Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Öll að hjarna við enda útskrift um helgina

Já ég er öll að koma til og er dagurinn í dag sá besti frá því um hvítasunnu. Ennþá töluverður höfuðverkur en rugga þó ekki ef ég hreyfi mig og ógleðin öll að hverfa.Grin

En að því sem skiptir öllu máli núna. Klara Mist er að útskrifast og var mikil dramatík í gangi hér í gær enda kom síðasta einkunn þegar nálgaðist miðnætti í gærkveldi. Ekki beint verið að hugsa til þess að fólk þarf að ganga frá ýmsu fyrir slíka viðburði.

En aðalmálið er að hún stóð allt með sóma þessi elska - ekki að spyrja að henni. Vinnandi fulla vinnu og rúllar svo upp sjö prófum eins og ekkert sé.Halo

Við mæðgur fljúgum um hádegisbilið á morgun en Helgi verður farinn á vegum vinnunnar eldsnemma í fyrramálið og hittir okkur í borginni.

Annars fátt títt annað en minn kæri vinnur í Tröllakoti alla daga við að koma því í stand en gengur hægt.

Í bili....


Jafnvægistaugarþroti (vestibularis neuronitis)

Er sem sagt ástæða þess að ég hef ekki bloggað í marga daga.

Um þetta segir á Vísindavefnum:

Skyndilegur og svo stöðugur snarsvimi (vertigo) með ógleði og oft uppköstum og nystagmus frá veika eyranu en án heyrnardeyfu eða tinnitus. Fjarar hægt út (dagar – vikur). Sjúklingur liggur því í nokkra daga og batnar svo smátt og smátt.

Nystagmografia (kaloríupróf) sýnir skerta eða enga kaloríska svörun í veika eyranu.

Meðferð: Svimastillandi lyf í byrjun.

Æfingar (vestibular rehabilitation) – Sitja og eða ganga um og hreyfa höfuð og æfa heila og láta hann jafna sig á því að hann hefur bara eina taug – núllstillir sig. Flestir jafna sig nær alveg á þessu (þó síst gamalt fólk).

Fékk fyrstu einkenni á laugardaginn en snarversnaði á sunnudagskvöld og er eiginlega búin að vera hundléleg síðan. Má ekki hreyfa mig of hratt eða leggjast niður nema í rólegheitunum annars fer allt af stað. Verst eru þó höfðuverkirnir sem þessu fylgja og eru nánast stöðugir en þetta getur bara bestnað eða þannig. 

Ég verð að gera eins og sagt er hér að ofan, æfa heilann, mér finnst þetta bara fyndið. En fór til Beggu í gær í höfuðbeina og spjald meðferð og er örlítið skárri í dag en þetta tekur víst tíma og hann verð ég að reyna að finna einhversstaðar.

Í bili.......


Jibbý - allt að verða búið

Það er alltaf svo þegar maður líkur einhverju þá verður maður kátur og einhvern veginn léttari á sér. Það á við um mig í dag. Er búin með skýrsluna um starfsnámið mitt og á leið í pósthúsið með hana.

Þá er flestu lokið og einungis eftir að taka saman allt það sem safnast hefur í sarpinn í starfsnáminu og setja það í eitthvert frambærilegt form fyrir föstudaginn næstkomandi en þá ætlar Sif kennari að hitta mig og Solveigu, náms- og starfsráðgjafann í Háskólanum á Akureyri, sem ég var hjá í starfsþjálfun og fram fer viðtal/samtal um skýrsluna og ferilmöppuna.

Að því loknu verð ég væntanlega komin með réttindi til að starfa sem náms- og starfsráðgjafi en formleg útskrift verður 14. maí.

Klara Mist er að ljúka stúdentsprófi (vonandi) og hennar síðasta próf er 16. maí. Hún á svo að útskrifast 23. maí en saman ætlum við að slá upp veislu þann 17. júní.

Í bili.......


Bandýmót

Í níunda sinn var haldið bandýmót hér í Ólafsfirði og líklega aldrei eins mikil tilþrif í innkomuatriðum eða búningahönnun. Höllin var með lið, að sjálfsögðu en við náðum ekki að verja titilinn og lentum í 3. - 4. sæti. Vorum í því öðru í fyrra. Þá fengum við einnig titilinn bestu nýliðarnir og Mistin mín var besti leikmaðurinn.

En verðlaunin eru fyrir hina ýmsu þætti og minn kæri var í sigurliðinu þ.e. Sparisjóðsliðinu. Grin Svo fékk hann verðlaun fyrir bestu tilþrifin enda ekki á allra færi að taka hjólhestaspyrnu og hitta lítinn bandýbolta. En sjón er sögu ríkari og bendi ég ykkur á myndir hér hjá Magnúsi Marinós og vona ég að hann taki það ekki illa upp að ég setji hér nokkrar myndir af Hallarfólkinu. Eins er Guðný Olgu að setja inn myndir sem þið verið að kíkja á.

 

 


Myndir af Andrésarleikunum

Guðný Ágústar er dugleg að myndir og var hún á sumardaginn fyrsta á Andrésarleikunum og flesti flest börn okkar Ólafsfirðinga á mynd. Hérna er Jódís Jana, einbeitt á svip, að fara fram úr Margéti Líf skólasystur sinni. Ég tók mér það bessaleyfi að skella tveim myndum af skvísunni minni hér inn en endilega skoðið allar myndirnar hjá Guðnýju.


Gleðilegan 1. maí - eða hvað?

Veit ekki hvort hægt er að tala um gleðilegan dag þegar verkamenn, hjúkrunarfræðingar og kennarar ásamt svo mörgum öðrum eru enn að berjast fyrir mannsæmandi launum þrátt fyrir áratuga langa baráttu.

Óðaverðbólga, nú þegar búið að éta upp þá samninga sem gerðir hafa verið, og efnahagsstjórnin í molum og ekkert í kortunum sem gefur til kynna að það breytist í náinniframtíð.

Ég vona líka að kennarar hlaupi ekki til og skrifi undir án þess að hugsa svolítið um samninginn. Eitt og annað hefur verið reynt til að hífa upp launin, viðbótarpottur, 6500 kr. með hverju stöðugildi osfrv. Nú eru TV einingarnar komnar inn í samninginn og þurfa skólastjórnendur að rökstyðja fyrir sveitarstjórn ef þeir kjósa að nýta þá og borga sínum kennurum ofan á grunnlaunin.

Með þessum samningum erum við líka að elta t.d. leikskólakennara, sem náðu sem betur fer þokkalegum áfanga í samningagerðinni síðast, en þeirra samningur er laus að mig minnir í nóvember og þá vonandi ná þeir einhverjum af sínum kröfum fram. En hvað eru sambærileg laun?

En ég verð að segja að kennarastarfið er misjafnt og hef ég kynnst kennslu í framhaldsskóla og háskóla sem nemi og foreldri og fullyrði að álagið í grunnskólanum er mun meira - ekki bara öðruvísi. Samfélagið og foreldarnir fylgjast með hverju fótmáli grunnskólakennarans en þegar börnin eru komin í framhaldsskóla - oft í burtu frá heimahögunum - þá er eftirlit foreldra í lágmarki - oftast. Það er ekki það að kennslan þoli ekki nálaraugað- ekki misskilja mig en fáar stéttir eru undir slíku nálarauga. Miðsstýring er töluverð vegna námsskrár, samræmdra prófa og fleiru þrátt fyrir að ýmsir haldi annað.

En að sama skapi þá hef ég aldrei unnið eins gefandi og skemmtilega vinnu en það kemur að því eins og við sjáum á þenslusvæðum að fólk gefst upp þrátt fyrir að vilja kenna. Við viljum eins og flestir fá laun fyrir álag og menntun okkar.

Ég verð líka að segja að það er jákvætt að skólastjórar, deildarstjórar, kennslufræðingar og sérkennarar semja nú sér en ég harma að náms- og starfsráðgjafar séu ekki í þeim pakka. Nú er alveg ljóst að félagið okkar NS verður að bretta upp ermar og láta til sín taka í launabaráttunni við erum afgangsstærð í þessum samningum. Hér er hægt að reikna út hvað laun grunnskólakennara og náms- og starfsráðgjafa hækka á samningstímabilinu. Hér má sjá samninginn í örstuttu máli.

Í bili..........


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband