Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Mannfólkið viðrað

SmileJá það kom aldeilis fiðringur í minn kæra þegar hann leit út um eldhúsgluggann í þann mund sem við vorum að sötra morgunkaffið í gærmorgun. Það var einhver glampi í augunum sem tengdist ekki hversu morgunbjört og fögur ég var - mér fannst það nokkuð ljóst.

Það var ákveðið að slengja sér út með ferfætlingana á Skeggjabrekkudal og bleita í belti eins og hann komst að orði. Ég keyrði á eftir honum með hundaskarann og við röltum svo af stað stelpurnar en hann kíkti á dalinn til að athuga færðina. Bauð mér á sleðann, svona til að sefa samviskuna yfir því að ég gekk með hundana upp brekkuna, eða kannski var ég bara svona illa haldin að hann hefur séð ástæðu til að hirða mig upp. Blush

Alla vega þá voru tíkurnar ekki alveg á því að elta "foreldrana" sem sátu á snjósleða og léku sér. Þær létu okkur bíða eftir sér og fóru fjallabaksleið en við stopp og farin að gala eftir þeim. Úr varð að ég rölti og hann lék sér svolítið en það var svo sem enginn snjór á dalnum og lítið hægt að keyra. Tíkurnar fengu þó að prófa að sitja með "pabba" á sleðanum og þótti það misskemmtilegt.  Sick

Hins vegar voru nokkir að leika sér á Ólafsfjarðarvatni bæði á sleðum og hjólum enda eini staðurinn þar sem einhver almennilegur snjór var en mikið svell undir. Spurning að moka vatnið og bjóða upp á flóðlýsingu á alvöru skautasvelli.Whistling

Nú þegar heim kom hélt hin hefðbundna afneitun áfram og ég setti á eina tertu sem við gúffuðum svo í okkur í gær og í dag. Horfði á mína menn í Man. Utd. vinna Reading í frekar slökum leik að mér fannst.

Nú ég er líka með einhverskonar frestunaráráttu varðandi námið. Ætlaði í gær og aftur í dag að vera svakalega dugleg en gerði ekki neitt. Í staðinn skelltum við okkur í bíóið, sem ég kvartaði svo yfir hér um áramótin, á myndina sem dóttirin var búin að bíða lengi eftir.  Jódís Jana sat á milli okkar í bíóinu og lifði sig svo inn í ævintýrið að hún teygði sig í mömmu hönd og pabba og lét þau haldast í hendur - yndislegt. HeartBoðskapurinn góður og við nokkuð sátt við daginn.

Framundan er sem sagt að takast á við skólabækurnar og stemma stigu við óhollustuna í mataræðinu.

 

Fjallabyggð sigraði

Útsvar var mjög spennandi í gær og tilþrifin fín. Ég sagði við minn kæra þegar síðasta spurningin var í loftinu - "þetta á Inga að vita" og auðvitað vissi hún þetta. Stressið er það sem fer með fólk á slíkum stundum og hún þurfti bara augnablik til þess að sækja viskuna í brunninn.

Frábært hjá þeim. Þau eru flott lið og vonandi höldum við lengi áfram enn.

Lið Fjallabyggðar


Veturinn - vinnan og spurningakeppni

Ekki þurftum við Ólafsfirðingar að kíkja til Grindavíkur til að rifja upp vetrarveður. Snjóað töluvert í dag og spáin ekkert sérstök, reyndar betra veður en maður átti von á í upphafi. Sem betur fer, finnst snjórinn ekki áhugaverður. Minn kæri er hins vegar himinlifandi enda sagðist hann loksins geta bleytt í belti á morgun - spurning hvort veður verður gott til þess.

Er að vinna í bókhaldinu og launaframtalið orðið klárt. Alltaf eitthvað að gerast. Wink Þarf að kíkja á verkefnið mitt í próffræði og raunfærnimati á morgun og klára að reikna. Ekki það sem mér þykir skemmtilegast en stundum þarf víst að gera fleira en gott þykir eins og maður segir við nemendur sína.Whistling

Framundan er að horfa á Útsvar þar sem Fjallabyggð mætir Árborg. Vona að okkar fólki gangi vel.


Skemmtilegir dagar

Það er ekki ofsögum sagt að maður er orðinn háður tölvunni þegar kemur að vinnu. Þannig hefur háttað að tölvukerfi skólans hefur legið niðri í rúma viku þar sem netþjónninn hrundi og er ekki enn komið í samt lag. Í dag komust þó kennarar inn á sameiginleg svæði og gátu sótt sér gögn en menn vinna hörðum höndum að því að koma þessu í samt lag. Þegar svona gerist verður maður áþreifanlega var við hversu mikið maður notar tölvuna í vinnu og til samskipta.

Nú ég fór til Akureyrar á mánudag og aftur í gær þar sem ég er í starfsþjálfun/kynningu hjá Reyni ráðgjafastofu. Á stofunni starfa bæði sálfræðingar og félagsráðgjafi og hef ég fengið kynni af starfssviði beggja.

Gaman að sjá færa menn beita viðtalstækninni og spurningatækni sem ég hef verið að læra og svolítið að prófa nú þegar. Einnig áhugavert að uppgötva hvernig starf náms- og starfsráðgjafa getur tengst þeirra störfum. Verð líka með í málum á morgun og hlakka mikið til.

Á þriðjudaginn var svo bæjarstjórnarfundur á Sigló. Ekki mörg mál á dagskrá en ráðningar og innheimtumál sveitarfélagsins fengu mestan tíma í umræðunni. Hvoru tveggja ekki gott að mínu mati. Ég tel ekki að við eigum að færa sýslumanni störf við innheimtu á sama tíma og við krefjumst þess að fá störf flutt frá ríkinu til sveitarfélagsins. Öfugsnúið...

Ráðningar á skíðasvæðið á Sigló, hafnarvarðar sem og flestar þær sem hafa verið auglýstar og ráðið í hafa ekki verið unnar faglega að mínu viti.

Sigga Gunnars kynnti viðskiptahugmynd sem var mjög áhugaverð og vonandi tekst henni eins vel til og hún ætlar sér. Bíð spennt...


Komin heim

Töluverð umræða var á meðal okkar skólasystranna og Sifjar kennara um lagafrumvörpin sem nú eru til umfjöllunar á þingi og sérstaklega varðandi lögverndun á starfsheitum. Sýnist þó að um það ætti að nást pólitísk samstaða alla vega benda umræður á þingi til þess í öllum flokkum.  

Eins og manni þykir nú gaman að skreppa að heiman þá er alveg dásamlegt að koma heim aftur. Smile 

Ég lenti sem sagt á Akureyarflugvelli í gær um miðjan dag og skrapp í heimsókn til Gúlgu og Boga þar sem minn kæri þurfti að sjá fótboltaleik með einhverjum slugsum. Við brenndum svo heim og sáum frábæran fótboltaleik þar sem mínir menn í Man.Utd. fóru á kostum og gjörsigruðu Newcastle 6-0.Grin

Fór snemma í háttinn enda slæpt eftir borgarferðina og skólasetuna. Í dag vorum við svo boðin í skírnarveislu hjá Hildi Magg og Ingvari en litli snúðurinn þeirra fékk nafnið Guðmundur Árni.

Eftir veisluna var okkur ekki stætt á öðru en að viðra hundana - nú eða okkur ef því er að skipta. Maður kjagar orðið vegna ofáts og enn bólar ekkert á heilsusamlegu líferni. Veit eiginlega ekki hvar það er að finna - alla vega er ég í mikilli afneitun og held ótrauð áfram að gúffa í mig alls kyns gúmmelaði en þrátt fyrir það gengur hægt á jólakökurnar sem að sjálfsögðu má ekki fórna heldur skal allt etið.W00t

 


Borg óttans

Það má víst segja það fyrir okkur landsbyggðafólkið að maður sé í borg óttans. Í nótt var ráðist á lögreglumenn í miðbænum og við Þurý að snattast þar í gærkveldi - Gvöð minn. Hittum að vísu séra Sigríði og hennar ekta maka þegar við fórum á kaffihús eftir búðarráp.

Gat eitt einhverjum krónum og keypti afmælisgjöf handa Jódísi Jönu sem er 9 ára í dag. Knús og kossar til hennar. Kissing Skil eiginlega ekki hvað árin líða fljótt - finnst ég ekki svona mörgum árum eldri en ég var víst á þeim tímapunkti. En segir líklega meira um mig en eitthvað annað.

Annars gengur námið vel - flestar farnar að tala um hvað skrifa skuli um í meistaraverkefninu og margar góðar hugmyndir komnar á loft. Svo eru einhverjar sem setja spurningamerki við að klára meistaraprófið og láta duga að fá diplómuna í vor enda nægir það fyrir starfsréttindin.

Líst ágætlega á hið nýja háskólatorg en mikið er nú samt óunnið ennþá hér og svolítið verið að færa fólk til þar sem ekki eru tilbúnar þær stofur sem búið var að úthluta - en svona er nú það.

Ætla að rápa aðeins í búðir eftir skóla í dag, heimsækja pabba og Helgu, hitta krakkana og eiga svo rólega kvöldstund - hvar er ekki ákveðið.

Í bili....

 


Náms- og starfsráðgjafar

Fór í dag til Kristjáns sálfræðings hjá Reyni ráðgjafastofu en það er hluti af starfsnámi mínu í meistaranáminu í náms- og starfsráðgjöf. Ætlunin er að kynna sér vel stoðstofnun eða þjónustu sem nýtist manni í vinnu sem náms- og starfsráðgjafi. Ekki að sökum að spyrja að vel var tekið á móti mér og alltaf gaman að spjalla við góðan fagmann. Ég verð svo með þeim eitthvað á næstunni í fjölbreyttri vinnu sem ég hlakka mikið til að taka þátt í.

Ég hitti Þurý eftir heimsóknina í dag en hún var einmitt hjá félagsþjónustunni á Akureyri í sömu erindagjörðum og ég. Við áttum gott spjall og þar bar einmitt á góma lögverndun starfsheitis náms- og starfsráðgjafa sem er afar brýn. Við þykjumst ætla að setja saman pistil og reyna að taka þátt í þeirri umræðu sem á sér stað meðal félagsmanna.

Það væri ekki úr vegi að Þorgerður Katrín færi að svara þeim Katrínu Jakobs og Kolbrúnu fyrirspurnum sem þær settu fram 5. desember. En þær voru svona:


    1.      Hvað líður störfum nefndar sem skipa átti samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 17. mars 2007 til að kanna gildi þess og gagn að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, sem úrræðis gegn brottfalli nemenda í framhaldsskólum og fyrir farsælt náms- og starfsval, en nefndin átti að skila af sér 15. nóvember 2007?
    

2.      Stendur til að lögvernda starfsheiti náms- og starfsráðgjafa í því skyni að efla þessa starfsemi?

Gaman að vita hvort hún sér ástæðu til þess að lögvernda starfsheitið eða hvort hver sem er geti sinnt þessu án tiltekinnar menntunar eins og verið hefur án þess að þurfa að fá undanþágu eða annað.


Back to reality

Verð að blása svolítið um lélega þjónustu. Við fórum í bíó miðvikudaginn 2. janúar í Nýja bíó á Akureyri. Mist og Helgi fóru saman á mynd og við Jódís Jana ætluðum síðan á aðra mynd. Ekki vildi betur til en að vitlaus mynd var sett í og var neitað um að skipta þar sem 15 mín. tæki að þræða. Ég spyr nú bara eru þeir með gömlu græjurnar úr Tjarnarborg? Þvílíkur dónaskapur maður er að keyra úr öðru byggðalagi en býr ekki í næstu götu og getur skroppið í bíó anytime. Angry Ekki hafði barnið gaman af því sem boðið var uppá svo við fórum í fússi út og "lögðumst uppá" Pálínu og Boga meðan Mist og Helgi sáu sína mynd.

----------------------------------------------------------------------------

Þrátt fyrir að maður hafi nú ekki legið á meltunni yfir jól og áramót þá varð ég að klæða mig mun fyrr í morgun en marga undanfarna morgna.Gasp Fyrsti skóladagurinn hjá okkur kennurunum var í dag og byrjaði með morgunspjalli við samstarfsmenn og síðan tók við undirbúningur fyrir næstu viku.

Í hádeginu fór ég svo á súpufund með Steingrími Joð og Þuríði sem var ágætlega sóttur. Strax klukkan eitt var svo fundur með Ingvari Sigurgeirssyni vegna þróunarverkefnis grunnskóla Fjallabyggðar og komu kennarar frá Sigló til okkar í þetta sinn.

Við skiptumst á skoðunum og sögðum frá því sem prófað hefur verið á báðum stöðum og ljóst að margt hefur safnast í sarpinn fyrir komandi skólaár sem og framhaldsvinnu í námsmati.Smile

Að skóladegi loknum skaust ég til mömmu og þaðan fór ég og sótti dóttur mína sem var hjá bekkjarfélaga að leika.

Í næstu viku fer ég í starfskynningu hjá Reyni ráðgjafarstofu en það er hluti af náminu okkar í náms- og starfsráðgjöfinni. Seinni hluta vikunnar verð ég svo í borginni að innbyrða meiri visku af hálfu kennaranna í HÍ.

Nú lilla mín verður 9 ára á föstudaginn og ætla hún og pabbi hennar að halda pizzupartý þá en "fullorðins" kaffi verður svo þegar mamman skilar sér heim á laugardaginn.

 

Og áramótin líka

Gleðilegt ár. 

Já þau voru flott áramótin hér í firðinum. Yndislegt veður og bæjarbúar og gestir sprengdu af miklum móð og við þar ekki undanskilin hér á Hlíðarvegi 71. Brennan flott að vanda en sökum annríkis komst ég ekki á hana í þetta sinn.

Þessir dagar hafa einkennst af mikilli vinnu og ekki laust við að maður væri svolítið lúinn rétt fyrir kl. 6 í morgun þegar við skelltum í lás í Höllini eftir glaum næturinnar. Okkur var þó ekki til setunnar boðið því kl. 14 í dag var afmælisboð og kl. 16 var komið að undirbúningi einkasamkvæmis sem var í Höllinni í dag og í kvöld. Er sem sagt ný komin heim úr vinnu. Ætla hreinlega að gera ekki neitt á morgun.

Skaupið var það eina sem ég sá yfir áramótin og fannst það lélegt - náði eiginlega engu sambandi við það. Missti af kryddsíldinni, fréttaannálum á báðum stöðvum og finnst það bagalegt en svona er nú það. 

Þetta er eiginlega skandall hvað ég er lítið búin að lesa yfir jólin og þau eru mörg árin síðan það gerðist. Er þó að gaufast við að lesa ævisögu Bíbíar Ólafsdóttur og Dauða trúðsins eftir Árna Þórarins og er meiningin að klára þær á næstu dögum. Á þá eftir Engla dauðans eftir Þráinn Bert. Þar sem ég fer að byrja í náminu aftur í næstu viku er eins gott að rubba þessu af því ekki les ég annað en námsbækur eftir miðjan janúar.

Í bili.......

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband