Til hamingju Ármann

Ármann er einstakur maður og afar fjölhæfur. Hann er svo sannarlega vel að þessum verðlaunum kominn. Ég á eftir að lesa bókina um Tolkien og Hringinn en bókin Vonarstræti er mjög skemmtileg aflestrar. Svo var safnað saman greinum sem hann og fleiri skrifuðu á Múrinn - vefrit og ber sama heiti og er skyldulesning allra sem áhuga hafa á pólitík. Í rökstuðningi með verðlaununum segir m.a.: 

Það vekur sérstaka athygli í hversu mörgum og ólíkum ritum Ármann hefur birt greinar, og sýnir það með öðru þá áherslu sem hann leggur á að kynna rannsóknir sínar á sem fjölbreyttustum vettvangi. Ekki síður endurspeglar það mikla fræðilega breidd því hann er jafnvígur á leyndardóma miðaldabókmennta og spennusögur nútímans. Hann virðist þó hafa sérstakt dálæti á tröllum og öðrum forynjum og því til áréttingar skrifaði hann heila bók um Tolkien og Hringinn sem kom út um það leyti sem kvikmyndirnar um Hringadróttinssögu fóru sem eldur í sinu um heimsbyggðina.

Ármann hefur einnig tekið mjög virkan þátt í þjóðfélagsumræðu sem róttækur pistlahöfundur í dagblöðum og á netinu og hafa ýmsir pistlar hans verið gefnir út í bókarformi. En hann hefur ekki látið þar við sitja. Hann hefur einnig skipað sér í sveit skáldsagnahöfunda, en fyrsta skáldsaga hans, Vonarstræti, kom út á síðasta ári. Í henni fjallar hann um eitt ár í lífi langömmu sinnar og langafa, þeirra Theodóru og Skúla Thoroddsen, þegar hart var tekist á um Uppkastið svonefnda árið 1908. Þó svo að þarna sé skáldsaga á ferð er augljóst að höfundurinn nýtir sér fræðilega þekkingu sína og tekst að tengja söguefnið við önnur tímabil í sögu þjóðarinnar. Ármann hlaut einróma lof gagnrýnenda fyrir bókina og með henni hefur hann haslað sér völl á nýjum vettvangi.

 


mbl.is Ármann Jakobsson hlýtur hvatningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halli Nelson

Sammála. Ármann er bæði einstakur og fjölhæfur, sem og Sverrir bróðir hans. Ég var svo heppinn að eiga samleið með þeim í HÍ á sínum tíma, með Ármanni í íslensku og Sverri í sagnfræði. Frábærir báðir tveir. Innilegar hamingjuóskir til Ármanns með þessi verðlaun.

Halli Nelson, 1.7.2009 kl. 15:05

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég er sammála því að Ármann er skemmtilegur penni og án þess að draga í efa fræðistörf hans finnst mér soldið spes að veita honum hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs og nota svo langan hluta rökstuðningsins í að tala um hluti sem ekki tengdist fræðistarfi hans heldur stjórnmála- og listastarfi hans.

Héðinn Björnsson, 1.7.2009 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband