Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Fínn fundur

Við Helgi minn fórum á fundinn í gær með Steingrími sem var fjölmennur. Að vanda fór Steingrímur vel yfir málin og komu ýmsar spurningar úr sal. Ekki voru allir Vinstri grænir svo þetta var engin hallelúja samkoma. Wink En hins vegar voru þeir örfáu sem ekki voru í VG fyrir gengu flestir í flokkinn að sjálfsögðu.

En ég fékk sent frá félaga mínum á Facebook eftirfarandi en þó stytt um helming:

SÓSÍALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú gefur nágranna þínum aðra þeirra.

KOMMÚNISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og gefur þér mjólk.

FASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar og selur þér mjólk.

NASISMI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar...og skýtur þig svo.

SKRIFRÆÐI
Þú átt 2 kýr.
Ríkið tekur þær báðar, skýtur aðra þeirra, mjólkar hina og hellir svo allri mjólkinni.

HEFÐBUNDINN KAPITALISMI
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og kaupir naut. Þú stofnar kúabú og hagnast vel. Þú hagnast vel, selur kúabúið og sest í helgan stein

SÚRREALISMI
Þú átt 2 gíraffa.
Ríkið krefst þess að þú farir í harmonikkunám.

BANDARÍSKA FYRIRTÆKI
Þú átt 2 kýr.
Þú selur aðra þeirra og þvingar hina til að gefa af sér mjólk á við fjórar kýr. Þú ræður svo sérfræðing til að komast að því hvers vegna hún datt niður dauð.

ÁHÆTTUFJÁRFESTINGAR
Þú átt 2 kýr.
Þú selur 3 þeirra til fyrirtækis á opnum markaði með veði í gervifyrirtæki mágs þíns, gengur svo frá yfirtöku með vísan í skráningu á markaði þannig að þú færð allar 4 kýrnar tilbaka og skattaívilnanir vegna einnar til viðbótar. Afurðarétturinn af kúnum 6 er færður yfir á fyrirtæki í Karíbahafinu, en leynilegur meirihlutaeigandi þess selur þér aftur réttinn að öllum 7 kúnum. Samkvæmt ársskýrslu á fyrirtækið nú 8 kýr, með eigendarétti að einni til viðbótar. Þú selur eina kú til þess að þóknast ónefndum stjórnmálamanni og átt þá níu kýr. Rétturinn að nautinu er seldur almenningi í hlutafjárútboði.


Opinn fundur um efnahagsmál á Akureyri í kvöld

Minni á fund í kvöld sem ber yfirskriftina:

Tölum saman um efnahagsmál

Opinn fundur um efnahagsmál með Steingrími J. Sigfússyni, fomanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í kvöld, þriðjudag kl. 20 á Hótel Kea.

Hver er staðan í efnahagsmálum?

Hvaða leiðir eru færar við þessar aðstæður?

Allir sem hafa áhuga á stöðunni í efnahagslífi þjóðarinnar eru hvattir til að koma. 

 


Kjördæmisþing Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Um helgina var haldið kjördæmisþing Vinstri grænna og var það á Egilsstöðum. Alltaf gaman að koma austur og ekki síst að gista á Klöpp hjá frú Þuríði Backman.

Stjórnarfundur var haldinn á föstudagskvöldið þar sem allt milli himins og jarðar var rætt. Ég hef viljað að stjórn kjördæmisráðs verði enn virkari en hún hefur verið og þá sérstaklega sem stuðningur við svæðisfélögin. Ég tel að þörfin sé mikil nú í því ástandi sem ríkir í samfélaginu að styðja við hinn almenna flokksmann.

Nýr formaður var kosinn, Hlynur Hallsson en ég gaf ekki kost á mér áfram. Tek hins vegar við hlutverki gjaldkera ráðsins. Við kusum tvo ungliða í stjórnina og vona ég að þau verði dugleg og virk í umræðunni með okkur "gamla" liðinu.

Nú laugardagurinn tók á móti okkur með sól og blíðu en fundurinn hófst kl. 11. Efnahagsmálin tóku mestan tíma eins og við var að búast og lá mörgum mikið á hjarta. Ég verð líka að taka undir þá sem glöddust yfir því að vera Vinstri græn því við höfum ekki tekið þátt í þeirri vitleysu undanfarinna ára sem nú orsakar þann vanda sem við búum við.

Við lögðum svo í hann heim á leið uppúr kl. 17 og enn var autt á vegum og fallegt veður svo ferðin gekk ljómandi vel.

Læt hér fylgja nokkrar ályktanir sem á fundinum voru samþykktar.

Sex áherslur VG í NA-kjördæmi í efnahagsmálum 

Kjördæmisþing Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, haldið á Egilsstöðum 18. okt. 2008

Nýfrjálshyggju og einkavæðingarstefna ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins í rúm 17 ár, með Alþýðuflokknum, Framsóknarflokknum og Samfylkingunni, er nú hrunin með geigvænlegum afleiðingum fyrir samfélagið. Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir því risavaxna verkefni að vinna sig út úr þrengingunum sem þessi stefna hefur leitt yfir hana og hefja endurmótun og uppbyggingu samfélagsins á nýjan leik. Nú þurfum við að læra af mistökunum og heita því að endurtaka þau aldrei aftur. Við þurfum að byggja nýtt Ísland á nýjum gildum þar sem hófsemi, jöfnuður, samhjálp og virðing fyrir fólki og náttúru eru í öndvegi. Við þessar aðstæður leggur kjördæmisþing VG í Norðausturkjördæmi sérstaka áherslu á eftirfarandi:

  1. Að sveitarfélögin verði efld og þeim gert kleift að sinna sínu mikilvæga hlutverki við þessar aðstæður, þeirri velferðarþjónustu, félagslegu aðstoð og nærþjónustu við almenning sem sveitarfélögin eru ábyrg fyrir. Sveitarfélögin eru einnig mikilvæg sem stórir atvinnurekendur í landinu. Til þess að Sveitarfélögin geti sinnt sínu bráðnauðsynlega hlutveri við þessar aðstæður er óumflýjanlegt að styrkja fjárhagsgrundvöll þeirra.
  2. Velferðarkerfið og innviði samfélagsins verður nú að styrkja. Aldrei er velferðarkerfið mikilvægara en á erfiðleikatímum, eins og nú berja að dyrum. Þá reynir á mikilvægi almannatrygginga og atvinnuleysisbóta, þá er dýrmætara en nokkru sinni að hafa skólakerfi og heilbrigðisþjónustu án gjaldtöku sem allir geta reitt sig á óháð efnahag.
  3. Nú verður að standa vörð um eignir og auðlindir þjóðarinnar og verjast ásælni erlendra sem innlendra hræætna sem berja að dyrum og reyna að ná undir sig verðmætum sameignum þjóðarinnar eða læsa klónum í auðlindir landsins á útsölukjörum.
  4. Sú barátta sem þjóðin stendur nú frammi fyrir er í raun ekki aðeins barátta við efnahagslegt hrun, heldur líka ný sjálfstæðisbarátta. Framundan er orrusta um það, hvort Ísland getur áfram staðið á eigin fótum, stjórnað málum og nýtt auðlindir sínar í eigin þágu en ekki samkvæmt þvingunarskilmálum annarra, hvorki á klafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins né gráðugra erlendra fjárfesta.
  5. Möguleikar landsbyggðarinnar við þessar aðstæður eru margvíslegir. Þjóðin mun nú á nýjan leik átta sig á mikilvægi sjávarútvegs, landbúnaðar- og matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og hefðbundinna atvinnugreina þar sem raunveruleg framleiðslustarfsemi og raunveruleg verðmætasköpun á sér stað. Nú verðum við að treysta á þessar atvinnugreinar og þá nýsköpunarmöguleika í öðru fjölbreyttu atvinnulífi sem til staðar eru. Þess vegna er eitt allra mikilvægasta verkefnið nú, að tryggja útflutningsatvinnuvegum og hefðbundnum framleiðslugreinum lífvænleg starfsskilyrði og hlúa að þeim möguleikum til sóknar og aukinnar verðmætasköpunar sem þar felast. Hið margrómaða góðæri, byggt á gríðarlegum erlendum lántökum og þar með á brauðfótum, eins og nú hefur komið í ljós, fór að mestu leyti hjá garði á landsbyggðinni. Þar af leiðandi getur vel farið svo að landsbyggðin finni síður fyrir hinum harkalega samdrætti eða hruni sem nú á sér stað. Nú þarf þjóðarbúið allt sem aldrei fyrr á landsbyggðinni að halda og þeirri verðmætasköpun, atvinnu og möguleikum sem þar felast. Þessa möguleika verður nú að virkja. Það er í þágu okkar allra. Í öllum erfiðleikum felast líka tækifæri og eitt þeirra nú er að virkja möguleika landsbyggðarinnar og atvinnulífsin þar, virkja mannauð sem nú losnar til nýsköpunar og uppbyggingar á landsbyggðinni.
  6. Loks varar kjördæmisþing Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi við þeim             ofstækisfullu hugmyndum sem fram hafa komið að undanförnu um að lausn á vanda þjóðarinnar nú sé að hjóla í náttúru landsins af tvöföldu offorsi. Þau    sjónarmið hafa heyrst að ýta beri til hliðar öllum lögum og leikreglum um mat á  umhverfisáhrifum og eðlilegum náttúruverndarsjónarmiðum. Það má ekki      gerast að til viðbótar því stórtjóni sem tugþúsundir Íslendinga eru nú að verða fyrir vegna glæframennsku fjármálamanna og afglapa bæði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar bætist það við að stórspjöll verði unnin á náttúru landsins. Nóg er komið af slíku. Leiðarljós okkar við alla atvinnuuppbyggingu eiga að vera leikreglur sjálfbærrar þróunar. Lausn á vandanum nú getur ekki verið meira af því sama og bjó vandann til.

Laaaangur bæjarstjórnarfundur

Það er ekki ofsögum sagt að fundur bæjarstjórnar Fjallabyggðar var langur í gær. Hann stóð frá kl. 17-22:10. Í sjálfu sér ekki svo rosalega margt á dagskrá en mál sem þurfti og þarf að ræða vel.

Fundargerðir bæjarráðs og annarra nefnda voru í upphafi en síðan tók við umræða um erindisbréf nokkurra nefnda sveitarfélagsins, menningarstefnu, frístundastefnu og fræðslustefnu. Mikill tími hefur farið í vinnu á þessum stefnum en betur má ef duga skal. Því varð úr að bæjarstjórnarfulltrúar ætla að koma saman á "vinnufundi" þar sem þær verða kláraðar sem og starfsmannastefna sveitarfélagsins.

Töluverð umræða skapaðist um stefnur og tilgang þeirra. Hvað við viljum fá út úr slíkum stefnum og hvernig er hægt að ganga úr skugga um að eftir þeim sé farið. Ekki viljum við "skúffuplagg".

Einnig var mikil umræða um framtíðarsýn varðandi stofnanir bæjarins en tveir forstöðumenn hafa sagt starfi sínu lausu á árinu, forstöðumaður íþróttahúss Siglufjarðar og forstöðumaður bókasafns Ólafsfjarðar. Á að sameina undir einn hatt og hafa einn forstöðumann eða....? Hvenær á að taka slíkar ákvarðanir? Við gerum ekki allt þegar búið er að opna göngin. Við eigum að nýta öll svona tækifæri og segja "svona ætlum við að hafa þetta".

Nú það var farið yfir endurskoðaða fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ljóst að halda þarf vel á spöðunum þar sem viðsnúningurinn er mikill. Fjármagnsliðirnir eru þar stærstir en reksturinn fór líka mikið fram úr áætlun. Ég ræddi það í gær og hef áður gert á bæjarstjórnarfundi að mér finnst áætlanagerð og útboðsgögn ekki vera vel unnin þar sem sífellt er um aukaverk að ræða eða eitthvað gleymist.

Það er t.d. ekki eðlilegt að hér á leikskólanum Leikhólum hafi gleymst að gera ráð fyrir eldhúsinu, planinu, girðingum o.s.frv. Einhverjir verða að axla ábyrgð í þessu þá á ég líka við að ekki er ásættanlegt að slíkir hlutir gerist æ ofan í æ eins og verið hefur. Þá þurfum við að skoða hver leggur upp það sem aðrir framkvæma fyrir okkar hönd, bæjarfulltrúanna.

Nú við ræddum um framtíð Hornbrekku en ljóst er að töluverðar breytingar eru þar framundan. Heilsugæslan að sameinast á Úteyjarsvæðinu og þar með skilst hún frá dvalar- og hjúkrunarheimilinu. Í þessu máli þarf bæjarstjórn að taka ákvörðun.

Í bili..........


Frábærir tónleikar

Það er ekki ofsögum sagt að tónleikarnir voru frábærir. Hver snillingurinn af öðrum steig á svið og flutti þessi frábæru lög Villa af mikilli innlifun.

Á milli atriða voru vinir, samstarfsfélagar og fleiri sem sögðu frá ýmsu sem varðaði Villa og ferilinn sem var mjög skemmtilegt.

Jónsi fór alveg á kostum þegar hann söng Lítill drengur og í seinni hlutanum var Laddi alveg magnaður í laginu Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitin ásamt Eyva, grínið að sjálfsögðu með.

Í kvöld á svo að fara gott út að borða og hafa kósý kvöld í borginni.

Í bili....


mbl.is Mikil ánægja með minningartónleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá Möller

Verð að segja að þetta átti aldrei að vera neitt spursmál. Það hefur verið ljóst um langan tíma að sveitarfélögin hafa ekki úr nægu fé að spila vegna margra hluta m.a. laga og reglugerða sem ríkið hefur sett og er mjög íþyngjandi fyrir sveitarfélög svo ekki sé nú minnst á blessaða yfirfærslu skólanna.

En þetta var eitt af því sem sambandið fór fram á við ríkið og gott að það er orðið ljóst.

Í bili...


mbl.is Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær aukaframlag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband