Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Útspil menntamálaráðherra og launamál

Menntamálaráðherra talar fjálglega um kennaralaunin þessa dagana og segir þau eiga að hækka verulega. Ég tek undir það með henni en það er svo auðvelt að tala um slíkar launahækkanir þegar maður þarf ekki að bera ábyrgð á því að borga og það segir Árni flokksbróðir hennar að standi ekki til. Það er að ríkið ætlar ekki að setja í sveitarfélögin auka fjármuni til að standa undir verulega bættum kjörum til handa kennurum.

Það hefur verið rætt frá því grunnskólarnir voru fluttir yfir til sveitafélaganna að ekki hafi fylgt því nægjanlegt fé og eiginlega ótrúlegt að sambandið hafi spilað svo rassinn úr buxunum að ekki hafi verið um endurskoðunarákvæði að ræða þar sem tekið er á fjármögnuninni.

En launamál eru víða rædd og meðal annars hér í Fjallabyggð. Meirihlutinn leggur til að bæjarstjórinn okkar fái umtalsverða hækkun á sínum launum og spurning hvort það sé fordæmisgefandi þannig að aðrir lykilstarfsmenn sveitarfélagsins fái svo vel í lagt eins og gera á við hann. Hvet fólk til að fylgjast vel með umræðunni næstu daga og endilega að mæta á bæjarstjórnarfund á þriðjudaginn kl. 17.

 


Menn blóta þessa dagana

Já það er ekki ofsögum sagt að áhugi fólks á þorramatnum fer að ég held vaxandi ef eitthvað er. Tvær skipshafnir hafa verið með þorrablót hjá okkur í vikunni og í kvöld eru það Kiwanismenn.

Margir eflaust orðnir súrir þegar að þessi ósköp ganga yfir. Annars kom einn sjómaðurinn að máli við mig og sagðist ekki hafa smakkað svona góðan þorramat í að minnsta kosti 10 ár. Ég er svo skrítin með það að mér finnst þetta eins á bragðið þ.e. það sem ég legg í að smakka (sem er nú reyndar frekar lítið).

Það má því segja að vinnudagurinn hafi verið frekar langur þessa vikuna og skýli ég mér á bak við það þegar ég afsaka bloggleysið.

Annars er ég búin að vera að kljást við flensuskít í eina þrjá daga eins og líklega margir. Maður dröslast þó í vinnu þar sem heldur hefur fækkað í kennaraliðinu sökum veikinda þessa vikuna.

Í bili.....


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband