Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Og jólin komu

Já góðan daginn og gleðilega hátíð. 

Já svei mér þá þrátt fyrir allt og allt þá komu nú blessuð jólin til okkar hér í Hlíðarveginum eins og líklega víðast annars staðar. Það fylgir þó hér á heimilinu ennþá sá óskundi að vera með allt á síðasta snúningi og eiginlega eins og minn kæri haldi að jólin komi ekki nema hann eigi nú soldið eftir að gera á aðfangadag svo sem eins og að skreyta úti eða eitthvað annað. En svona er nú það.

Ég lét reyndar þau orð falla að ég væri að verða of gömul fyrir svona vökur og læti eins og okkur hafa fylgt okkar búskaparár. Ég vildi eiginlega eiga normal aðfangadag og þá fékk ég spurninguna hvað er normal aðfangadagur? Jú í mínum huga er það þegar ég get lúrt eins lengi og mig langar til og ég á ekkert eftir að gera af því sem ég og mitt fólk vill gera fyrir þessa hátíð annað en að fara með kortin, pakkana og knúsa fólkið. En maður stefnir alltaf á að gera betur og svei mér þá ef ég reyni ekki við það fyrir næstu jól.Joyful

Við fórum til mömmu á Hornbrekku með pakkana og annað smálegt sem nota þarf á þessum degi. Hún var sæmilega hress en þó ekki svo að hún treysti sér til okkar í Hlíðarveginn enda erfitt hús fyrir fólk sem bundið er við hjólastól.

Annars var ég svo ánægð með jólamatinn og held hann hafi aldrei verið betri enda vandmeðfarinn að elda. Allir tóku undir og borðuðu á sig gat eins og vera ber á þessum degi. Enda tókum við langan tíma í að borða og settumst ekki við að opna pakka fyrr en kl. 20:30 og eiginlega merkilegt hvað Jódís Jana var spök og dugleg að bíða þrátt fyrir að vera bara 8 ára. Flottust þessi stelpaHeart

Í dag, jóladag svaf fólk lengur eins og alltaf á þessum degi og þegar húsfrúin fór á fætur var búið til jólasúkkulaði og tilheyrandi sem mannskapurinn gæddi sér á frameftir degi. Við skötuhjúin fórum í göngu með hundana og var ágætt að bræða aðeins af sér jólakonfektið og undirbúa næstu törn sem var í kvöld hjá tengdó. Þar var dýrindis hangikjöt og svið ásamt heimalögðuðum ís - allt eftir bókinni.

Nú er komið að bókalestri enda nokkrar bækur í boði, bæði ævisögur og annað góðmeti.

Þar til síðar...

 


Jólin nálgast óðum

Já það er langt síðan ég bloggaði síðast enda mikið búið að vera að gera hjá mér og mínum að vanda. Nú er verið að gera jólahreint en minn kæri vex aldrei upp úr því. Hann hefur yfirumsjón með öllum jólaskreytingum enda listamaður þegar kemur að þeim. Jólaljós inni og úti eru að tínast upp hægt og hægt þessa síðustu daga og þrátt fyrir að við heitum því á hverju ári að vera ekki með allt á síðustu stundu sem okkur langar að gera er það einhvern veginn þannig að við erum aftur í þeirri stöðu nú þessi jólin.Crying

Hundarnir fengu jólabaðið í morgun eftir hressilega göngu fram Skeggjabrekkudalinn og voru misánægðar með það. Bælin þvegin og allt eins og vera ber.

Davíð kom í fyrradag heim og Klara Mist er væntanleg á morgun uppúr hádeginu. Þá ætla hjónin í Hlíðarveginum að fara og sækja hana og klára jólagjafainnkaupin en þau eru heldur í seinni kantinum eins og fleira þetta árið. Við erum þó þannig að vilja vera heima á Þorláksmessu og dútla í einu og öðru, hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu og njóta dagsins. Gerum það með kvöldinu. Þá er bara að fá sér kakó og kökur á Akureyri með pökkunum. Wink

Annars verður skötuhlaðborð í Höllinni á morgun ásamt öðru góðgæti, bæði í hádegi og um kvöldmat. Ummmm segi ég nú bara og hlakka mikið til að smjatta á þessu góðgæti.

En nú er ekki seinna vænna en að hætta að slóra og halda áfram með húsverkin.


Höllin stækkar

Jæja þá er stækkunin á Höllinni orðin að veruleika. Nýi salurinn fær góðar viðtökur og þykir huggulegur. Á föstudaginn var Ölgerðin með kynningu á bjór og Hófa með Aveda. Ekki fannst mér nú nógu góð mæting en bæjarbúar vöknuðu að vanda frekar seint og fjörið varði fram eftir nóttu. Við fórum frekar seint í háttinn hjónin þessa nóttina.

Laugardagurinn byrjaði með hundagöngu hjá okkur hjónunum og síðan var haldið til Akureyrar þar sem ég fór í jólaklippinguna hjá Ástu tengdadóttur og svei mér þá ef ég skánaði ekki bara svolítið. Wink Líður alla vega þannig. Komum heim um áttleytið en þá rauk ég í mat hjá Héðinsfjarðargangnamönnum í Tjarnarborg en stoppaði stutt. Við kíktum svo í Höllina um miðnættið og þar var fjör enda Maggi og Gulli að spila fína músik og fólk virtist skemmta sér ljómandi vel. Aftur seint í háttinn þar sem maður fór að atast enda margt um manninn.

Davíð og Ásta voru með okkur en hann fór svo suður í dag en hún verður að vinna á Akureyri til jóla.

Í dag var svo boðið upp á kakó, vöfflur og súkkulaðikökur í Höllinni og slæddust þó nokkrir í það í dag.

Ásgeir bróðir, María og Ísabella Sól komu um síðustu helgi og var voða ljúft að sjá þau. Við vorum reyndar lítið heima þar sem verið var að leggja lokahönd á salinn. Síðan var leikhús á laugardeginum sem var löngu planað með Jódísi Jönu á Óvitana, rosalega skemmtilegt. Hún gisti hjá Gúlgu og Boga en við skelltum okkur í beinu framhaldi af leikhúsinu á tónleika hjá Sinfoníuhljómsveit Norðurlands og Garðari Cortes - nokkuð góðir tónleikar. Jólahlaðborð á Kea og komin í háttinn fyrir miðnætti gamla settið alveg sprungin.Woundering

Nú er bara að kortleggja næstu viku, baka, finna jóladótið og allt það.


Safnaðarheimili vígt

Í dag var vígt nýtt safnaðarheimili Ólafsfjarðarkirkju eftir að hafa verið um 10 ár í byggingu. Peningar eru það sem hamlað hefur mest framgangi byggingarinnar en nú er þetta orðið að veruleika.

Athöfnin var notaleg og voru vígslubiskup ásamt öðrum fyrirmennum við athöfina. Að athöfn lokinni gafst kirkjugestum tækifæri á að skoða aðstöðuna. Hún hefur m.a. að geyma herbergi fyrir kórinn, skrifstofu prestsins og kyrrðarherbergi sem er mjög fallegt.

Eftir athöfina var boðið í kaffisamsæti í Tjarnarborg og sáu Slysavarnarkonur og kvenfélagskonur um kaffið. Að vanda svignaði borðið undan kræsingunum.Nokkrir prestar sem hér hafa þjónað voru viðstaddir og rifjuðu upp skemmtileg atvik úr prestþjónustu sinni hér á staðnum. Óskar Þór, formaður bygginganefndar fór yfir byggingarsöguna og tengdi núverandi verktaka við þá sem byrjuðu og fór svo langt aftur þegar endurbætur voru gerðar á sjálfri kirkjunni að mig minnir árið 1956.

Alla vega yndislegur dagur og gott að slaka á svona í byrjun aðventu.


Opinn dagur

Marsvínareksturinn

(sem reyndar vóru steinar)

„Missum ei það mikla happ,

maginn kann þess gjalda!“

Heldur var í körlum kapp,

þeir köstuðu grjóti – ekkert slapp,

samt mun Hallur hlutnum sínum valda.

Samið á árunum 1829-1832 

Þar sem starfsdagur var í mínum skóla á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar var ákveðið að hafa opið hús í dag í skólanum þar sem nemendur unnu og sýndu afrakstur vinnu sinnar vegna afmælis Jónasar.

Minn bekkur, 7. - 8. fór á dvalarheimilið Hornbrekku, í starfsstöð Alþingis, á leikskólann og í sparisjóðinn og las fyrir starfsmenn. Það lukkaðist hreint ágætlega hjá þeim.

Myndir af gestum og gangandi sem heimsóttu nemendur í barnaskólahúsið verða settar inn á heimasíðu skólans á mánudaginn.

Annars var veður fremur vont hér í morgun en hefur gengið niður með kvöldinu. Er að vinna í Höllinni en rólegt í nótt og ég á leið heim fljótlega.

Breytingarnar ganga vel og vonandi að þetta klárist von bráðar.Wink


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband