Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Heimasætan í Brasilíu og blúsdagar framundan

Nú er Klara Mist farin til Brasilíu og er hægt að fylgjast með henni á http://smartypantz.bloggar.is/.

Framundan eru blúsdagar í Ólafsfirði og hvet ég alla til að drífa sig á frábæra dagskrá bæði föstudag og laugardag. http://blues.fjallabyggd.is/

Höllin er svo opin alla helgina fyrir þá sem vilja halda áfram á föstudaginn eða hafa það rólegra á laugardagskvöldið.

Tröllakot opnar svo vonandi í næstu viku og verður það auglýst hér og víðar þar sem húsið verður opið gestum og gangandi til sýnis.

Í bili.....


Góðir dagar

Jæja þá eru veisluhöldin yfirstaðin og gengu bara vel fyrir sig. Myndir komnar í myndaalbúmið, þessar fáu sem teknar voru á okkar vél. Fæ sendar fleiri innan tíðar.Grin

Við Klara Mist fórum í Tröllakot í morgun og tókum svolítið til hendinni. Hún fór svo að vinna í Höllinni kl. 16:30 en ég og Jói tengdapabbi héldum áfram að atast í sveitinni.

Get ekki sagt að þetta sé það skemmtilegasta sem ég geri að skúra flísar með fúgusulli á og lítið sést eftir mann. En þetta er allt í áttina. Við settum saman rúmin og komum þeim fyrir ásamt fleiru.

En ég þarf víst að kíkja á bókhald Hallarinnar ekki dugar að það sé ófært lengi. Sama má víst segja um Tröllakotsbókhaldið - líklega betra að setjast yfir það og sjá hvort maður er á kúpunni eður ei.Tounge

Í bili.......


Erilsöm vika

Það er ekki ofsögum sagt að vikan var erilsöm hjá mér. Skrapp til Reykjavíkur á stjórnarfund hjá VG á mánudaginn og erindaði að sjálfsögðu aðeins í leiðinni.

Á þriðjudaginn var svo bæjarstjórnarfundur á Siglufirði og var haldið af stað kl. 16 frá Ólafsfirði og komið heim um kl. 22.

Miðvikudagurinn var góður þá verslaði ég aðeins fyrir Tröllakotið sem er alveg að klárast og fór svo með Steingrími, Þuríði, Birni Val og Huginn út í Hrísey. Það var alveg frábær ferð og eftir frábæra heimsókn í Norðurskel og fullt af kræklingasmakki þá enduðum við á Brekku í kaffi og ís.

Nú ég var að vinna í Höllinni á fimmtudaginn og fór svo með Bjössa og Þurý suður til Reykjavíkur á föstudagsmorgun kl. 8. Fékk bílinn lánaðan hjá Helgu systir og endasentist út um alla borg bæði að erinda fyrir Höllina og eins Tröllakot.

Á föstudagskvöldið hittumst við svo fjarnemahópurinn við ráðhúsið þar sem Margrét og Kolla voru búnar að skipuleggja svolítinn leik handa verðandi náms- og starfsráðgjöfum. Leikurinn endaði við Tapas barinn þar sem við borðuðum frábæran mat. Skvísurnar enduðu svo á Thorvaldsensbar og dönsuðum við sem harðastar voru fram til kl. 02:30.

Nú ég vaknaði að vanda allt of snemma á laugardagsmorgun enda ekki í mínu rúmi og borgar/blokkarhljóðin fara aldrei vel í mig. En ég lá bara í rúminu og las blöðin í rólegheitum. Við þurftum að vera komin í Laugardagshöllina kl. 13 og þaðan fórum við ekki út fyrr en kl. 16:30. Löööööng athöfn enda tæplega 900 nemendur viðstaddir útskrift.

Ég fór svo á Amokka og fékk mér kaffi ásamt vinum eftir athöfnina og Ásgeir bróðir og María komu með Ísabellu Sól og fengu sér kaffi með okkur.

Þá var komið að því að fljúga norður þar sem minn kæri beið eftir mér og bauð mér á Halastjörnuna í mat. Ágætur matur en umhverfið enn betra.

Dagurinn í dag farið í eitt og annað m.a. að sauma gardínur fyrir Tröllakot og sitja yfir veikri dóttur.

En á morgun er það bakstur fyrir útskriftarveislu okkar mæðgna og vinna í Höllinni annað kvöld.

Í bili.....


Útskriftarveisla

Nú voru teknar nokkrar myndir í væntanlegt útskriftarboðskort

Kæru ættingjar og vinir

Í tilefni af útskrift okkar, Klöru Mistar sem stúdents g Bjarkeyjar sem náms- og starfsráðgjafa, ætlum við að bjóða upp á kaffi og kökur í Höllinni í Ólafsfirði kl. 15 þann 17. júní.

Okkur þætti vænt um að sem flestir nytu dagsins með okkur.

Einhvern veginn svona hljómar boðskort sem er seint á ferðinni til vina og vandamanna en vonandi verður það ekki til þess að fólk geti ekki komið til okkar í sveitina í heimsókn. Svo gleymum við ábyggilega einhverjum og þá mætið þið bara elskurnar og verðið ekki taldar boðflennur heldur kærkomnar flennur.Grin Það er alveg ljóst að nóg verður af kökunum eins og ævinlega hjá fjölskyldunni.


Tröllakot

Nú er kotið okkar tröllafólksins að taka á sig mynd og þeir feðgar Helgi og Jói vinna eins og berserkir. Helgi minn fer um leið og hann er búinn að vinna í sparisjóðnum og er fram eftir öll kvöld.

Óskin er sú að þetta verði búið 17. júní og hægt verði að flagga tvöfalt eða þrefalt á þeim degi en það verður að koma í ljós. Alltaf eitthvað sem vantar, hluta úr innréttingu eða hvað það nú er.

En nýjar myndir er að finna í myndaalbúminu mínu - endilega kíkið á þær. Tökum svo fleiri eftir þessa helgi enda eitt og annað að gerast.

Í bili......


Sjómannahelgi og skólaferðalag

Já þetta hafa verið viðburðaríkir dagar og ekkert bloggað.Wink

En sjómannahelgin hér í Ólafsfirði er engu lík og tókst að venju frábærlega. Fjölbreytt og frábær skemmtiatriði fyrir alla aldurshópa.

Í Höllinni spilaði Magnús Þór Sigmundsson á föstudagskvöldið og var fjölmenni. Á laugardaginn var svo mikið af fólki enda bærinn þéttskipaður af sjómönnum og þeirra kvinnum. Á sjálfan sunnudaginn var svo hátíðarkvöldverður í Tjarnarborg og mögnuð skemmtidagskrá með Björgvini Franz, Helgu Braga og Sigga Beinteins og man ekki hvað hún heitir voru með Tinu Turner sjóv og ball á eftir.Grin

Nú þetta hefur verið mín vinnuhelgi enda ekki sjómannskona. Naut dyggrar aðstoðar minnar kæru dóttur og vorum við frekar þreyttar á sunnudagskvöldið.

Í dag, þriðjudag, fór ég svo ásamt Björgu Trausta og Margréti Toft með 7., 8. og 9. bekk í skólaferðalag. Við byrjuðum á að skoða Vesturfararsafnið en mínir nemendur voru að ljúka þemavinnu um vesturfarana. Að því loknu skoðuðum við samgöngusafnið, sem ég mæli með að allir kíki á. Nemendur voru almennt mjög ánægðir með það. Að lokum var farið í rafting í vestri-Jökulsá sem var alveg magnað. Leiðsögumennirnir voru svo skemmtilegir og lögðu sig alla fram um að skemmta bæði okkur og sjálfum sér.Grin

Þetta tók rúma 4 klukkutíma þ.e. rafting og voru það þreyttir og hljóðlátir nemendur sem stigu út úr rútunni um kl.19 í kvöld.

Á morgun er svo umsjónarmaður þróunarverkefnis skólanna á Óló og Sigló að koma og gera upp veturinn og skólaslitin verða á fimmtudaginn. Ósköp ljúft að þetta er að verða búið.

Í bili........


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband