Kjördæmisþing Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Um helgina var haldið kjördæmisþing Vinstri grænna og var það á Egilsstöðum. Alltaf gaman að koma austur og ekki síst að gista á Klöpp hjá frú Þuríði Backman.

Stjórnarfundur var haldinn á föstudagskvöldið þar sem allt milli himins og jarðar var rætt. Ég hef viljað að stjórn kjördæmisráðs verði enn virkari en hún hefur verið og þá sérstaklega sem stuðningur við svæðisfélögin. Ég tel að þörfin sé mikil nú í því ástandi sem ríkir í samfélaginu að styðja við hinn almenna flokksmann.

Nýr formaður var kosinn, Hlynur Hallsson en ég gaf ekki kost á mér áfram. Tek hins vegar við hlutverki gjaldkera ráðsins. Við kusum tvo ungliða í stjórnina og vona ég að þau verði dugleg og virk í umræðunni með okkur "gamla" liðinu.

Nú laugardagurinn tók á móti okkur með sól og blíðu en fundurinn hófst kl. 11. Efnahagsmálin tóku mestan tíma eins og við var að búast og lá mörgum mikið á hjarta. Ég verð líka að taka undir þá sem glöddust yfir því að vera Vinstri græn því við höfum ekki tekið þátt í þeirri vitleysu undanfarinna ára sem nú orsakar þann vanda sem við búum við.

Við lögðum svo í hann heim á leið uppúr kl. 17 og enn var autt á vegum og fallegt veður svo ferðin gekk ljómandi vel.

Læt hér fylgja nokkrar ályktanir sem á fundinum voru samþykktar.

Sex áherslur VG í NA-kjördæmi í efnahagsmálum 

Kjördæmisþing Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, haldið á Egilsstöðum 18. okt. 2008

Nýfrjálshyggju og einkavæðingarstefna ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins í rúm 17 ár, með Alþýðuflokknum, Framsóknarflokknum og Samfylkingunni, er nú hrunin með geigvænlegum afleiðingum fyrir samfélagið. Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir því risavaxna verkefni að vinna sig út úr þrengingunum sem þessi stefna hefur leitt yfir hana og hefja endurmótun og uppbyggingu samfélagsins á nýjan leik. Nú þurfum við að læra af mistökunum og heita því að endurtaka þau aldrei aftur. Við þurfum að byggja nýtt Ísland á nýjum gildum þar sem hófsemi, jöfnuður, samhjálp og virðing fyrir fólki og náttúru eru í öndvegi. Við þessar aðstæður leggur kjördæmisþing VG í Norðausturkjördæmi sérstaka áherslu á eftirfarandi:

  1. Að sveitarfélögin verði efld og þeim gert kleift að sinna sínu mikilvæga hlutverki við þessar aðstæður, þeirri velferðarþjónustu, félagslegu aðstoð og nærþjónustu við almenning sem sveitarfélögin eru ábyrg fyrir. Sveitarfélögin eru einnig mikilvæg sem stórir atvinnurekendur í landinu. Til þess að Sveitarfélögin geti sinnt sínu bráðnauðsynlega hlutveri við þessar aðstæður er óumflýjanlegt að styrkja fjárhagsgrundvöll þeirra.
  2. Velferðarkerfið og innviði samfélagsins verður nú að styrkja. Aldrei er velferðarkerfið mikilvægara en á erfiðleikatímum, eins og nú berja að dyrum. Þá reynir á mikilvægi almannatrygginga og atvinnuleysisbóta, þá er dýrmætara en nokkru sinni að hafa skólakerfi og heilbrigðisþjónustu án gjaldtöku sem allir geta reitt sig á óháð efnahag.
  3. Nú verður að standa vörð um eignir og auðlindir þjóðarinnar og verjast ásælni erlendra sem innlendra hræætna sem berja að dyrum og reyna að ná undir sig verðmætum sameignum þjóðarinnar eða læsa klónum í auðlindir landsins á útsölukjörum.
  4. Sú barátta sem þjóðin stendur nú frammi fyrir er í raun ekki aðeins barátta við efnahagslegt hrun, heldur líka ný sjálfstæðisbarátta. Framundan er orrusta um það, hvort Ísland getur áfram staðið á eigin fótum, stjórnað málum og nýtt auðlindir sínar í eigin þágu en ekki samkvæmt þvingunarskilmálum annarra, hvorki á klafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins né gráðugra erlendra fjárfesta.
  5. Möguleikar landsbyggðarinnar við þessar aðstæður eru margvíslegir. Þjóðin mun nú á nýjan leik átta sig á mikilvægi sjávarútvegs, landbúnaðar- og matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og hefðbundinna atvinnugreina þar sem raunveruleg framleiðslustarfsemi og raunveruleg verðmætasköpun á sér stað. Nú verðum við að treysta á þessar atvinnugreinar og þá nýsköpunarmöguleika í öðru fjölbreyttu atvinnulífi sem til staðar eru. Þess vegna er eitt allra mikilvægasta verkefnið nú, að tryggja útflutningsatvinnuvegum og hefðbundnum framleiðslugreinum lífvænleg starfsskilyrði og hlúa að þeim möguleikum til sóknar og aukinnar verðmætasköpunar sem þar felast. Hið margrómaða góðæri, byggt á gríðarlegum erlendum lántökum og þar með á brauðfótum, eins og nú hefur komið í ljós, fór að mestu leyti hjá garði á landsbyggðinni. Þar af leiðandi getur vel farið svo að landsbyggðin finni síður fyrir hinum harkalega samdrætti eða hruni sem nú á sér stað. Nú þarf þjóðarbúið allt sem aldrei fyrr á landsbyggðinni að halda og þeirri verðmætasköpun, atvinnu og möguleikum sem þar felast. Þessa möguleika verður nú að virkja. Það er í þágu okkar allra. Í öllum erfiðleikum felast líka tækifæri og eitt þeirra nú er að virkja möguleika landsbyggðarinnar og atvinnulífsin þar, virkja mannauð sem nú losnar til nýsköpunar og uppbyggingar á landsbyggðinni.
  6. Loks varar kjördæmisþing Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi við þeim             ofstækisfullu hugmyndum sem fram hafa komið að undanförnu um að lausn á vanda þjóðarinnar nú sé að hjóla í náttúru landsins af tvöföldu offorsi. Þau    sjónarmið hafa heyrst að ýta beri til hliðar öllum lögum og leikreglum um mat á  umhverfisáhrifum og eðlilegum náttúruverndarsjónarmiðum. Það má ekki      gerast að til viðbótar því stórtjóni sem tugþúsundir Íslendinga eru nú að verða fyrir vegna glæframennsku fjármálamanna og afglapa bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar bætist það við að stórspjöll verði unnin á náttúru landsins. Nóg er komið af slíku. Leiðarljós okkar við alla atvinnuuppbyggingu eiga að vera leikreglur sjálfbærrar þróunar. Lausn á vandanum nú getur ekki verið meira af því sama og bjó vandann til.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gangi ykkur allt í haginn! Það er líklegt að nú styttist í að ég gangi til liðs við ykkur, haldi fram sem horfir með forystuna í mínum flokki. En mér er það örðugt á meðan þið horfið á óbreytta stjórn fiskveiða án þess að hreyfa legg né lið. Mér er það með öllu óskiljanlegt að grænn stjórnmálaflokkur horfi aðgerðarlaus og hljóður á sjávarbyggðunum blæða út og trillubátana fúna í nausti ellegar safna botngróðri í dokkunum. Og þeir fáu sem fara á sjó fleygja öllu fyrir borð nema verðmætasta fiskinum eins og öll þjóðin veit.

 Ekki segja mér frá stefnuskránni og öllu því sem þar er sagt um stefnu ykkar. Ég á þessa stefnuskrá og hef lesið hana margsinnis spjaldanna á milli ásamt öllu því sem þar er sagt um stjórnun fiskveiða. En þið eigið ófáa menn á Alþingi sem láta ófriðlega í umræðum,- öllum nema þeim sem snerta breytta stjórnun fiskveiða.

Árni Gunnarsson, 19.10.2008 kl. 23:18

2 identicon

Sæll Árni og takk fyrir innlitið.

Bendi þér á að fylgjast vel með umræðunni á þingi þar situr nú varaþingmaðurinn Björn Valur Gíslason og tók hann m.a. þátt í umræðunni nú á dögunum um breytta stjórnun fiskveiða.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=136&mnr=6

Bjarkey (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband