Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hvað annað

Frá landsfundi VG. Flokkurinn nýtur nú næst mest fylgis af stjórnmálaflokkunum.

Það hlaut að koma að því að fólk áttaði sig. Kosningar þurfa að eiga sér stað nú á útmánuðum. Þetta úrtak er með því stærra þar sem tæplega 4000 manns taka afstöðu.

Vinstri græn hafa verið staðföst í málflutningi nú í kringum það ástand sem ríkir sem og áður í þingsályktunum sem lúta að efnahagsmálum.


mbl.is Fylgi VG meira en Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viltu hafa áhrif?

Þá er ein af þeim leiðum að knýja fram kosningar hið fyrsta, ekki seinna en á útmánuðum.

Farðu þá á http://kjosa.is/


Smá dæmisaga vegna hinnar svokölluðu

Verð að setja þetta inn sem ég fékk sent í tölvupósti.

Íslensk kona hefur verið að styrkja námsmann í Uganda sem "óvænt varð á vegi hennar" eins og hún orðaði það. Hann var búinn að lofa að senda henni einkunnirnar sínar sem hann og gerði þegar þar að kom. Þar kom fram að hann hafði fengið A í öllum fögum og góða umsögn að auki. Það var nefnilega búið að gera honum ljóst að góður árangur væri lykillinn að því að hann fengi áframhaldandi styrk.

En allt er breytingum undirorpið í henni veröld og ýmislegt getur vissulega haft áhrif á afkomu Frónbúans og getu hans til að láta gott af sér leiða. Hún var að velta því fyrir sér hvort rétt væri að reyna að segja honum frá gangi mála hér á landi, þ.e. kreppunni og öllu því. Og það gæti því miður reynst nauðsynlegt að skera eitthvað niður styrkinn vegna hins breytta ástands hérna megin. Það eru nefnilega tiltölulega litlar líkur á því að fréttir af Íslenska skipbrotinu hafi borist alla leið til hans þarna í Entebbe. Og svo er alls ekki víst að hann skilji alvöru málsins á sama hátt og við hér heima. En ef reynt væri að útskýra hið Íslenska kreppuástand fyrir honum sem virðist ætla að fara langt með að sliga þjóðina einhver þó nokkur ár inn í framtíðina, gæti það samtal orðið á eftirfarandi nótum.

*Heyrðu félagi, það er úr vöndu að ráða. Íslenska þjóðin er gjaldþrota!

Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra, eigið þið þá ekki fyrir baunum og maís?

*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og enginn vöruskortur.

Hvað segirðu, þið eigið þá mat. Það er gott. En eigið þiðþá ekki þak yfir höfuðið lengur!

*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir og það eru fáir heimilislausir á Íslandi.

En hvað segirðu mér þá? Gengur plága yfir landið, eru allir veikir og heilbrigðiskerfið lamað?

*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með ágætt heilbrigðiskerfi.

Nú jæja. Það var gott að heyra. En eru þá skólarnir að loka og fá kannski ekki allir tækifæri til að læra að lesa lengur og sérstaklega þá ekki konur.

*Jú reyndar er 99,9% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með háskólagráður og konur ekki síður en karlar.

Það er nú gott, en þið verðið þá að passa er að lenda ekki í stríði við nágrannaþjóðir ykkar.

*Uuuu við erum reyndar ekki með her og teljumst nú frekar friðsæl þjóð. En við þurfum bara að hlusta á bullið og stríðsyfirlýsingarnar í fíflinu honum Gordon Brown. Það er það sem við munum líklega komst næst því að fara í stríð.

Ok. Segðu mér nú samt ekki að þið komist ekki í hreint vatn.

*Við eigum reyndar besta vatn í heimi.

Nú, er vegakerfið þá ónýtt? Hérna í Afríku ganga allir eða nota asna og stundum reiðhjól. Það eru líka til strætisvagnar hérna, en þeir eru alltaf yfirfullir.
Eru kannski strætóarnir hjá ykkur hættir að ganga?

*Neeee... Það er verið að ræða um hvort almenningssamgöngur hér eigi að vera ókeypis, en það eru flestallir vegir malbikaðir og næstum allir eru á nýlegum bílum.

Eigið þið þá enga peninga til að gera ykkur glaðan dag? Ég meina, þú sagðir að þjóðin væri gjaldþrota.

*Flestir eiga reyndar einhvern sparnað á bókum þó sumir hafi tapað honum eða hluta hans síðustu daga. Það verður alla vega erfitt að kaupa stærri flatskjái og utanlandsferðunum verður að fækka.

Já, ég á kannski einhvern tíma eftir að fara til útlanda, en ég er nú líka frá Uganda. Hefur kannski enginn vinnu og þurfið þið núna öll að betla?

*Neiiij...! Atvinnuleysið er um 2% en við verðum að flytja Pólverjana aftur heim og fara sjálf að vinna vinnuna sem þeir unnu.

Hmmm... Svo þið hafið peninga, mat, húsaskjól, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, búið við frið, eigið nóg hreint vatn og samgöngur eru góðar.
Segðu mér, hvert var vandamálið aftur?

Eftir þessar vangaveltur um aðstæður okkar hérna uppi á skerinu og þetta ímyndaða samtal, ákvað hún að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum áhyggjum sínum af "gjaldþrota" eyríki norður í ballarhafi. Námsgjöld hans skulu greidd hér eftir sem hingað til og kannski fær hann líka smá vasapening með. Hann getur þá kannski tekið strætó í skólann endrum og sinnum í stað þess að þurfa ganga í marga klukkutíma eins og venjulega. Fé hins meinta íslenska terrorista yrði þá líklega bara vel varið.


Sá sem alltaf þorir

Steingrímur J. Sigfússon flytur ræðu í finnska þinghúsinu í dag.
 

Já það er ekki ofsögum sagt að Steingrímur Joð þorir. Það var löngu tímabært að íslenskur stjórnmálamaður léti í sér heyra á opinberum vettvangi um þessa ljótu framkomu Brown.

Vonum að Norðurlöndin sjái sóma sinn í að taka undir með okkur Íslendingum. Það á engum að líðast að framkvæma það sem Brown og Darling gerðu.

 


mbl.is Steingrímur skammaði Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein sem lesa þarf til enda

Bendi hér á afar góða grein sem ég hvet ykkur til að lesa alveg til enda. Er nokkuð viss um að hún harmonerar við hugsun okkar margra í dag.

http://visir.is/article/20081025/SKODANIR03/278188353/-1


Tími til að breyta

Verð að láta þessa grein fljóta hér. Hún segir allt sem segja þarf í ástandinu sem nú ríkir. Frábær grein hjá nýkjörnum formanni UVG.

Nú, rétt eins og fyrir tæpum 19 árum, horfum við á þjóðskipulag byrja að hrynja til grunna. Þá byrjaði hrun sovétkommúnismans með falli Berlínarmúrsins sem var táknmynd þess þjóðskipulags. Hrun íslensku bankanna markar upphafið á falli nýfrjálshyggjunnar, sem er þjóðskipulag græðgi og sérhagsmuna. En hún fellur ekki ein, heldur tekur hún ævisparnað stórs hluta Íslendinga, sparnað sem átti að tryggja þeim áhyggjulaust ævikvöld, með sér í gröfina. Við syrgjum því ekki nýfrjálshyggjuna, heldur allt það sem hún tók frá okkur.

Fólk er, skiljanlega, reitt og sorgmætt. Þetta átti aldrei að gerast. Enginn getur sagt að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir þetta. Það er óþarfi að reyna að afsaka skefjalausa græðgi með því að tala um alþjóðafjármálakreppu, einfaldlega því að við sjáum að aðrar þjóðir eru ekki jafn djúpt sokknar og við. Þetta er sárt og þetta er ósanngjarnt því íslenskur almenningur á ekki sök á þessu. En við höfum hins vegar ekki rétt á því að láta sorgina og reiðina heltaka okkur. Við skuldum komandi kynslóð að þerra tárin, standa á fætur og hefja uppbyggingu.

Tækifærin eru til staðar á Íslandi og það sem mikilvægara er, þau eru enn sameign íslensks almennings, ekki séreign þeirra sem vilja skapa af þeim gróða fyrir sig eina. Sem betur fer voru sumir alsgáðir í einkavæðingarpartíinu og stóðu vörð um það sem við erum fegnust að eiga ennþá, nú þegar skóinn kreppir að. Þau tryggðu að orkulindir landsins yrðu áfram sameign þjóðarinnar. Þau börðust með kjafti og klóm gegn markaðsvæðingu heilbrigðis- og menntakerfisins og hafa varist stöðugum árásum nýfrjálshyggjunnar á velferðakerfið síðustu ár. Þau hafa staðið með íslenskri náttúru og hafa talað fyrir jafnrétti allra í þjóðfélaginu. Og þau standa enn vaktina fyrir íslensku þjóðina, því má hún treysta.

Ísland er ekki á hausnum. Það er fiskur í sjónum, matvælaframleiðsla í sveitum, orka og fegurð í náttúrunni, duglegt fólk á öllum aldri í framhalds-, iðn- og háskólum og útflutningsiðnaður í sókn. Við höfum tækifæri til menntunar, við höfum duglegt fólk sem ekki mun draga af sér við uppbygginguna og við höfum hvort annað. Við erum nógu klók til að læra af reynslunni og byggja ekki upp sama þjóðfélagsskipulag og var við lýði til þess eins að láta það hrynja undan okkur aftur.

Það er kominn tími til að breyta. Það er kominn tími til að bæði kynin komi í jöfnum mæli að ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Það er kominn tími til að aflétta leynd og pukri og gefa fólki aftur trú á lýðræðisleg stjórnmál. Það er kominn tími til að taka velferð þjóðarinnar fram yfir gróðavon einstaklinga. Og það er kominn tími til að stokka spilin og gefa aftur, því síðast var vitlaust gefið.

 

Steinunn Rögnvaldsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. október 2008


Vetrarfrí og kvennafrídagurinn

Jibbý loksins komið vetrarfrí í skólanum. Vann til kl. 18:30 og lauk við yfirferð á ritgerðum, verkefnum, prófi og því sem útaf stóð í sögu hjá nemendum mínum. Allir búnir að fá einkunn.

Á morgun er svo djamm í Tjarnarborg en Maggi mágur ber að vanda hitann og þungan af skemmtuninni. Þemað í ár er latino og er ég mjög spennt því þetta er tónlist að mínu skapi.

Vonum bara að veðrið setji ekki strik í reikninginn en hér er ansi hvasst en sáralítil úrkoma enn sem komið er allavega.

Svo er að minnast kvennafrídagsins sem er í dag og því miður eru málin enn of mikið á skjön fyrir konur. Nýjasta dæmið eru bankastjóralaunin.

Í bili........


Hvern á að senda úr landi?

Ein besta bloggsíða landsins er án efa síða Ögmundar Jónassonar http://ogmundur.is Auk hans skrifa hinir ýmsu aðilar pistla og fannst mér samantekt félaga Hugins hreint ágæt um skrif Ögmundar um að jöfnuð og réttlæti væri ekki fórnandi fyrir bankana. Margir urðu til þess að gagnrýna skrif Ögmundar eins og nú. Huginn er með krækjur á þá sem skömmuðust mest.

Endilega lesið http://ogmundur.is/frjalsir-pennar/nr/4168/


Hvern fjandann er fólkið að meina?

Starfs míns vegna neyðist ég til að lesa kreppufréttir daginn út og daginn inn. Auðvitað finnst mér þetta alveg hræðilegt og allt það en það er eitt sem ég skil ekki. Flestir tala um að nú sé kominn tími til að sinna börnunum sínum, fjölskyldu og vinum. Hvað í andskotanum heldur þetta fólk að íslenskur almenningur hafi haft fyrir stafni? Skyldi það ætla að við höfum verið viti okkar fjær og stigið trylltan dans í kringum gullkálfinn á meðan börnin okkar, vinir og ættingjar lágu óbættir hjá garði?  Umkomulausir og einmana þar sem enginn hafði nokkurn tíma fyrir þá?  

Ég sjálf og allir sem ég þekki hafa nú verið uppteknir af því að vinna fyrir sér, að vísu ekki að vinna fyrir bankastjóralaunum heldur bara svona til að eiga fyrir salti í grautinn. Þessi sauðsvarti almúgi sem ég þekki hefur bara hugsað vel um börnin sín, takk fyrir. Hringt í vini og ættingja og heimsótt þá jafnvel ef sérlega vel hefur legið á fólki.
 
Mér finnst þessi umræða gjörsamlega fáránleg. Það er verið að slá ryki í augun á okkur með því að við getum nú gert svo margt gott og nytsamlegt þótt búið sé að ræna okkur aleigunni og marga starfinu. Nú þakkar maður fyrir það helst að hafa þó vinnu. Það er verið að koma inn hjá okkur samviskubiti, að við höfum nú ekki hugsað sem best um þá sem næst okkur standa. Nú þegar við erum orðin atvinnulaus og blönk getum við allavega gefið okkur tíma að sinna börnunum í stað þess að æsa okkur yfir því að það sé búið að svipta okkur aleigunni og atvinnunni. Við eigum nefnilega ekkert að vera að velta okkur upp úr því hver sé ástæðan fyrir þessum hremmingum, við erum hvort eð er svo vitlaus að við munum aldrei geta skilið að þetta var eiginlega alveg óvart og mönnum í útlöndum að kenna. Hvað er svo sem að marka einhverja aumingja sem eiga ekki einu sinni part í þyrlu?

Ég fyrir mína parta ætla að halda áfram að sinna börnunum mínum, ættingjum og vinum. En ég ætla líka að vera reið, alveg fjúkandi vond, og ekki hætta fyrr en ég hef fengið svör við því hvernig í andskotanum allt gat farið hér til helvítis á einni nóttu.
 
Afsakið orðbragðið.
Kona


Knús dagur

Hann Júlli Júll facebook félagi sendi mér þetta og verð ég að setja þessi orð hér og vísa ykkur svo á enn ljúfari lesningu á heimasíðu hans.

Yfirskriftin er: Hefur þú knúsað í dag?

Þegar á bjátar er afar mikilvægt að við stöndum öll saman, sýnum nærgætni, og látum ekki svartsýni og pirring ná tökum á okkur. Það þurfa allir að hugsa vel um sig, gæta þess að fá nægan svefn og velta sér ekki of mikið uppúr því neikvæða. Að mínu mati er eitt það mikilvægasta sem við getum gert er að knúsast, gott faðmlag er það sem að allir þurfa á að halda og sanniði til að þeir sem fá nóg af knúsi eru ríkir og eru tilbúnari fyrir lífið og verkefni dagsins.Látum knús ganga.

http://www.julli.is/knus.htm


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband