Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga

Sat í gær fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem mörg áhugaverð erindi voru flutt. Hinn nýji framkvæmdastjóri Karl Björnsson var með gott yfirlit yfir rekstrarstöðu sveitarfélaga 2007 og hugsanlega áætlun fyrir 2009 þar sem hann gaf sér forsendur sem við vitum flest að eru mjög á reiki.

Honum var tíðrætt um að 2007 væri svolítið "plat" niðurstaða þar sem hjá stóru sveitarfélögunum væru allar þessar lóðir sem seldar voru og nú er búið að skila inn. Bakreikningurinn er sem sagt mjög stór og kemur á 2008.

Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri lánasjóðs sveitarfélaga var einnig með mjög gott erindi um lánasjóðinn. Það er nefnilega þannig að ekki er nóg að fá leyfi til að skila áætlun sveitarfélaga með halla - einhver þarf samt að fjármagna hallan og ljóst að sjóðurinn stendur ekki undir því.

Vonbrigði dagsins var ræða fjármálaráðherra, veit ekki af hverju ég hélt að hann myndi segja eitthvað en það gerðist ekki. Eftir að Halldór formaður sambandsins hafði ítrekað kröfu sambandsins um viðbótarframlagið úr jöfnunarsjóði og miklar umræður úr sal þá sagðist hann hafa það í huga þegar yfir málin yrði farið. Hann kom hins vegar upp um fáfræði sína þegar hann var spurður hvort hann teldi að viðbótarframlagið væri nota í lúxus eins og hann komst sjálfur að orði þegar hann talaði um í hvað peningar sveitarfélaga færu. Hann vissi sem sagt ekki í  hvað viðbótin væri yfir höfuð notuð - mismunandi vissulega en flest til reksturs grunnþjónustannar.

Ráðherra sveitarstjórnarmála byrjaði eftir hádegi og fengu sveitarstjórnarmenn líka lítil svör þar. 

Í kjölfarið voru flottar konur með framsögu og fannst mér Aldís, bæjarstjóri í Hveragerði, með fína framsögu. Hún talar "mannamál" eins og stundum er sagt og velti upp stöðunni sem flest sveitarfélög eru í - hvað á að skera niður og hvaða álögur á að hækka.

Annars var það sammerkt í framsögunum að meiri og minnihlutar eru að vinna saman að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og svolítið talað þannig að það væri alveg nýtt undir sólinni.

Sigurbjörg Árnad. endaði svo með yfirferð yfir Finnsku leiðina sem mér sýndist stuða marga í salnum. Margur ekki gert sér grein fyrir hvernig hún birtist fólki sem bjó og býr í Finnlandi.

Jæja best að koma sér í morgunmat og síðan heldur dagskráin áfram.

Í bili........


Sannkölluð fundarvika framundan

Já það er ekki ofsögum sagt að þessi vika er fundarvika. Á morgun eru það foreldraviðtöl, síðan er það bæjarstjórnarfundur sem haldinn verður á Sigló. Það lítur allt út fyrir að við þurfum að fara lengri leiðina ríflega 300 km. Get ekki sagt að ég sé rosalega spennt.Frown

Annars hefur veður skánað og kannski verður Lágheiðin mokuð - vonum það besta.

Á miðvikudaginn verður svo rokið af stað til að ná flugi þar sem fjármálaráðstefnan verður í borginni á fimmtudag og föstudag. Ætla að fljúga til Akureyrar á föstudaginn og gista og fá svo far með mínum kæra heim á laugardaginn.

Af því svona er þá er víst best að nota tímann núna og halda áfram að vinna í kennsluáætlunum fyrir næstu önn.

Í bili.....


Birtan

Var að lesa grein úr Fiskifréttum eftir vin minn Björn Val þar veltir hann því fyrir sér hvort útgerðin sé að fara á hausinn. Bjössi rifjar upp fyrri tíma í sögu útgerðar og fiskvinnslu og hvað íbúar lítils sjávarþorps gerðu þegar erfiðir tímar voru í sjávarútveginum.

Leikfélagið setti upp kabarett og gerði góðlátlegt grín af mönnum og málefnum og þá sérstaklega "áberandi þorpsbúum" eins og hann kemst að orði.

Það má segja að hér í Óafsfirði sé fólk að bregðast við þeim þyngslum sem fylgja ástandi eins og nú ríkir einmitt á svipaðan hátt. Leikfélagið okkar er með á fjölunum leikritið "Á svið" sem hefur verið vel tekið af bæjarbúum.

Það er nefnilega nauðsynlegt í skammdeginu að lyfta sér svolítið upp og slá á létta strengi, "gleyma" áhyggjum hversdagsins og njóta stundarinnar.

Lýsum upp skammdegið með kertaljósum og fallegri birtu og tökum eftir smáu hlutunum, hrósum hvort öðru.


Ýmsu safnar maður

Þessa dagana er varla hægt að tala um að safna einhverju - alla vega ekki peningum en ástarhöldin stækka hjá mér en nú er hafið átak í þeim málum.

Annað sem ég er ekki eins glöð með að safna eru mýs. Mjög mikill músagangur er hér í firðinum þessa dagana og erum við búin að veiða sex á þrem dögum.

Það er varla að maður þori orðið í heita pottinn af ótta við að rekast á mýs á leiðinni ofan í.Errm Ég óttast svo sem ekki þessi grey en finnst þau afspyrnu ógeðfelld og gæti alveg án þeirra verið. Dætur mínar vilja helst að farið sé með mýsnar til fjalla og þeim sleppt en þær væru líklega snöggar til baka í hlýjuna og ætið.

Í bili......


VG í stjórn

Loksins fékk formaður VG pláss hjá Agli í Silfrinu en sá síðarnefndi hefur sniðgengið formanninn svo eftir hefur verið tekið. Reyndar í allri umræðu er VG ekki að fá nema örstuttan tíma ef eftir áliti þeirra er yfirleitt leitað.

Viðtalið var gott en því ástandi sem nú ríkir er auðvitað ekki auðvelt að gera öllu skil sem formaðurinn hefði eflaust viljað.

En viðtalið er síðustu 20 mínúturnar í Silfrinu og má finna hér.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband