Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
Enn á leið í borgina
27.2.2008 | 14:15
Þetta fer að verða spurning um að kaupa sér húsnæði í borginni svo örar eru ferðinar. Febrúar hefur verið undirlagður í fundum og skóla þannig að nú eru allir "limir" fjölskyldunnar að verða búnir að fá nóg af þessu útstáelsi frúarinnar.
En seinni hluti aldurstölu minnar hafði breyst úr 2 í 3 þegar ég opnaði augun í morgun. Alveg merkilegt hvernig svona hlutir geta gerst á meðan maður sefur.
En ég sem sagt er á leið í síðustu staðlotu vetrarins og kem heim á laugardaginn svona til að muna hvernig fólkið mitt lítur út. Fer svo aftur á mánudaginn í Háskólann á Akureyri og verð þar á þriðjudaginn líka í starfsþjálfun.
Af þessu sökum hef ég flýtt foreldra/nemenda samtölum hjá mér og byrjaði í gær og klára í dag.
Í bili....
Flokksráðsfundur og sveitarstjórnarráðstefna
25.2.2008 | 14:37
Var á fínum fundi með flokksfélögum mínum um helgina. Fyrst var það örstjórnarfundur og flokksráðsfundur sem var mjög fínn og ræðan hennar Kötu frábær. Hún velti fyrir sér farsanum í borginni og kallaði hann raunveruleikasjónvarp auk þess að ræða skuggahliðar kapitalismans.
Launamálin voru helsta umræðuefnið hjá mjög mörgum bæði á flokksráðsfundinum og líka á sveitarstjórnarfundinum á laugardeginum enda framsögumenn þar Eiríkur Jónsson, KÍ og Gunnar Rafn Sigurbjörnsson formaður launanefndar sveitarfélaga.
Nokkrar ályktanir voru samþykktar m.a. um efnahags- og atvinnumál, heilbrigðismál, kjaramál og um sjávarútveg og mótvægisaðgerðir.
Hvet ykkur til að kíkja á þær og taka þátt í umræðunni.
Old Trafford
23.2.2008 | 01:15
Old Trafford er náttúrulega mekka fótboltamannsins. Ferðin var hreint æðisleg og klárt að ég á eftir að fara aftur.
Við fórum strax á föstudagskvöldið í smá "túr" um miðbæinn til að skoða helstu staði nú eða verslanir fyrir þá sem það vildu vita. Ekki dugði það okkur hjónunum til því við "villtumst" eða öllu heldur fundum ekki tiltekna verslun á sunnudagsmorgun en það gerði svo sem ekkert til vorum ekkert í verslunarferð. Mér finnst það alla jafna frekar leiðinlegt þ.e. að versla en það virðist samt einhvern veginn fylgja þegar maður er í útlandinu. Keypti svolítið á Jódísi Jönu og það var látið duga.
Um kl. 2 á laugardeginum var svo haldið á Bishop sem er bar okkar Man.Utd. manna/kvenna og verð ég að segja að ekki myndi þetta virka í firðinum kæra. Örfá borð voru en hins vegar stóðum við eins og sardínur í dós með ölflösku og kyrjuðum söngva. Hvatningarsöngva um einstaka leikmenn, liðið í heild og svo voru sungnir níðsöngvar um Arsenal og Liverpool svo eitthvað sé nefnt.
Við hjónin fórum svo á göngu um hverfið og kíktum í Megastorið þeirra Manchester manna sem var fínt en krökkt af fólki.
Leikurinn hófst svo kl. 17:15 og við á fremsta bekk. Omægod það var frábært ég gat nánast klipið í rassinn á John O Shea og Louis Saha þegar þeir voru að hita upp og öllum hinum sem tóku innkast við hliðarlínuna slík var nálægðin.
Ég verð þó að játa það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að Ryan Giggs var ekki í hópnum en hann hefur verið minn maður í gegnum árin. En það þýðir bara að ég VERÐ að fara aftur.
Við unnum að sjálfsögðu Arsenal 4-0 og gleðin takmarkalaus.
Á sunnudeginum kíktum við yfir í nágrannasveitarfélagið og skoðuðum Bítlasafnið sem er mjög skemmtilegt - líklega það eina sem er áhugavert í því sveitarfélagi.
Ég set inn myndir við fyrsta tækifæri.
Í bili.......
Bjarkey
Góðar kjarabætur
14.2.2008 | 11:30
Fjalla um gagntilboð SA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæjarstjórnarfundur og utanlandsferð
14.2.2008 | 09:52
Minni á bæjarstjórnarfundinn sem verður haldinn í dag kl. 17 í húsi eldri borgara í Ólafsfirði.
Hvet fólk til að mæta og taka þátt í pólitíkinni. Það sem við erum að fjalla um skiptir alla íbúa Fjallabyggðar máli.
Er svo á leið til Manchester borgar um helgina, loksins, í jómfrúarferðina og er orðin frekar spennt svo vægt sé til orða tekið.
Starfsþjálfun
14.2.2008 | 09:39
Hef dvalið hér á Akureyri þessa vikuna í starfsþjálfun hjá námsráðgjafanum hér í Háskólanum.
Hef setið nokkur viðtöl með henni, tekið sjálf eitt símaviðtal og er að skipuleggja framhaldið með þeim aðila sem ég ætla að hitta í þrjú skipti. Það er svolítið öðruvísi að sitja með fullorðnum en börnum í námi og hjálpa til við skipulagningu á náminu, námstækni, ræða frestunaráráttuna og allt hvað það nú er. En ótrúlega áhugavert.
Hef líka setið fundi með námsráðgjafanum og er að fara á einn slíkan nú á eftir.
Ég hef lesið ógrynni af efni sem tengist námstækni og prófkvíða og stefni á að setja saman örnámskeið í námstækni fyrir nemendur mína fyrir næsta vetur. Það er áskorun að aðlaga efni á milli ólíkra aldurshópa og er ég sífellt að hugsa hvernig ég yfirfæri það sem ég er nú að læra á minn starfsvettvang.
Í bili...
Tilfinningamál
9.2.2008 | 21:12
Er ekki áskrifandi af Mogganum en spurning hvort ég kaupi blaðið til að lesa betur um þetta mál.
Mér finnst Laufás alltaf svo forn í mínu hjarta. Allt þetta gamla er þar varðveitt. Hélt reyndar mikið upp á þá bræður Pétur og Jón Helga eftir að ég kynntist þeim sem stelpa á Vestmannsvatni.
Prestsetrasjóður þarf að huga að fleiru en krónum og aurum í þessu sambandi og velta fyrir sér hvað kemur sókninni og kirkjunni best í þessu máli.
Ég er ekki viss um að sala á jörðinni til annarra sé það besta en hvað veit ég?
Tilfinningar skipa þarna stóran sess og mikilvægt að jafnvægi sé á milli þeirra og annars þess er huga þarf að í svona mikilvægum málum.
Sala Laufáss ekki útilokuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæjarstjóralaunamál
9.2.2008 | 21:01
Ég verð að taka undir með Jóni, sem segir skoðun sína hér að neðan, og velta því upp hvað það er sem hefur breyst svo mikið í starfi bæjarstjóra að launin þurfi að hækka svo mjög. Hvað hafði meirihlutinn til hliðsjónar þegar gerður var samingur við hann í upphafi? Hvert var viðmiðið? Hann hefur jú aðstoðarmann hér í Ólafsfirði sem hefur aldeilis munað um.
Ég fékk símtal í gær þar sem mér var þakkað fyrir bókunina á bæjarráðsfundinum um þessi mál. Það vil ég þakka þar sem fólk lætur sjaldan í sér heyra yfirleitt um það sem maður er að gera í bæjarpólitíkinni. Ég vil taka það fram að allir fulltrúar minnihlutans voru á einu máli í þessu sambandi, enda ofbýður okkur öllum þetta mál.
Ekki það að ég hlakka til sem starfsmaður bæjarins, í tvennum skilningi, kennari og bæjarfulltrúi, að líta í launaumslagið á næstunni. Þetta telst vera fordæmisgefandi að mínu og margra annarra viti.
Gott fólk þetta mál verður tekið fyrir á fyrsta klukkutímanum á bæjarstjórnarfundinum og hvet ég ykkur til að mæta hér í Ólafsfirði, Siglfirðingar drífið ykkur yfir ef fært er um Lágheiði og sýnið að ykkur finnst þetta ekki í lagi.
Í bili.......
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Háskólinn á Akureyri
8.2.2008 | 21:35
Renndi til Akureyrar eftir vinnu í dag þar sem ég hitti fyrir námsráðgjafa skólans hana Sólveigu.
Alveg ótrúlega margt sem hún fræddi mig um á stuttum tíma og ljóst að margt skemmtilegt bíður mín. Kvíði líka svolítið fyrir þar sem verið er að taka út hvernig maður starfar og hvernig viðtalstækni manns er osfrv.
Við ræddum um störf hennar sem eru ábyggilega mun fjölbreyttari en margan grunar. Allir sem í þessum geira starfa kvarta yfir að hafa ekki nægjan tíma til að sinna þróunarstarfi sem er svo nauðsynlegt í þessu sem og flestum öðrum störfum.
Byrja á mánudaginn og verð út vikuna og fer svo aftur eftir páska.
Slapp heim áður en hann hvessti en veður er hér rólegt miðað við suðurlandið sýnist mér á fréttum.
Í bili.......
Lang flottastir
8.2.2008 | 21:22
Mínir menn alltaf lang flottastir. Ronaldo er án efa einn besti knattspyrnu maður heims í dag. Stjórinn er líka einn sá langlífasti við stjórnum knattspyrnuliðs að ég held.
Er orðin spennt er að fara jómfrúarferð mína á Old Trafford um næstu helgi að sjá Man. Utd. - Arsenal í bikarnum. Förum út síðdegis á föstudaginn og lendum seint og síðir á mánudagskvöldið.
Tvöfalt hjá Manchester United | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |