Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Og getið nú

Finnst orðabrellur/gátur Gunnars frábærar og þessar tvær eiga vel við  núna. Endilega reynið fyrir ykkur í lausnum. Um er að ræða eitt orð fyrir hverja vísu sem með einhverjum hætti má tengja hverri línu.

 

Ráða yfir ríki hér,                                           

rétt að nefna hægri kant.                                

Stendur vakt og stýra ber,                              

stillir beislið upp í trant.

 

 

Eitthvað sem að enda tekur,                 

endar vertíð fyrir rest.                         

Illgresi sem engi þekur,                       

öllum pottum fylgir best


Snilld

Snilld

Henry260109

http://www.smugan.is/i-mynd/skopmyndir/henry-thor/nr/731


Fallegar systur

Verð að setja þessar myndir hér af þessum fallegu systrum. Ísabella Sól með nýfædda systur í morgun.


Ábyrgðaleysi

Það var frekar dapurt að heyra í Geir Haarde í kvöld í sjónvarpinu maðurinn er í einhverjum öðrum veruleika held ég en við hin - flest. Þrátt fyrir að afar fáir hafi trú á stjórnvöldum, hvort heldur innanlands eða utan, þá telur hann ekki ástæðu til að stjórnin fari frá. Nei hann og hans fólk kann og getur allt best öðrum er bara ekki treystandi til að veiða upp úr því djúpa fljóti sem hann og hans föruneyti er búið að koma þjóðinni í. 

Spaugstofan fór vel með þetta í síðasta þætti þar sem Geir virðist bara heyra það sem honum hentar - spurning hvort hann var með þessa sömu heyrn í gær þegar hæst lét fyrir utan Alþingi. Hann hefur hins vegar ekki komist hjá því að alla vega sjá í dag þegar hann var umkringdur reiðu fólki. 

Það má svo velta því fyrir sér hver ábyrgð formanns Samfylkingarinnar er í þessu öllu. Sökum veikinda sinna er henni hlíft við gagnrýninni en er það ekki ábyrgðarhluti að mæta svo veik til starfa í haust eins og hún gerði?  Það er ekki verið að tala um einhverjar smotterísákvarðanir sem teknar hafa verið fyrir hönd þjóðarinnar.

Geir segist hafa talað við hana í dag en svo fundar Samfylkingarfólk, þingmenn og almennir félagar þar sem þeir tala allt annað tungumál en það sem Geir flutti í kvöld eftir að hafa sammælst við Ingibjörgu. Er nema von að fólk sé æst, reitt og óttaslegið um framtíðina. Hverjum er að trúa í þessu öllu saman?

Svo er auðvitað hin stóra spurning sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa ekki enn fengist til að svara. Hvað þarf til að ríkisstjórn segi af sér? 

Þetta er náttúrulega lenska hér í Bananalandi að allt sé leyfilegt í ríkisstjórn og engin ástæða til að fólk segi sig laust frá þessum stólum þrátt fyrir að brjóta á þjóðinni með þeim hætti sem gert hefur verið.

Myndum þjóðstjórn og boðum til kosninga. 


Ljúfir dagar

Já þeir hafa liðið ótrúlega hratt þessir dagar á nýju ári og á morgun verður litla heimasætan 10 ára. Af því tilefni vorum við að baka mæðgur í dag.

Ég hef gaman af því að baka og tekst það oftast hreint ágætlega en fyrir morgundaginn var heimasætan með óskir um Barbie köku. Keypt var þar til gert form með afar fallegum myndum og fyrirmyndin var örugglega teiknuð í Photoshop af framleiðendum Disney en ekki unnin af amerískum bakara.

Ég var tilbúin með útskýringar á því að líklega gæti ég nú ekki skreytt þessa elsku eins og myndirnar væru sem með fylgdu en hún var fyrri til og vildi alls ekki svona hafmeyju eða þessa í kjólnum með öllum rósunum sem voru á stærð við títuprjónshaus. Mikið var mér létt þegar tillagan kom um að hún væri í grænum marsipankjól.

Þegar ég var svo búin að fletja út marsipanið og troða því á blessaða kökuna þá komu vonbrigðin í ljós.

Samtalið var einhvern veginn svona:

Jódís Jana, með þvílíkan sorgarsvip, mér finnst hann ekki fallegur mér finnst þessi hlið ljót

Ég reyndi að bjarga mér úr klípunni og svaraði að kjólar væru nú ekki alltaf rennisléttir, við gætum kannski falið misfellurnar með súkkulaði eða einhverju öðru

Jódís Jana: já við getum kannski snúið ljótu hliðinni, nei ég meina krumpuðu hliðinni, mamma verður þú ekki sár þegar ég segi ljótu hliðinni?

Ég: Nei vinan þetta hefði nú getað verið betra ég þarf greinilega að æfa mig í svona kjólaskreytingum

Jódís Jana: það er náttúrlega ekki allt fullkomið hjá manni í fyrsta skipti það segir þú alltaf við mig

Ég: Æi takk elskan fallega sagt hjá þér við æfum okkur saman í sumar

Síðan var kakan skreytt með súkkulaði og barbí sett í svartan/silfraðan topp og þá sagði Jódís Jana: Oh mamma hún er frábær ég vil helst ekki borða hana hún er svo flott hjá þér.

Veit ekki hvort þetta er fyrsti fyrirboði unglingsáranna þegar skipt er um skap og tilfinningarnar flæða á alla kanta en mín fékk bara knús frá mömmu í þetta skipið fyrir þessi fallegu orð.

Nú verður tekin mynd af kökunni þannig að hún geti ásamt afmælisgestum borðað blessaða kökuna sem vonandi smakkast þokkalega - annars er aðalmálið að hún er glöð þennan síðasta dag sem 9 ára stúlka.

Það er nefnilega merkilegur áfangi að fanga fyrsta tuginn í lífinu - maður er svo ótrúlega stór og þroskaður þegar honum er náð.

Í bili......

 


Fallegur dagur

Gleðilegt ár til ykkar sem blogg mitt nenna að lesa.

Mikið var sprengt hér í Ólafsfirði í nótt og veður gat ekki verið betra. Enda voru gestir Hallarinnar glaðir í sinni í nótt og bjartsýnir á árið sem nú er að hefjast. Þetta er alltaf öðruvísi barvakt allir svo jákvæðir mikið um kossa og knús.

En þegar við hjónin fórum heim um hálf sex í morgun þá var stillt veður og ekki var það síðra þegar við fórum á fætur um hádegið. Ég gerðist svo djörf að færa honum morgunmat í rúmið og síðan lákum við út í pott. Þar horfðum við á litla rellu svífa hér um fjörðinn og lenda á vatninu sem hefur verið mikið nýtt nú um jólin af mótorkross og vélsleðafólki. En það þýddi víst ekkert að dorma bara heldur rifum við okkur af stað í göngutúr með tíkurnar sem hlupu og nutu góða veðursins.

Að göngutúrnum loknum var boðið upp á heitt súkkulaði hjá tengdó ásamt bakkelsi svona til að viðhalda orkunni.

Nú er búið að dorma fyrir framan sjónvarpið og komið að því að elda steikina. Þetta át fer að taka enda þ.e. í því mæli sem það hefur átt sér stað því það er jú kreppa og fötin passa ekki eins vel núna og fyrir jólin svo að matseðilinn þarf líklega að endurskoða.

Í bili....

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband