Aðalfundur kjördæmisráðs
17.11.2007 | 23:09
Það er ekki ofsögum sagt að mikið hafi verið á sig lagt vegna kjördæmisþings Vinstri grænna í Mývatnssveit nú um helgina. Ég fékk far með félaga mínum úr stjórninni síðdegis í gær austur en stjórnarfundur var kl. 17 og stóð til kl. 23:45 með matarhléi. Ekki hafði nú verið ætlunin að hafa hann svona langan en það var bara svo skemmtilegt. Fólk hélt svo áfram að spjalla mislangt fram eftir nóttu. Í morgun var svo farið að hafa áhyggjur af mætingu vegna veðurs sem ekki var alls staðar jafn "gott". En að sjálfsögðu mættu félagar ágætlega og var fundurinn ljómandi góður. Tveir nýjir stjórnarmenn voru kosnir, formaður UVGA, Jan Erik og Klara Sigurðar, (systir Þormóðs) að öðru leiti er stjórnin óbreytt. Við héldum svo heim á leið rúmlega þrjú en þá var veður orðið frekar leiðinlegt og sáralítið skyggni. Tveir bílar útaf í Víkurskarði og einn lítill fastur á miðjum vegi. Ég ákvað að stoppa á Akureyri þegar við loksins komum þangað og bíða veðrið af mér en það var afleitt frá Akureyri til Dalvíkur en mun betra hér heima. Ég lagði svo af stað um kl. 21 en það var sama skítaveðrið og var ég hundlengi á leiðinni. Helgi minn og Rikki komu á móti mér og hittumst við við Stærri Árskóg þar sem bruninn varð fyrr í kvöld. Þar var veður orðið ágætt en þá kom að næstu hindrum sem var spýja sem fallið hafði við Sauðanes. Við vorum búin að atast stutt í henni þegar mokstursbíllinn kom og vorum við komin heim um kl. 22:30. Langt síðan ég hef lent í eins slæmu ferðaveðri enda í rauninni ekkert ferðaveður og asnaskapur að leggja út í slíkt. Ályktanir fundarins má finna á heimasíðu VG vonandi á morgun eða strax eftir helgi. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Náms- og starfsráðgjöf
14.11.2007 | 22:48
Ég var í staðlotu í lok síðustu viku og framundan eru skemmtilegt verkefni. Sem fyrr erum við fjórar stöllur að vinna saman og byrjuðum strax að skipuleggja meðan við vorum allar saman. Tvær þeirra eru svo yndislegar að vera búnar að bæta við þessa vinnu og ætla að hittast aftur á morgun. Þá ætla ég að reyna að vera með - alla vega eitthvað.
Mikil þörf er talin vera á náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum og eru flestir skólar að ráða til sín fólk í þessa vinnu. Sem dæmi þá er tvær með mér í náminu sem fá vinnu þegar þær eru tilbúnar að byrja, önnur á Akureyri og hin á Dalvík. Frábært. Vona að grunnskólar Fjallabyggðar setji þetta á oddinn líka fyrir næsta skólaár.
Margir hafa tengt svona starf við framhaldsskólana en það er með það eins og fleira of seint í rassinn gripið að byrja svo seint. Minni hætta er á brottfalli úr framhaldsskóla ef nemandi hefur notið náms- og starfsfræðslu á yngri stigum.
Helstu verkefni námsráðgjafa eru:ü Veita ráðgjöf varðandi nám, námstækni og námsvenjur.
ü Veita ráðgjöf varðandi náms- og starfsval.
ü Veita persónulega ráðgjöf og stuðning.
ü Veita leiðsögn og ráðgjöf um streitu- og kvíðastjórnun.
ü Áhugasviðskannanir í 10. bekk.
ü Veita nemendum og foreldrum þeirra upplýsingar um framhaldsnám.
ü Vinna að eineltismálum í samvinnu við umsjónarkennara og annað starfslið skólans.
ü Standa vörð um velferð nemenda og er trúnaðarmaður og málsvari þeirra.
Námsráðgjafi situr yfirleitt í nemendaverndarráði skólans og vinnur í nánu samstarfi við umsjónarkennara og annað starfslið skólans auk skólasálfræðings og fleiri sérfræðinga er koma að málefnum nemenda.
Ráðgjöf fyrir alla nemendur:
Lögð er áhersla á að ráðgjöfin stendur öllum nemendum skólans til boða. Nemandinn sjálfur eða foreldrar hans geta óskað eftir viðtali hjá námsráðgjafa en auk þess geta umsjónarkennarar, sérkennarar, skólastjórnendur og nemendaverndarráð vísað nemendum til námsráðgjafa.
Trúnaður:
Námsráðgjafi er bundinn þagnarskyldu varðandi allar upplýsingar sem hann fær varðandi mál einstakra nemenda eða nemendahópa. Námsráðgjafi hefur tilkynningaskyldu skv. Barnaverndarlögum.
Svo mörg voru þau orð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga
14.11.2007 | 22:33
Allt of langt síðan ég skrifaði síðast en svona er það nú bara. Lítill tími og þessar mínútur sem annars fara í skrifin hafa verið vel nýttar.
Fór á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 5. - 6. nóv. og fannst mörg áhugaverð erindi þar að finna. Það kom m.a. fram hjá Gunnlaugi Júlíussyni að mörg sveitarfélög hafi haft vaxandi tekjur af sölu byggingaréttar undanfarin ár. Ekki það að ég hafi ekki vitað af því en þetta er eitthvað sem landsbyggðarsveitarfélög almennt verða ekki vör við í sínum reikningum.
Hann sagði líka að atvinnuleysi myndi líklega vaxa í 2,5-3% á næstu misserum og ljóst væri að sérstakar aðgerðir þyrfti til að mæta þeim sveitarfélögum sem ekki byggju á þenslusvæðum. (Hvað með allar mótvægisaðgerðirnar) Sveitarstjórnarfólk auglýsti reyndar eftir þeim þegar þingmenn riðu um héruð um daginn.
Nú Birna Lárusdóttir sagði okkur frá því að minnsta sveitarfélagið teldi 50 manns en það stæsta 116.500 en samt væru flestar reglur um sveitarfélög og rekstur þeirra þær sömu. Góð setning sem kom fram hjá henni og fleirum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2007 kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Búið búið
2.11.2007 | 23:02
Loksins, loksins tókst mér að klára að skúra mig út úr Ólafsvegi 24. Mikið er ég glöð enda komin á tíma með þetta. Við Jódís fengum okkur svo flatböku og áttum notalegt spjall fyrst við matarborðið og svo svolítið koddahjal sem endaði ekki fyrr en sú stutta sofnaði. Munaði engu að ég dottaði líka. Annars er ég í launamálum og ætla að klára það núna og eiga frí á morgun. Leikur hjá mínum mönnum um hádegisbilið og þá skal flatmagað og etið vonandi eftir góðan göngutúr með ferfætlingana. Annars gleðst ég alltaf yfir því þegar góðar bækur koma út sem hljóðbækur þar sem ég hef lítinn tíma til að lesa annað en það sem tengist vinnu og námi. Nýti þá gjarnan tímann og hlusta ef ég er á leið í bílnum til Akureyrar eða...... Hjá JPV forlagi voru að koma nokkrar http://www.jpv.is/index.php?post=1948 |
Vetrarfrí búið
30.10.2007 | 20:52
Þá er vetrarfríið búið og hið hversdagslega tekið við aftur. Vetur konungur hefur líka minnt á sig en nú er úti snjókoma og nokkur gjóla. Ekki eitthvað fyrir mig.
Annars náði ég ekki að klára íbúðina mömmu í gær og er hreinlega sprungin eftir daginn í dag enda gekk mér illa að sofna síðast liðna nótt og því ljóst að ég halla mér í fyrra fallinu í kvöld.
Er að undirbúa hópverkefni um hafið fyrir bekkinn minn sem ég vona að þau vinni vel og af samviskusemi. Gæti orðið nokkuð skemmtilegt og flott ef þau leggja sig fram í framsetningu.
Nú þarf ég hins vegar að huga að mínum eigin lærdómi þar sem ég hef ekki kíkt í skruddurnar frá því í byrjun október og staðlota í næstu viku. Ekki gott til afspurnar og ljóst að mikil vinna er framundan hjá mér að lesa upp og hlusta á fyrirlestra.
Hef þessi fleygu orð sem hér fara á eftir í huga á næstunni.
Óþekktur höfundur
Að pakka niður
28.10.2007 | 09:50
Hef verið undanfarna daga að pakka niður búslóðinni hennar mömmu þar sem hún er búin að selja íbúðina sína. Það kennir margra grasa ef svo má að orði komast enda konan mikill "drasl safnari" eins og maðurinn minn segir um mig.
Hún mamma á svo mikið af handavinnublöðum að hægt væri að setja upp verslun með gömlum blöðum og dóti því tengdu. En ég vonast til að klára þetta í dag og fara í þrifin á morgun enda vetrarfríið mitt í skólanum þá búið og tími kominn á afhendingu.
En ég rakst meðal annars á ljóð eftir Ásgeir bróðir frá því hann var lítill polli og sagði honum í gær að ég myndi skella því á bloggið.
Þegar pabbi fór á bát
þá var mamma alveg mát.
Báturinn hét Súlan
þá var mamma hrædd við Múlann.
Önnur
Leiftur er best
og aldrei í fjórðu deildina sest
oft fá þeir góðan gest
en þurfa aldrei að nota hest.
Svona er nú hluti af hinum fína kveðskap litla bróður míns. Veit ekki hvað hann var gamall en hann kannski man það.
Sannkölluð fundarvika
18.10.2007 | 21:47
Það er ekki ofsögum sagt að þessi vika er fundarvika hjá mér. Byrjaði á mánudaginn með fundi um námsmat með félögum mínum í skólanum, síðan var haldið á Sigló á þriðjudaginn strax eftir kennslu kl. 16 á bæjarstjórnarfund sem lauk ekki fyrr en kl. 21:30.
Þar samþykkti meirihlutinn m.a. að hækka gjaldskrá tónskólans sem var þó hækkuð í fyrra. Nú það er líka búið að fresta því að taka upp skólamáltíðir hérna megin í Fjallabyggð en á að reyna Siglufjarðarmegin. Ekkert klárt um hvernig eigi að hátta þessu í Ólafsfirði yfirleitt.
Hið ánægjulega er að nú fer að hefjast íslenskukennsla fyrir útlendinga, hér í austurbænum, sem eru eins og áður hefur komið fram hjá mér orðnir þónokkuð margir hér í Ólafsfirði.
Mynd af íbúafundinum í Ólafsfirði.
Eftir bæjarstjórnarfundinn var Alta með niðurstöður úr íbúafundunum og var ánægjulegt að sjá hve fólk er bjartsýnt og tilbúið til að vinna að framgangi bæjarins. Skýrsluna verður hægt að lesa á www.fjallabyggd.is vonandi fljótlega og síðan má nálgast hana á skrifstofum sveitarfélagsins.
Í gær var svo vinnufundur í skólanum og í dag var ég á fundi sjálfsmatsteymis skólans.
Þar næst fór ég svo á fund í bæjarráði kl. 16:15 sem lauk kl. 19:40. Ýmislegt var þar á dagskrá s.s. endurskoðun fjárhagsáætlunar, málefni hestamanna sem ég er ekki allskostar sátt við hvernig gengið hafa fyrir sig. Nú Vignir verður eftirlitsaðili vegna Héðinsfjarðargangna fyrir hönd bæjarins þar sem bæjartæknifræðingurinn er hættur störfum. Samningur við slökkviliðsstjóra sveitarfélagsins var samþykktur sem og álagningarforsendur næsta árs.
Um helgina er svo Hallarvinna auk annars sem maður tekur sér fyrir hendur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær matur og skemmtun í Tjarnarborg
17.10.2007 | 20:01
Var að koma heim ásamt Jódísi Jönu eftir að hafa notið góðs matar, söngs og spils sem fólk af erlendum uppruna búsett í Ólafsfirði bauð okkur upp á ásamt deild Rauða krossins hér í firðinum eins og ég hef áður sagt.
Reglulega gaman að sjá allt þetta fólk og mæting annarra Ólafsfirðinga var frábær, fullt hús og þurfti að bæta við borðum. Tek undir orð séra Sigríðar Mundu þegar hún vonaði að þetta yrði bara byrjunin á góðum samskiptum allra sem hér byggju.
Tók nokkrar myndir en myndskilyrðin í Tjarnarborg eru ekki góð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mörg afmæli
14.10.2007 | 09:04
Hér í Ólafsfirði hefur ríkt einmuna veðurblíða síðustu daga, hitinn um 17°og sólin skinið. Í dag er hins vegar frekar rakt og hitinn 7°enn sem komið er.
Ýmislegt hefur gerst undanfarna daga hjá mér og mínum. Ég seldi íbúðina mömmu og fyrirliggjandi hjá mér að pakka niður dótinu hennar og koma því í geymslu. Ásgeir bróðir var hér og ekki um helgina. Hann var í gæsaveiði með Andra í Skagafirði og kom aðeins á fimmtudaginn til að svíða og reykja það sem veiðst hafði og gisti svo. Við fórum til mömmu ásamt Klöru Mist sem kom á miðvikudaginn.
Klara Mist varð sem sagt tvítug á fimmtudaginn 11. október og ómægod hvað við eigum fallega og heilbrigða stelpu. Við ákváðum að fara með hana og systur hennar, Jódísi Jönu út að borða í gærkveldi og varð Strikið fyrir valinu. Fengum þar fínan mat og fórum síðan heim og slökuðum í pottinum. Í dag er svo kaffiboð fyrir stórfjölskylduna.
Rauði krossin, Ólafsfjarðardeildin, býður gestum og gangandi að skoða sjúkrabílinn og skyndihjálparbúnað í dag í tilefni af kynningarviku. Einnig á Hornbrekka, dvalarheimilið, 25 ára afmæli og eru kaffi og kökur þar í boði. Á miðvikudaginn stendur svo Rauði krossinn fyrir opnu húsi í Tjarnarborg þar sem íbúar af erlendum uppruna kynna land sitt og þjóð.
Það vill svo skemmtilega til að nemendur í 3. bekk, þar sem Jódís mín er, fengu verkefni þessu tengt og enn skemmtilegra er að umsjónakennarinn þeirra óskaði eftir því við mig að mínir nemendur í 7. - 8. bekk aðstoðuðu þau við vinnuna. Það gerðum við og má sjá myndir af því á heimasíðu Grunnskólans. http://barnaskoli.olafsfjordur.is undir myndasíðuhnappnum.
Góður stuðningur
14.10.2007 | 08:54
Hlýtur að teljast ágætt veganesti fyrir Vg og samfó að fá þessa niðurstöðu þrátt fyrir ða hún segi auðvitað litla sögu í sjálfu sér eins og allar skoðanakannanir. Þetta er þrátt fyrir allt meiri stuðningur en fyrrverandi meirihluti fékk í kosningunum sem var rétt um 49%.
Tel ekki vafa leika á því að Svandís heldur áfram að vinna samkvæmt sinni sterku sannfæringu í orkumálunum sem og öðrum og vona bara að hún nái fram sem flestum áherslum VG í gegnum þetta samstarf.
Nýr meirihluti nýtur stuðnings 56,5% borgarbúa samkvæmt könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |