Laaaangur bæjarstjórnarfundur

Það er ekki ofsögum sagt að fundur bæjarstjórnar Fjallabyggðar var langur í gær. Hann stóð frá kl. 17-22:10. Í sjálfu sér ekki svo rosalega margt á dagskrá en mál sem þurfti og þarf að ræða vel.

Fundargerðir bæjarráðs og annarra nefnda voru í upphafi en síðan tók við umræða um erindisbréf nokkurra nefnda sveitarfélagsins, menningarstefnu, frístundastefnu og fræðslustefnu. Mikill tími hefur farið í vinnu á þessum stefnum en betur má ef duga skal. Því varð úr að bæjarstjórnarfulltrúar ætla að koma saman á "vinnufundi" þar sem þær verða kláraðar sem og starfsmannastefna sveitarfélagsins.

Töluverð umræða skapaðist um stefnur og tilgang þeirra. Hvað við viljum fá út úr slíkum stefnum og hvernig er hægt að ganga úr skugga um að eftir þeim sé farið. Ekki viljum við "skúffuplagg".

Einnig var mikil umræða um framtíðarsýn varðandi stofnanir bæjarins en tveir forstöðumenn hafa sagt starfi sínu lausu á árinu, forstöðumaður íþróttahúss Siglufjarðar og forstöðumaður bókasafns Ólafsfjarðar. Á að sameina undir einn hatt og hafa einn forstöðumann eða....? Hvenær á að taka slíkar ákvarðanir? Við gerum ekki allt þegar búið er að opna göngin. Við eigum að nýta öll svona tækifæri og segja "svona ætlum við að hafa þetta".

Nú það var farið yfir endurskoðaða fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ljóst að halda þarf vel á spöðunum þar sem viðsnúningurinn er mikill. Fjármagnsliðirnir eru þar stærstir en reksturinn fór líka mikið fram úr áætlun. Ég ræddi það í gær og hef áður gert á bæjarstjórnarfundi að mér finnst áætlanagerð og útboðsgögn ekki vera vel unnin þar sem sífellt er um aukaverk að ræða eða eitthvað gleymist.

Það er t.d. ekki eðlilegt að hér á leikskólanum Leikhólum hafi gleymst að gera ráð fyrir eldhúsinu, planinu, girðingum o.s.frv. Einhverjir verða að axla ábyrgð í þessu þá á ég líka við að ekki er ásættanlegt að slíkir hlutir gerist æ ofan í æ eins og verið hefur. Þá þurfum við að skoða hver leggur upp það sem aðrir framkvæma fyrir okkar hönd, bæjarfulltrúanna.

Nú við ræddum um framtíð Hornbrekku en ljóst er að töluverðar breytingar eru þar framundan. Heilsugæslan að sameinast á Úteyjarsvæðinu og þar með skilst hún frá dvalar- og hjúkrunarheimilinu. Í þessu máli þarf bæjarstjórn að taka ákvörðun.

Í bili..........


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband