttum og gatslitnum skrokki öskrandi.

Fjárans fjör sem þetta er!

Í bili..........


Góð páskahelgi

Páskahelgin var annasöm hjá okkur hjónunum enda mikið opið í Höllinni. Við vorum með tælenskt kvöld á laugardaginn og lifandi músik eftir það svo dagurinn var langur og komið heim þegar einhverjir voru líkast til að vakna.

Síðan var haldið í vinnu aftur um hádegið á páskadag enda stórleikir á dagskrá. Fjöldi manns var mættur strax um kl. 13 og var mikil stemming. Mitt lið vann að sjálfsögðu skussana í Liverpool 3-0 og svei mér ef það hafði ekki áhrif á það að ég var ekki eins þreytt í smá stund.

Þegar við vorum búin að vinna kl. 18 þá var kartöflum hent í ofninn og haldið af stað með hundana í göngu. Skeggjabrekka varð fyrir valinu og fór minn kæri á snjósleðanum fram eftir en ég á bílnum með stóðið. Erum með "barnabarn" í pössun, hann Hróa sem er búsettur á Húsavík, þannig að ferfætlingarnir voru fjórir.

Færið var frábært og eiginlega synd að sleðinn skuli ekki hafa verið brúkaður meira þessa páskana - en svona er það nú bara þegar mikið er að gera. Við vorum komin heim um kl. 20 og þá var nautasteikin elduð og ég segi það satt að þegar við vorum búin að borða og ganga frá þá var ég alveg punkteruð. Var komin í bólið kl. 22:30 alveg á núllpunkti.

Var vöknuð snemma í morgun að vanda og tók því frekar rólega, skoðaði fréttasíður netsins og kíkti aðeins á skattaframtöl. Tengdapabbi kom svo í kaffi og spjall. Opnaði svo páskaeggið sem ég fékk og þar kom hinn gamli góði málsháttur: Hálfnað er verk þá hafið er. Á ágætlega við mig þar sem ég get valið úr verkefnum í dag sem og flesta aðra daga. Ætli skattframtöl verði ekki fyrir valinu enda að detta á lokafrestur.

Davíð og Ásta fóru svo um kl.14 en Klara Mist verður hér fram eftir vikunni.

Ég er hins vegar á leið til Akureyrar í fyrramálið í starfsþjálfun en ég á eftir rúma sex daga.


Lítill prins

Já hann kom í heiminn um kvöldmatarleytið í gærkveldi litli prinsinn Guðrúnar Pálínu og Boga. 15, 5 merkur og 54 cm. Alveg gullfallegur páskadrengur með galopin blá augu horfði þetta litla kríli á okkur og ætla ég ekki að reyna að spá í hvað hann hefur hugsað.Grin

Alla vega móður og barni heilsast vel og (pabbanum líka) þeir vilja oft gleymast þessar elskur.


Hannes Hólmsteinn - áreiðanlegar heimildir

Hlustaði á Reyni Trausta og Ólaf Þ. Harðar í morgunútvarpi Bylgjunnar í morgun og verð að segja að mér fannst Ólafur fara full frjálst með þegar hann sagði að Hannes hefði aldrei reynt að dylja hvað hann væri að gera með skrifum sínum um Laxness. Eins og það réttlætti málið.

Umræðan gekk út á hvort Háskóli Íslands ætti ekki að taka afstöðu með gjörðum hans eða víkja honum úr starfi sem prófessor og vildi Reynir að skólinn tæki opinberlega afstöðu til málsins. Ólafi fannst þetta vissulega orka tvímælis þar sem Hannes gerði enda væri nemendum uppálagt að geta ávallt heimilda og hann sagðist sjálfur hafa gert athugasemdir við ritgerðir þar sem hann taldi sig kannast fullvel við textann. Hann gaf samt ekkert út á það hvort reka ætti Hannes eður ei.

Verð að segja það að ef Háskólinn lætur manninn ekki fara þá er ljóst að til verður nýtt í fræðunum hjá nemum sem heitir ritgerðarskil að hætti Hannesar. Við getum ekki vænst þess að nemendur geti ekki skilað verkum með sambærilegum hætti til kennara síns (ekki til opinberrar birtingar eða til sölu eins og Hannes gerði) ef Háskólinn telur að starfsmaður sinn, PRÓFESSOR geti leyft sér slík ÖGUÐ vinnubrögð.


Nýjar myndir

Er að setja inn myndir frá Manchester og á morgun set ég inn nokkrar myndir af framkvæmdunum á búgarðinum og af fallega veðrinu hér í Ólafsfirði.Cool

Búin að setja inn fullt af myndum.


Handlangarastörf

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Klörukoti og fékk ég það virðulega embætti að vera handlangari smiðanna minna, þeirra Jóa og Helga. Þeim leiðist nú ekki feðgum að rífa og tæta og sá ég um að koma draslinu í kerruna ásamt því að naglhreinsa og sópa eins og góðum handlangara sæmir. Tounge Svo snýtti maður bara ryki eins og gefur að skilja og því ljóst að sturta og pottur yrði á dagskrá þegar heim kæmi.

Svo eins og góður handlangari þá fékk ég minn kæra með mér að sækja borð og stóla þannig að hægt væri að fá sér kaffi og með því á búgarðinum.Wink

Nú er "rifrildinu" næstum lokið og þá er að hefjast handa við að byggja upp og það verður enn skemmtilegra.  Ljóst að páskarnir verða nýttir í þá vinnu enda ekki seinna vænna ef klárt á að vera fyrir vorið.

Eigandinn kemur úr Reykjavík á morgun og ljóst að hún fær ekki bara að nýta tímann í prófalestur og verkefnavinnu heldur þarf að taka til hendinni í uppbyggingu á eign sinni. Engin miskunn þar. GetLost

Davíð og Ásta er líka væntanleg um páskana og verður frábært að hafa allt liðið heima í nokkra daga.

Í bili.....


Gegn ofbeldi

Við erum langflottasta þjóðin þegar kemur að því að safna einhverju. Allar þessar 25 stelpur sem hekluðu þessi 250 brjóst sem seld voru á uppboðinu í dag eru sönnun þess og auðvitað þeir karlar sem keyptu.

unifem-fidrildavika.jpgFrábær hugmynd hjá þeim í Vatnadansmeyjafélaginu Hrafnhildi. Uppboðið er hluti af söfnun UNIFEM á Íslandi fyrir styrktarsjóð UNIFEM til afnáms ofbeldis gegn konum í fiðrildavikunni. Fiðrildaátak UNIFEM hefur vakið heimsathylgi. Það að 200-300 manns hafi mætt til að taka þátt í uppboðinu er náttúrulega frábært.

Enn er hægt að gefa en formlega lýkur söfnuninni í kvöld.

904-1000 gefur 1000 krónur

904-3000 gefur 3000 krónur 

904-5000 gefur 5000 krónur

Alltaf er þó hægt að leggja inn á söfnunarreikning UNIFEM
0101-15-630052, kt. 551090-2489

 


mbl.is Brjóst fyrir eina milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær leið

til bata fyrir átröskunarsjúklingar sem og aðstandendur þeirra. 12 spora kerfið nær nefnilega líka til aðstandenda sem oftlega verður til þess að þeir skoða sjálfa sig á endanum óháð fíklinum.

Það er með þessa leið eins og margar aðrar að hún hentar sumum og öðrum ekki. En fjölbreytni til sjálfshjálpar er af hinu góða og 12 spora kerfið hefur sannað sig sem slíkt í gegnum árin. Það hef ég séð og upplifað.


mbl.is Átröskun yfirbuguð eins og fíkn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er kominn föstudagur

 


Nú á að taka á því

Á vef Lýðheilsustöðvar geta nú einstaklingar, félagar og fyrirtæki tekið þátt í því sem nefnt hefur verið Lífshlaupið. Yfirskriftin er Þín heilsa - þín skemmtun. Allir aldurshópar í boði og skráist þátttakan á sveitarfélög. Allir Fjallabyggðabúar - saman nú - einn, tveir og þrír.

Ekki það að ég búist við því að ég sjáist hér um alla byggð í ofsa hreyfingu en allt má telja með og er það ágætt fyrir slugsa eins og mig sem sett hefur hreyfinguna á "hilluna" í allt of langan tíma. Enda er að verða meira og meira til af mér og útgjöldin aukast í samræmi við það. Whistling 

En á Hornafirði varð þessi fína vísa til hjá einum þátttakandanum.

Í 70 mínútur gekk ég í gær
gegndrepa, stæltur og svangur.
Ég skynjaði þá, að í flest er ég fær
ég finn ei til þreytu ?svo langt sem það nær-
enda var ekki vegurinn langur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband