Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Fólk er hrat

Það er sem sagt viðurkennt að Sjálfstæðisflokknum, alla vega fulltrúa hans í umræðunni í morgun, Tryggva Þór Herbertssyni, þykja milljón á mánuði léleg laun og þeir bankamenn sem það þiggja eða minna séu hrat. 

Þingmaðurinn er afar ósmekklegur í orðavali og er ég ekki viss um að þjóðin sé sammála honum. Ég tel að þjóðin sé ekki tilbúin til þess að þeirri stefnu sem boðuð hefur verið varðandi laun ríkisstarfsmanna verði hætt þ.e. að laun verði ekki hærri en laun forsætisráðherra.

Ég er sannfærð um að þeir ríkisstarfsmenn sem hafa lægri laun en milljón á mánuði og eru í ábyrgðarstöðum séu hreint ágætt fólk og samkeppnishæft hvar sem er. En það eru 2007 viðmið sem Tryggvi Þór kann best og vill greinilega viðhalda.

Í bili...


mbl.is Laun forstjóra ríkisbanka ekki samkeppnishæf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég og Solskjer - sannfæring

Á síðu 16 í Fréttablaðinu í dag er þetta að finna: 

Súpersöbb

Ole Gunnar Solskjer er öllum að góðu kunnur. Hann fékk fljótt viðurnefnið súpersöbb, þar sem hann lagði það í vana sinn að skora þegar hann kom inn á hjá Manchester United.

Nú hefur nýr súpersöbb litið dagsins ljós, Bjarkey Gunnarsdóttir. Í síðustu viku samþykkti hún ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar, í fjarveru Björgvins Vals Leifssonar, (á væntalega að vera Björns Vals Gíslasonar) og í gær nefndarálit í fjarveru Lilju Mósesdóttur.

Það er ekki leiðum að líkjast þegar talið kemur að svo góðum fótboltamanni en hitt er svo annað mál og öllu merkilegra en það er að sumt telst sannfæring en annað ekki.

Mín sannfæring t.d. í atkvæðagreiðslu ESB var mjög eindregin og rökstuddi ég hana með ágætum að ég tel. Það er ekki verri sannfæring en hjá þeim sem greiddu atkvæði gegn tillögunni. En það hefur borið töluvert á því í umræðum um hin umdeildu mál sem Alþingi hefur verið að fjalla um og er að gera. Má jafnvel tala um að heilt yfir tali þingmenn þá gegn sannfæringu sinni eða með þegar hópurinn er sammála nú eða sammála um að vera ósammála einhverju? Ef einhverjir skera sig ekki úr í umræðunni þá hvað?

Nú er látið svo að ég sé mjög auðsveip og geri eins flokksforustan ætlast til en ég held að þeir sem þekkja mig viti betur en svo. Ég hef haft ákveðnar skoðanir á lífinu og tilverunni hingað til og ekki látið beygja mig í duftið. Hins vegar tel ég það mjög mikilvægt að hafa í huga að það sem mér finnst er ekki endilega alltaf best fyrir fjöldann og ég get tekið rökum ef því er að skipta en að segja að ég sé varamaður á þingi sem hafi ekki sannfæringu er í besta falli hlægilegt og lýsandi fyrir þá sem ekki hafa önnur rök fram að færa gagnvart mér.

Í bili.....


"Drottningin"

Hann hefur stundum verið uppnefndur Dabbi kóngur en það sem er athyglisvert við þennan þátt er að hann fær drottningarviðtal - einn með Sölva en fulltrúar stjórnar, ráðherrar, og stjórnarandstöðu allir saman.

Davíð hefði aldrei komið í svona viðtal meðan hann var ráðherra slíkur var hrokinn enda datt engum það í hug þ.e. að bjóða honum nema bara einum.


mbl.is Davíð í Málefninu í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ríplast

Í gær voru snjóflóðavarnagörðunum fyrir ofan þéttbýlið í Siglufirði gefin nöfn. Það voru tillögur þeirra félaga í Örnefnafélaginu Snóki sem hlaut náð fyrir augum dómnefndar. http://snokur.is Þetta er heimasíða þeirra félaga.

Ég gekk ásamt umhverfisráðherra, samgönguráðherra, bæjarfulltrúum og mörgum fleirum eftir görðunum í ljómandi góðu veðri og fannst gönguleiðin styttri en ég taldi í upphafi. Hvet fólk til þess að sjá garðana "ofan frá" með þessum hætti og horfa yfir bæinn. Það er bæði hægt að ganga uppá görðunum og eins fyrir neðan þá þ.e. þar sem snjórinn safnast.         

Nöfn  þvergarðana, talið frá suðri:

1.    Hlíðarrípill

2.    Hafnarrípill

3.    Skriðurípill

4.    Skálarrípill

5.    Bakkarípill 

Leiðigarðurinn sem nyrstur er fær nafnið:

6.    Kálfur 

Þeir félagar útskýra orðið rípill sem svo: „Rípill er nafn á garði eða hrygg í landslagi og er alloft notað í jarðfræði t.d. jökulríplar. Í norðanverðum Héðinsfirði ( framundan Músardal ) er örnefnið Rípill.“

Þeim þótti viðeigandi að segja okkur að orðið rípill beygist eins og spegill.

Þess má geta að Rípil er einnig að finna í Ólafsfjarðmúla.

Það eru líka tvær tjarnir sem fengu nöfn önnur er við innkomuna í bæinn og heitir Bakkatjörn en hin er syðst í bænum við enda garðanna og heitir Bolatjörn.


Til hamingju Ármann

Ármann er einstakur maður og afar fjölhæfur. Hann er svo sannarlega vel að þessum verðlaunum kominn. Ég á eftir að lesa bókina um Tolkien og Hringinn en bókin Vonarstræti er mjög skemmtileg aflestrar. Svo var safnað saman greinum sem hann og fleiri skrifuðu á Múrinn - vefrit og ber sama heiti og er skyldulesning allra sem áhuga hafa á pólitík. Í rökstuðningi með verðlaununum segir m.a.: 

Það vekur sérstaka athygli í hversu mörgum og ólíkum ritum Ármann hefur birt greinar, og sýnir það með öðru þá áherslu sem hann leggur á að kynna rannsóknir sínar á sem fjölbreyttustum vettvangi. Ekki síður endurspeglar það mikla fræðilega breidd því hann er jafnvígur á leyndardóma miðaldabókmennta og spennusögur nútímans. Hann virðist þó hafa sérstakt dálæti á tröllum og öðrum forynjum og því til áréttingar skrifaði hann heila bók um Tolkien og Hringinn sem kom út um það leyti sem kvikmyndirnar um Hringadróttinssögu fóru sem eldur í sinu um heimsbyggðina.

Ármann hefur einnig tekið mjög virkan þátt í þjóðfélagsumræðu sem róttækur pistlahöfundur í dagblöðum og á netinu og hafa ýmsir pistlar hans verið gefnir út í bókarformi. En hann hefur ekki látið þar við sitja. Hann hefur einnig skipað sér í sveit skáldsagnahöfunda, en fyrsta skáldsaga hans, Vonarstræti, kom út á síðasta ári. Í henni fjallar hann um eitt ár í lífi langömmu sinnar og langafa, þeirra Theodóru og Skúla Thoroddsen, þegar hart var tekist á um Uppkastið svonefnda árið 1908. Þó svo að þarna sé skáldsaga á ferð er augljóst að höfundurinn nýtir sér fræðilega þekkingu sína og tekst að tengja söguefnið við önnur tímabil í sögu þjóðarinnar. Ármann hlaut einróma lof gagnrýnenda fyrir bókina og með henni hefur hann haslað sér völl á nýjum vettvangi.

 


mbl.is Ármann Jakobsson hlýtur hvatningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband