Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Springur á bifreiðum í dag?

Skilst að ég hafi hlotið þann "heiður" að komast í Moggann eða öllu heldur vísun í bloggið mitt. Gasalega skemmtilegt en ég kaupi nú blaðið ekki enda lítill tími til að lesa en stefni samt á að kaupa mér helgaráskrift í vetur þar sem ég fæ Fréttablaðið eða Blaðið ekki nema ég komist í búðina fyrir hádegi, því ekki er það borið út til okkar Ólafsfirðinga.

Komst á lokatónleika Berjadaga í gær og voru þeir hreint frábærir eins og þeirra er von og vísa. Mér fannst, að öðrum ólöstuðum, Ari vera magnaður á fiðluna. Mér þótti vanta ungt fólk til að hlusta á unga fólkið sem er að spila flotta klassík.

Fórum á Sigló í morgun á námskeið hjá Ingvari Sigurgeirs um fjölbreytt námsmat sem er þróunarverkefni hjá skólum Fjallabyggðar næstu tvö árin. Þetta var fyrri dagurinn og var hann mjög áhugaverður. Þær komu einnig tvær stöllur úr Hrafnagilsskóla og sögðu frá því sem þar er verið að gera en sá skóli er í svipaðri vinnu og við erum að hella okkur útí.

Við erum svo heppin að hér er vel mannaður skóli og engin vöntun á starfsfólki. Hins vegar finnst manni, eftir að hafa setið svona námskeið, að launin séu allt of lág fyrir alla þá vinnu sem nú bætist við og tíminn lítill.

Annars lentum við í smá ævintýri á leiðinni, vorum 22 á fimm bílum og það sprakk á einum þeirra við Brúnastaði. Það er eitthvað sem kemur orðið sjaldan fyrir og okkur þótti það skondið að það var bíll bifvélavirkjans sem varð fyrir því og varadekkið loftlaust. Ég get sagt ykkur það að konan hans varð að vonum ekki kátDevil en við gátum skipt þeim sem í bílum voru í næstu bíla og málið reddaðist. Hann var svo búinn að redda bílnum þannig að hún keyrði heim þegar námskeiðið var búið þar sem kagginn beið við Brúnastaði.

 


Berjablámi

Það segir mér fólk sem komið hefur í Höllina þessa vikuna að hér sé allt fullt af berjum. Ekki hef ég haft tök á því að fara í berjamó en á Skeggjabrekku þar sem ég viðra hundana mína hef ég rölt aðeins og kíkt og tek undir það að vel er af berjunum. Fór síðast í morgun og tíndi í munninn þar sem ég og minn kæri gengum í dýrindis veðri með ferfætlingana.

Berjadagar eru hér þessa helgi og metnaðarfull dagskrá að vanda sem lýkur í kvöld með berjabláum tónum.

Kennarar og starfsfólk hittist hjá stýrunni á föstudagsmorgun og var gaman að hitta liðið, bæði "gamalt" og "nýtt" og hrista hópinn aðeins saman. Ekki var hægt að fara í skólana þar sem viðhald stendur enn yfir og lýkur ekki fyrr en í næstu viku. Við verðum á Sigló á mánud. og þriðjud. á námskeiði um fjölbreytt námsmat sem Ingvar Sigurgeirsson leiðir hjá skólunum í Fjallabyggð. Mjög spennandi sérstklega þar sem ég er lítið hlynnt hinum hefðbundnu prófum og slíku námsmati enda tel ég það ekki mæta nemendum í nútímaþjóðfélagi.

En ég er spennt að fara með krakkana "mína" í gagnfræðaskóla húsið og sjálf að skipta um vinnustöð. Verð að vísu álíka mikið í báðum skólahúsum og þykir mér það gott.

En ég eins og Herdís skólasystir þarf að kaupa mér nýja tölvu, ekki fartölvu heldur borðtölvu og vildi helst makka en minn kæri vill það ekki. Sá fyrir mér makka með flatskjá og innvolsið þar en ekki auka box við hliðina eins og fylgir pc. Hef aldrei unnið á makka en tel þær betri til myndvinnslu og grafíkin flott en hvað veit ég?


Skólar og ráðningar

Hef velt því fyrir mér í kjölfar fjölgunar Hjallastefnuskóla hvers vegna ekki er hægt að reka skóla með Möggu án þess að einkvæða. Vissulega vill hún fá að stjórna og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það en það gerir stefnuna ekki betri að hún sé í einkarekstri, óttast reyndar fjölgunina og tel að nú gætu önnur sjónarmið farið að ráða ferðinni en hugsjónin ein.

Það má líka velta því fyrir sér af hverju talað er um einkarekstur þegar slíkir skólar fá framlag frá ríkinu til jafns við aðra skóla og auk þess fé frá atvinnulífinu eða annars konar styrki.

Það kom að máli við mig leikskólakennari sem langaði að flytja norður en fékk ekki vinnu að henni stæði til boða vinna á leikskóla einum hjá Hjallastefnunni og þar fengi hún 330 þúsund í laun á mánuði með vinnutímann 8-15. Hún væri ekki nema rétt hundrað þúsund krónum hærri en ég grunnskólakennarablókin ef hún ákveður að taka þessu starfi.

Starf kennarans snýst ekki bara um hugsjón, ekki heldur í Hjallaskólum, heldur líka um laun og er ég ánægð ef hægt er að borga betur en finnst það óeðlilegt að ríkið styrki einkaframtakið til þess einvörðungu en ekki opinbera skóla.

Enda sýnir það sig að 69 kennara vantar við grunnskóla Reykjavíkurborgar og bið eftir leikskólaplássi vegna manneklu eykst. Hvað er skrýtið við þetta?


Arrgggggggg 365 miðlar

Er svo reið yfir svívirðingunni sem 365 miðlar sýna mér sem landsbyggðarbúa að ég á ekki til orð. Ef málið snérist eingöngu um mig þá myndi ég gefa frat í þá.

En ég rek veitingastað sem býður uppá enska boltann og þar sem ég er í Ólafsfirði fæ ég ekki hliðarstöðvarnar sem þeir hafa þó með reglulegu millibili í allt sumar sagt að yrðu klárar þegar boltinn byrjaði að rúlla. Enska deildin byrjaði svo formlega í gær og að sjálfsögðu höfum við engar hliðarrásir og getum því ekki valið leik og ekki á döfinni samkvæmt upplýsingum í gær. Ekki nóg með það heldur tollir stöðin ekki inni nema stutta stund og endalaust kemur að dagskráin sé lokuð.

Er að hugsa um að senda málið til Umboðsmanns Alþingis, tel að þetta geti ekki verið lögmætt að við greiðum sama gjald og þeir sem fá allar hliðarrásir sem sérstaklega eru auglýstar af 365.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband