Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Forval Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Framundan er forval Vinstri hreyfingarinnar græns- framboðs í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar 2007. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í þessu forvali sem félagsmönnum VG er heimilt að taka þátt í. Mér þykir því við hæfi að kynna mig örlítið og það helsta sem ég hef tekið mér fyrir hendur í pólitík og öðrum störfum.

vg

 Ég hef verið virk í störfum Vinstri grænna nánast frá stofnun, er formaður svæðisfélags VG í Ólafsfirði, formaður kjördæmisráðs VG í Norðausturkjördæmi og sit einnig í stjórn VG. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar s.l. vor sat ég í yfirkjörstjórn VG sem sá m.a. um flesta sameiginlegu þætti kosninganna. Slík kjörstjórn verður einnig starfandi nú fyrir komandi alþingiskosningar og á ég sæti í henni.

Ég hef í tvígang, á því kjörtímabili sem nú er að ljúka, setið á Alþingi sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar. Ég lagði m.a. fram þingsályktunartillögu um stuðning við einstæðra foreldra í námi, beitti mér fyrir flutningi verkefna Þjóðskrár út á landsbyggðina, ræddi rekstrarvanda Heilbrigðisstofnunar Austurlands, er meðflutningsmaður nokkurra þingmála t.d. um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum og um íslenska táknmálið. Auk þess hef ég látið mig varða geðheilbrigðismál barna og ungmenna og stefnu í málefnum barna almennt, lengingu flugbrautarinnar á Akureyri og aðstöðu farþega á Egilsstaðaflugvelli.

Ég tel mikilvægt í komandi kosningum að horfið verði frá þeirri einkavæðingu sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir og hefur aukið á ójöfnuð í samfélaginu. Sú sýn ríkisstjórnarinnar að setja öll eggin í eina körfu er eitthvað sem okkur er kennt í barnaskóla að eigi ekki að gera. Atvinnulífið þarf að vera fjölbreytt og taka mið af hagsmunum komandi kynslóða.

olo  sigl

Ég sit í bæjarstjórn Fjallabyggðar, í minnihluta, og hef tekið virkan þátt í sveitarstjórnarmálum í 14 ár. Vegna þeirrar reynslu veit ég að það þarf að efla sveitarstjórnarstigið í landinu með réttlátri tekjuskiptingu þannig að sveitarfélögin geti staðið við þær skuldbindingar sem þeim ber að gera. Ég vil sjá öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn óháð efnahag en núverandi ríkisstjórn stefnir hraðbyri í fulla einkavæðingu með það eins og flest annað. Það þarf að fella ríkisstjórnina og ég vil gefa kost á mér til þeirra starfa með góðu fólki í Vinstri hreyfingunni - grænu framboði.

Ég fæddist í Reykjavík árið 1965, elst þriggja systkina, ólst upp á Siglufirði til 15 ára aldurs en flutti þá til Ólafsfjarðar og hef verið þar meira og minna síðan. Foreldar mínir eru Gunnar Ásgeirsson vélstjóri, Siglfirðingur sem rekur ætt sína að Stuðlum í Reyðarfirði og í Fljótin og Klara Björnsdóttir verkakona frá Akureyri. 

     Ég bý í Ólafsfirði, í nýsameinuðu sveitarfélagi sem heitir nú Fjallabyggð, með maka mínum Helga Jóhannssyni, þjónustustjóra Sparisjóðs Ólafsfjarðar. Börnin eru þrjú Tímon Davíð 24 ára, Klara Mist 19 ára og Jódís Jana 7 ára. Ég var við fjarnám við Verkmenntaskólann á Akureyri og lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2005. Stunda nú meistaranám í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands.

P8260078
     Eins og gengur hef ég tekið mér ýmislegt fyrir hendur í atvinnu. Vann við bókhald í 16 ár, rak fyrirtæki sem framleiddi hljóðsnældur, er í dag kennari við Grunnskóla Ólafsfjarðar og rek í veitingastað í Ólafsfirði ásamt mágkonu minni.

Frestur til að tilkynna um þátttöku í forvalinu hefur verið framlengdur til 5. nóvember og nánari upplýsingar um hvernig það fer fram er á http://vg.is


Prófkjörsmál og landsbyggðapólitík

Það er ekki að spyrja að því konur og Sjálfstæðisflokkurinn - hvað er nú það? Er reyndar fegin að þetta prófkjör þeirra er yfirstaðið með tilheyrandi auglýsingaflóði sem allt ætlar að hertaka. Skilst reyndar á mínu fólki í borginni að pirringur í kringum prófkjör Sjálfstæðismanna sé helst fólginn í því að enginn friður er vegna símhringinga frambjóðenda. Velti því fyrir mér hvað konum þykir að hafa einungis tvær stöllur sínar með öllum körlunum. Þær sem í framboði voru eru örugglega ekki minna álitlegar en blessaðir karlarnir og það skiptir máli að raddir kvenna - mæðra heyrist á þingi sem er orðið allt of einsleitt í ákvarðanatöku.

Nú stendur yfir prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvestur og úrslita að vænta í kvöld - fylgist með því.

En vegna frétta um fækkun á Eyjafjarðasvæðinu, en hér í Fjallabyggð fækkaði mest um 82, þá kom enn frekar á óvart að það varð fækkun á Akureyri um 10. Þegar upp er staðið snýst þetta að miklu leyti um misskiptingu fjár sem stýrt er af Framsókn og Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Það er alveg deginum ljósara að sveitarfélögin hafa ekki nægjanlega tekjustofna til að reka sig.  Það er hjákátlegt að ríkisstjórnin skuli bæta sífellt á sveitarfélögin verkefnum en fjármagn fylgir ekki með í réttum hlutföllum. Allt slíkt ætti að endurskoðast t.d. grunnskólinn. Þar hefði átt að vera ákvæði sem gerði sveitarfélögunum kleift að taka upp fjármagnsliðinn að x árum liðnum og sjá hvort raunhæft væri - sem það er ekki.

Það þarf að ríkja jafnvægi á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis því hvorugt lifir á hins. En þeir sem eru efstir á lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík núna og ráða líklega mestu því Guðlaugur frændi ætlar að verða ráðherra að sögn og hef ég ekki mikla trú á að Kristján Þór bæjarstjóri hafi mikið í þá borgarmenn að segja þegar kemur að byggðastefnu sem nú þegar er handónýt.

Það er svo margt sem þeir hafa ætlað að breyta en eru ekki 12-16 ár nægilega langur tími til breytinga? Það sem þeir hafa ekki áorkað nú þegar er hægt að ætlast til að það sé gert núna - það held ég ekki.

Undir þeirra stjórn, sem allt vilja einkavæða, hefur launaleynd orðið enn meiri en áður og konur eiga langt í land með að standa jafnfætist körlum í sambærilegum störfum. Þess vegna hef ég aldrei skilið konur í láglaunastörfum sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem viðheldur með stefnu sinni launakjörum þeirra.

Konur ættu að kjósa þann eina flokk sem hefur kvenfrelsi í sinni stefnuskrá Vinstri græna og fjölga okkur á þingi. Í okkar flokki eru nú tvær konur og þrír karlar á þingi og margar frambærilegar konur ætla í slaginn í vor. Fylgist með og munið að atkvæði greidd í þínu kjördæmi geta skipt máli fyrir aðra lista Vg í lokin.

 


Hvalir og hvað?

bilde?Site=XZ&Date=20061018&Category=FRETTIR02&ArtNo=61018082&Ref=AR&Profile=1091&NoBorderÞað er ekki að spyrja að klúðrinu hjá ríkisstjórninni nú eru það hvalveiðarnar sem flestir fárast yfir í öllum heimsálfum. Ekki bara að undirbúningurinn sé hlægilegur, ekki má vinna hvalinn í hvalstöðinni. Hvað eru þessir gæjar að hugsa. Hverjir ætla að kaupa - markaðurinn liggur ekki ljós fyrir frekar en annað. Þeir sem eru æstir í veiðarnar bera gjarnan fyrir sig að hvalur éti fisk en hvað halda þessir aðilar að það dugi að veiða nokkrar hrefnur, hreint ekkert. Þannig að sú rökfærsla fellur um sjálfa sig. Það virðist vera hvert málið á fætur öðru sem ekki er vel undirbúið hjá ráðamönnum þjóðarinnar.

Jákvætt í dag var að tveir nýir metanknúnir sorpbílar voru teknir í notkun í dag hjá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar. Skemmtilegt að eldsneytið er unnið úr því sorpi sem bíllinn safnar í sig. Það sem var óþolandi við fréttina var að Villi keyrði annan bílinn allt of hratt og sjálfsagt stæra Sjálfstæðismenn sig af því að hafa orðið til þess að þessir bílar eru nú á götum borgarinnar. En við vitum að fyrri meirihluti borgarstjórnar vann undirbúningsvinnuna og þess vegna eru þessir bílar á götunni.

Nú svo var það ein af ályktunum SUS félaga í Norðaustur, þær voru nokkrar og flestar í anda einka, einka eitthvað. Meðal annars þess að leik- og grunnskólar þyrftu á fjármagni frá einkaaðilum til að skapa sér sérstöðu. Þessir kjánar tala um að sveitarfélögin séu misjafnlega í stakk búin til að sinna þessu og þá velti ég því fyrir mér halda þeir að þá séu einkaaðilar hjá þessum sömu sveitarfélögum æstir í að borga skólana? Þvílík endemis vitleysa, auðvitað á ríkið að lagfæra tekjustofna sveitarfélaga með t.d. breytingu á skattakerfinu þannig að sveitarfélögin beri meira úr bítum. Kíkið á frumvarpVinstri grænna í því sambandi.


Bæjarstjórnarfundur

Var á fundi bæjarstjórnar í dag. Því miður horfir ekki vel með stjórnun hins nýja meirihluta enda samsettur úr Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Hvenær hefur það lukkast?

Fjármálastjórnunin er strax komin út í hafsauga og enginn veit með vissu hvernig staða hins nýja sveitarfélags er. Bráðabirgðartölur fyrstu 8 mánuði eru slíkar að hrollur fer um mig.

Nú svo er það annar bæjarfulltrúi Framsóknar eða ætti ég að segja þingmaður Framsóknar. Það er frekar dapurt að hlusta á þingmanninn Birki Jón tala í pontu og eiga erfitt með að skilja á milli stöðu sinnar. Enda talar hann eins og frambjóðandi/þingmaður en ekki bæjarfulltrúi.

Ég hvatti þau í meirihlutanum til að verðleggja orðið mikilvægt því röksemdin fyrir því að hækka laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna er m.a. það að við vinnum ekki minna mikilvæg störf en aðrir í slíkum stöðum. Svo skrítið sem það er hefur enginn talið svo vera en hækkunin frá því 2005 og miðað við áætlun 2007 er vel á 7 milljón. Þannig að líklega er það verðmiðinn á orðinu mikilvægt.

Það verður vonandi tekið vel á móti öðrum starfsmönnum sveitarfélagsins þegar samningar fara í hönd þó ekki verið nema þriðjungur hækkanna í boði miðað við bæjarfulltúa er ég viss um að fólk yrði yfir sig ánægt.


Ráðherraflopp

Á Alþingi hafa þingmenn og ráðherra skiptst á skoðunum um ríkisútvarpið. Stjórnarliðar reyna í þriðja sinn að koma með frumvarp sem ennþá er meingallað og nú er það ohf en ekki ehf. Stjórnarandstæðingar hafa bent á að frumvarpið um löggjöf fjölmiðla verði tekið fyrir fyrst og síðan RÚV. En á það vill Þorgerður Katrín ekki fallast, heldur skirrist við. Við vitum vel að stefna Sjálfstæðiflokksins í flestum málum er að einkavæða. Allt sem mögulega er hægt að einkavæða á að framkvæma. Enda má sjá að heilbrigðiskerfið er þegar orðið töluvert einkavætt og þeir vilja meira af slíku Sjálfstæðimenn.

Nú svo er það Bjössi og leynilöggan. Mjög merkilegt hvað hermennskuæðið er að ná tökum á ráðherra og hans fylgifiskum. Þetta ástand í Hvalfirðinum er náttúrulega með endemum. Var ætlunin að góma hryðjuverkamenn sem ætluðu að sprengja allt í Hvalfirði eða.....? Og hverjum kom þetta svo ekki við jú sveitarstjóranum í Hvalfirði. Manni finnst eins og um sé að ræða amerískan sjónvarpsþátt en ekki íslenskan raunveruleika.

Viljum við virkilega hafa leynilöggu og hina almennu löggu vopnaða. NEI takk ekki ég. Það endar bara með sömu vitleysunni og viðgengst í henni Ameríku.

Soldið gott hjá SUS að vera í andstöðu við flokkinn sinn því þeir höfnuðu því að stofna leyniþjónustu nú og líka þjóðaröryggisdeild á skerinu. Telja að nóg sé að hafa þá greiningardeild sem fyrir er.

Held að ráðherrar dómsmála og menntamála þurfi að fá andlega aðstoð ef fram heldur sem horfir. Svona gerir ekki fólk sem hugsar um hag sinnar litlu þjóðar.

 


Byggðastefna Framsóknar

Það er hreint ömurlegt til þess að vita að byggðastefna Framsóknarflokksins og reyndar Sjálfstæðisflokksins einnig, skuli birtast manni nánast daglega. Nú er það fólkið á Bakkafirði sem blæðir. Atvinnustefna stjórnvalda er engin fyrir hin dreifðu byggðarlög og nú er Ratsjárstofnun að draga úr starfsemi sinni á Gunnólfsvíkurfjalli og enn flytja þeir sem öllu ráða störfin suður.

Enda sagði formaður Sjálfstæðisfélagsins Sleipnis á Akureyri í sumar að hann hefði lesið byggðastefnuna frá 2002-2005 og sannfærðist um að aðgerðir stjórnvalda dyggðu ekki til fyrir okkur sem á landsbyggðinni búum. Hann taldi nefnilega að flestir upplifðu byggðarstefnuna sem eitthvað sem stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn í Reykjavík rífist um. Hann segir svo: "Til hvers er pólitík sem ekki hefur raunveruleg áhrif á líf okkar?"

Undir það get ég tekið til hvers er slík pólitík. Vona að landsmenn sjái að sér í vor og efast reyndar ekki um það.

Svo er það hann Guðni blessaður og landbúnaðarmálin. Það er eiginlega ekki hægt að telja upp alla vitleysuna í honum og  mjög merkilegt að lesa um afstöðu hans til úrskurðar Samkeppnisstofnunar vegna mjólkuriðnaðarins.

 


Fyrsta bloggfærsla

Hérna hyggst ég skrifa pólitískar hugrenningar mínar og annað sem því tengist og mér þykir áhugavert.

Þar sem þetta er ný síða er breytinga að vænta því sem betur fer er ég alltaf að læra eitthvað. Myndin í hausnum er tekin síðsumars af Sauðárfossum þegar við Helgi fórum ásamt góðum hópi að skoða Kárahnjúkasvæðið. Þessi fossar sjást nú ekki lengur. Sama verður vonandi hægt að segja um sitjandi ríkisstjórn eftir næstu alþingiskosningar.

Ég hlakka mikið til komandi kosningabaráttu og höfum við hjá Vinstri grænum í Norðausturkjördæmi ákveðið að fara í leiðbeinandi forval. Búið er að velja fólk í forvalsnefnd og verið er að setja reglur í þessum skrifuðu orðum.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband