Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Tínast úr hreiðrinu

Já nú eru breytingar sonurinn farinn suður aftur og eldri dóttirin lögð upp í langferð ásamt vinkonu sinni.

Jólin voru ljúf og yndisleg. Litla fjölskyldan er nú orðin enn minni um stundasakir og ekki hægt að segja annað en að það séu töluverðar breytingar. Klara Mist búin að vera heima frá því í vor, vinna í Höllinni og hugsa vel um hundana okkar en lætur núna einn af mörgum draumum sínum rætast.

Hún ásamt Dísu vinkonu sinni lagði af stað til New York kl. 17 í dag og lenda þær á miðnætti að íslenskum tíma. Þaðan liggur svo leiðin til Jamaica þar sem þær ætla að eyða áramótunum. Ætlunin er að skoða ýmsa staði í norður-, mið- og suður Ameríku. Þær áætla að koma heim um miðjan maí ef allt gengur að óskum. Bjartsýnar og lífsglaðar stelpur. Grin

Þær ætla að blogga eins oft og þær geta á http://mariposa.blog.is endilega fylgist með.

Við erum sem sagt orðin þrjú í kotinu aftur og Jódís Jana, sem verður 10 ára í janúar, hefur því óskipta athygli okkar foreldranna.


Og jólin komu

Já það fór eins og ég gerði ráð fyrir jólin komu í mitt hús eins og líklega flest önnur og ég og mitt fólk búið að gera þá hluti sem við ætluðum okkur að vísu var Þorlákur liðinn og runnið inn í aðfangadag þegar fólkið fór í háttinn en það er nú líka venjan hér á þessu heimili. Nú vorum við hins vegar bara í þokkalegum rólegheitum á aðfangadag og það er frekar langt síðan svo hefur verið. Fengum meira að segja vini í heimsókn kl. 17 og það fannst mér dásamlegt. Smá kaffisopi, spjall og knús svona rétt áður en heilagt varð.

Skreytingarnar verða fleiri og meiri með hverju árinu og ljósadýrðin náði hámarki á aðfangadag. Í stofuloftinu voru 1200 perur fyrir utan öll önnur jólaljós þannig að mér datt helst í hug bíómyndin með Christmas vacation þegar slokknaði á borginni. Cool Það birti allavega töluvert upp skal ég segja ykkur.

Nú steikin og jólaísinn brögðuðust ágætlega og var mikið hlegið þegar ég spurði hvernig smakkaðist og eldri dóttirin sagði; "allt í lagi en ekkert sérstakt" þ.e. kjötið en karlmennirnir voru himinlifandi, enda borðar dóttirin ekki kjöt nema bara á aðfangadagskvöld og þeim þótti hún ekki dómbær á hvernig smakkaðist. Það sama á reyndar við minn kæra en hann hefur fram til þessa verið yfirsmakkari á jólaísinn en syninum varð á orði að það þyrfti að þríhyrningsmerkja ísinn þar sem hann innihéldi svo mikið af vanilludropum sem við hin erum reyndar sammála. Svona eru nú bragðlaukar okkar misjafnir.

Í dag eldaði heimasætan sér svo hnetusteik sem hún hafði með sér í jólaboðið hjá ömmu og afa enda hangikjöt og svið í boði sem við hin borðuðum með bestu lyst. Það endaði nú reyndar svo að hún var spurð hvað væri eiginlega í þessari "steik" því þeim sem hana smökkuðu þótti hún ægilega góð. Þannig að hún var lukkuleg með sitt sérfæði blessunin. Grin

Á morgun er svo jóla/kveðjuboð hér í Hlíðarveginum þar sem heimasætan er að fara af landi brott í tæpa fimm mánuði en hún og Dísa vinkona hennar ætla að þvælast um Norður-, mið-, og suður Ameríku. Bara spennandi og þær ætla að halda úti bloggsíðu sem kemur hér inn von bráðar.

Í bili.....

 


Mótmæli

Svona af því ég komst ekki á mótmælin á Akureyri í dag.

Þeir sem völdin hafa

 

Það eru í heiminum margir menn,

sem manngæsku ekkert vinna.

Sem hafa verið og eru enn,

óvinir bræðra sinna.

Þeir hugsa aðeins um eigin hag

og auðsljóma metorðanna.

Og hafa á ætíð það lúalag,

að læðast að baki manna.

 

Þeir bjóða ykkur margs konar kostakjör

og klappa á náungans herðar.

Þeir bjóða í veislur, með brosi á vör

og búast til aðstoðarferðar.

En lítils er virði það loforðskvak,

þó ljúfmennsku handtak þeir gefi.

Ef aðra þeir rétta, þá aftan við bak,

er óvæginn járnkrepptur hnefi.

 

Þið fölsku refir með fölsuð spil,

þið fjendur vinnandi þjóða.

Senn munu koma þau skuldaskil,

er skapanornirnar bjóða.

Þá enginn mun af ykkur bera blak.

Þá bros verður einskis virði.

Því okið mun falla á ykkar bak,

sem áður var þrælanna byrði.


Leynivinaleikur

Í Grunnskóla Ólafsfjarðar hefur undanfarin ár verið svokallaður leynivinaleikur. Gyða er yfirleynivinastrumpur enda annáluð fyrir gleði og skemmtilegheit. Leikurinn hefur verið með ýmsu sniði og nú í ár stóð hann yfir í tvær vikur og lauk í dag.

Fyrri vikan var sælkeravika og var þá mælst til þess að við gæfum okkar leynivini eitthvað gott í "bumbuna". Ostar, vínber, mandarínur, hákarl, hrossakjöt, öl af ýmsu tagi sem og gotterí og ýmislegt fleira varð fyrir valinu hjá vinahópnum í ár.

Svo tók við jólaþema sem varð mjög fjölbreytt eins og von og vísa er í þessum hóp.

Mesti spenningurinn er að fylgjast með og reyna að átta sig á hver leynivinur manns er og er ýmislegt á sig lagt til að koma ekki upp um sig. Hinir ýmsu "sendlar" færa fólki heim, send eru ljóð og skilaboð með margvíslegu móti og reynt að villa á sér heimildir eins og kostur er.

Minn leynivinur var Ásdís María og var ég nokkuð viss frá fyrstu gjöf en það var nú líka vegna skvísulegrar skriftar á nafninu mínu með fyrstu gjöfinni.

Í dag hittumst við svo og þá er gengið á röðina og við látin giska á hver við höldum að sé okkar leynivinur og útskýra af hverju við teljum akkúrat þennan en ekki hinn vera hinn eina sanna leynivin. Mikið hlegið af útskýringum að vanda og yndislegt að koma heim af svo góðri samkomu.

Enda sit ég og raða í mig konfektmolum Jóa Fel sem Ásdís María færði mér. 

Í bili.....


Frostrósir og félagar

Fór ásamt mínum kæra á tónleika Frostrósanna og gesta í íþróttahöllinni á Akureyri í gærkveldi og maður lifandi ég svíf enn.

Við fengum sæti á næstfremsta bekk og beint fyrir framan söngvarana og hvað er hægt að hafa það betra. Rósirnar voru hver annarri betri en Eivor er alveg yndisleg og lét ekki gullkjólinn sem hún skartaði aftra því að vera á tánum - engir skór hjá henni frekar en fyrri daginn. Hún syngur eins og engill ja eða seiðkona og höfðar mikið til mín. Margrét Eir fannst mér líka fara á kostum og hún og Hera bræddu mann algerlega þegar þær sungu Helga nótt.

Nú svo var karlpeningurinn ekki síðri og ég þarf nú ekki annað en að sjá Garðar Cortes brosa þá fæ ég í hnén hvað þá þegar hann hefur upp raust sína.

Þetta voru alveg magnaðir tónleikar og ljóst að ég mun fara að ári ef það verður í boði.

Í bili......


Stjórnarfundur, sveitarstjórnarráðsfundur og flokksráðsfundur VG

Já sunnudagurinn var fundardagur svo sannarlega. Rosalega góð stemming og þrusumæting. Þar sem ég er í sveitarstjórnarmálunum þá finnst mér tilhlýðilegt að ályktunin úr okkar hópi fylgi hér með. Bendi annars á heimasíðu VG þar sem finna má vinnuplagg sem lagt var fyrir flokkráðsfundinn og er nú komið í frekari úrvinnslu í grasrótinni.

Ályktun um sveitastjórnarmál var samþykkt samhljóða en hún er svo: 

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs haldinn 7. desember 2008 á Grand hótel telur það vera sameiginlegt verkefni hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að standa vörð um hag almennings. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í endurmótun samfélagsins og mikilvægi þeirra við uppbyggingu og endurmat er ótvírætt í samstarfi við íbúa, félagasamtök og hagsmunaaðila. Þau standa íbúunum næst og sinna verkefnum á sviði velferðar og menntunar. Sérstaklega þarf að styrkja og efla sveitarfélögin við þau skilyrði sem nú eru uppi.

Mikilvægt er að löggjafinn tryggi Lánasjóði sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fé til að lána sveitarfélögum til rekstrar við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja. Þó verði jafnframt tryggt að rekstur sveitarfélaga verði lagaður að þeim aðstæðum sem skapast hafa þannig að Lánasjóðurinn komist ekki í þrot.

Það er skýlaus krafa sveitarstjórnarráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að við mótun efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar verði hagsmunir sveitarfélaganna hafðir í forgangi.


Að afloknum vinnufundi

Við fórum á vinnufund H-listakonur til Siglufjarðar í gær og komum heim rúmlega hálf tólf í gærkveldi. Ekki hægt að segja annað en að við höfum verið frekar þreyttar og sýnir þessi mynd einna best ástandið á okkur.

að loknum vinnufundi

Frábær fótboltamaður

í frábæru fótboltaliði. Ronaldo er svo sannarlega vel að þessum titli kominn. Mitt lið verður efst í deildinni um áramótin - ekki spurning.
mbl.is Þetta er fallegasti dagur lífs míns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband