Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
Snjór og holur
24.9.2007 | 23:37
Ásgeir bróðir á afmæli í dag - til hamingju með það kæri bróðir. Fór á Sigló í hádeginu í dag þar sem ég tek þátt í viku símenntunar með Vinnumiðlun Norðurlands vestra. Þar hitti ég Líneyju sem er forstöðukona þeirrar stofnunar og hefur yfirumsjón með starfskynningu minni. Við fórum ásamt Bryndísi sem starfar hjá Farskólanum, á sama svæði, í heimsókn til Rammans, á Heilbrigðisstofnunina og í Samkaup. Okkur var alls staðar vel tekið og nýttu fjölmargir sér það að spá og spjalla um nám og annað sem þeim lá á hjarta. Í kvöld var svo kynning á hreint frábæru tæki sem er talgervill fyrir lesblinda og einnig þeirri þjónustu sem veitt er í gegnum Farskólann m.a. greiningu á lesblindu. Einn aðili sagði frá reynslu sinni af talgervli og sagðist loksins geta "lesið" blöðin en ekki bara fyrirsagnir. Einnig var haldið örnámskeið sem fjallaði um frestunaráráttu og valkvíða sem Líney var með. Flestir kannast við að "gera þetta bara á morgun" og er ég ekki þar undanskilin. Mér kveið svolítið fyrir heimför sem var rétt um kl. 22 þar sem snjór var á Lágheiðinni þegar ég fór að heiman. En lítið hafði bætt í en köflótt veður var á leiðinni. Fjallabjart var hins vegar á heiðinni en versti kaflinn er hér fram sveitina og upp á miðja heiði. Skagfirðingarnir báru nefnilega í heiðina í síðustu viku en Ólafsfjarðarmegin er hún og sveitavegurinn ekkert nema holur. Nú er kominn tími á pottinn og svo háttinn. |
Haustþing, heitur pottur og nám
22.9.2007 | 23:33
Fór á miðvikudaginn á Sauðárkrók þar sem ég er í starfsþjálfun hjá Vinnumálastofnun Norðurlands vestra. Þar tók ég ásamt Sigrúnu, sem er náms- og starfsráðgjafi hjá stofnunni, á móti fólki sem er atvinnulaust og fór ég einnig í samskonar á Siglufirði á mánudaginn var. Fer aftur á mánudaginn á Sigló en þá er vika símenntunar og við förum í heimsóknir í fyrirtæki og síðan eru kaffihúsafyrirlestrar um kvöldið. Sama verður á Blönduós á miðvikudaginn nema til viðbótar verð ég með Sigrúnu í viðtölum fyrir hádegi þann dag. Þar með lýkur þessum þætti starfsþjálfunarinnar en eftir áramótin fer ég væntanlega í grunn- og/eða framhaldsskóla í starfsþjálfun. Dagurinn í gær var annars mjög fjölbreyttur hjá mér. Ég fór reyndar til Akureyrar á fimmtudagsseinnipart, strax eftir bæjarráðsfund, þar sem stjórn KSNV, KNV og BKNE hittust yfir kvöldverði. Eftir hann var farið upp í Brekkuskóla þar sem fundargögn fyrir haustþing þessara félaga voru sett í möppur en 450 manns skráðu sig á þingið. Það tókst með ágætum og var setningarathöfnin í íþróttahöllinni þar sem fjöldinn var svo mikill. Eftir það voru fræðslufundir og málstofur í Brekkuskóla fram eftir degi. Ég notaði hádegið til ýmissa hluta svo sem að hitta tannsa og fara með úlpuna mína í viðgerð svo eitthvað sé nefnt. Þegar málstofum og fundum lauk um kl. 15:30 var kaffihlé og síðan tóku við aðalfundir félaganna. Hjá okkur í BKNE voru um 60 aðilar sem þykir nokkuð gott þó mér þyki félagsvitund kennara ekki mikil þar sem um 299 félagsmenn voru skráðir á haustþingið. Tek ekki mark á því að fólk sé þreytt eftir langan dag enda er aðalfundur einu sinni á ári og mér finnst að fólk eigi að gera ráð fyrir honum í sinni dagskrá. En nóg um það. Um klukkan 19 var svo hátíðarkvöldverður á KEA þar sem Júlli Júll var veislustjóri og Tröllaskagahraðlestin spilaði fyrir dansi. Ég fór reyndar tímanlega heim og hafði á orði við minn kæra að ekki hefði ég orðið fyrir slyddunni fyrr en í fjörðinn kom. En mikið var ég glöð er ég kíkti út á pallinn og sá að heiti potturinn minn var þar niðurkominn. Eitthvað sem við erum búin að ætla okkur í mörg ár að eignast og létum loksins verða af því. Jói, vinur okkar, og Líney, kona hans, komu svo til okkar eftir hádegi þar sem hann seldi okkur pottinn og þurfti því að kenna okkur á græjuna. Gulli Jón kom um svipað leyti og tengdi og svei mér ef allt virkar ekki með ágætum. Eigum reyndar eftir að renna okkur í hann en hann verður vonandi orðinn fínn í fyrramálið. Mikið held ég það verði gott að láta sig leka ofan í áður en maður skríður í háttinn á kvöldin. ummmmmm. |
Íbúafundur Ólafsfirði
18.9.2007 | 23:07
Íbúafundurinn í Ólafsfirði var í kvöld og tókst með ágætum. Ríflega 100 manns og fannst mér ágætist stemming og margar frambærilegar hugmyndir. Greinilegt er að Fjallabyggðarbúum er ferðamennskan ofarlega í huga sem og nýting og afleiður vegna framhaldsskólans sem væntanlegur er. Auk þess komu fjölmargar áhugaverðar hugmyndir sem vonandi verða að veruleika. |
Fundur með samgöngunefnd og vel heppnaður íbúafundur
18.9.2007 | 11:58
Dagurinn byrjaði á því að minn kæri fór með bílinn í dekkjaskipti þar sem ég þurfti að fara til Siglufjarðar í starfsþjálfun og snjór á Lágheiðinni. Var komin þangað um kl. 12:30 og var til kl. 15 þegar ég stökk á fund með samgöngunefnd.
Sú nefnd tók vel í óskalista bæjarstjórnar Fjallabyggðar og gerir líklega allt sem hún getur til að uppfylla óskir sem flestra bæjar- og sveitarstjórna þessa dagana.
Um kvöldið var svo íbúafundur og var mætingin hreint frábær á þriðjahundrað manns og fín stemming. Vona að Ólafsfirðingar verði jafn duglegir að mæta í kvöld og taka þátt eins og vesturbæingarnir.
Digital hvað!!
15.9.2007 | 21:13
Ja ekki náði ég að horfa á leikinn í náttfötunum þar sem hann var sýndur á hliðarrás sýnar 2 og við sem búum ekki á "digital" vænu svæði höfum því ekki aðgang að honum. Sá fyrri hálfleikinn í Höllinni þar sem ég hef valið að taka sýn2 í gegnum ADSL og borga extra fyrir það. Liverpool leikurinn var svo auglýstur og menn komu að horfa á hann svo ég fór heim með sárt ennið. Ég sagði það nú við minn kæra að maður væri sífellt að röfla yfir þessu misræmi hjá 365 miðlum varðandi þetta digital því við náum því ekki hér þ.e. öllum hliðarrásum og ekki get ég horft á eitt og bóndi minn annað nei, nei af og frá. Svo er maður svo mikill fíkill að ekki segir maður þessu dóti upp. En án gríns ég er að hugsa um að senda kvörtun til umboðsmanns neytenda þetta getur ekki staðist að við borgum bara meira og meira sem á landsbyggðinni búum til þess að sjá það saman og þeir sem hafa "virkt digital". Set saman bréf á morgun og fæ fólk til að skrifa undir með mér. |
Óvissuferð - afmæli og fleira
15.9.2007 | 01:05
Best að byrja á því að segja frá því að minn kæri átti afmæli þann 13. sept. og sullaði ég í nokkrar kökur af því tilefni. Ég fór reyndar í óvissuferð með samstarfsfólki mínu í skólanum það kvöld sem var mjög skemmtileg. Ég fékk mér svo bara kökur þegar ég kom heim og var með þær í vélindanu þegar ég fór að sofa. Annars fórum við að skoða Héðinsfjarðargöng og var það áhugavert. Þau verða tvíbreið um átta metrar á breidd og átta og hálfur á hæðina að sögn Björns Harðar sem hefur umsjón með verkinu.
Nú svo lá leiðin upp að hitaveituskúr þar sem heitt kaffi og baylis beið okkar svo fórum við í gaggann þar sem Maggi mágur tók á móti okkur og við sungum nokkur lög sem hann tók upp. Diskur verður hugsanlega gefinn út til styrktar ferðasjóðnum okkar segi svona.
Þaðan fórum við inn á Árskógsand og skoðuðum bruggverskmiðju Kalda sem mér finnst frábært framtak og hreint æðislegt að einhver þori að demba sér út í bisness. Við enduðum svo á Hótel Sóley hjá Adda Sím. sem gaf okkur góða súpu og salat að borða.
Annars var yndislegt veður í gær föstudag, sólin skein og himininn var líka svona fallega blár. Það bjargaði eiginlega bömmernum sem var tilkominn vegna snjós í fjallstoppum og rigninga undanfarnar þrjár vikur.
Annars þurfti ég að skjótast á fund á Sigló um hádegisbilið sem er ekki í frásögur færandi en þegar við komum á Lágheiðina var verið að reka fé í Fljótin og við sundruðum að sjálfsögðu blessuðum rollunum gangnamönnum eflaust til mikilla ama.
Þegar ég kom heim um kaffileytið fór ég til mömmu og síðan í göngu með hundana á Skeggjabrekku.
Fyrri hluti kvöldsins fór í bókhald og hinn síðari í sjónvarpsgláp þar sem ég horfði á mynd með hinum sænska lögreglumanni Kurt Wallander en ég hef lesið allar bækur sem þýddar hafa verið á hið ylhýra um þennan fína lögreglumann.
Nú er kominn tími á koddann - leikur hjá Man.Utd í fyrramálið og ég ætla að sitja og horfa í náttfötunum með tertusneið og gott kaffi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bæjarmál
13.9.2007 | 14:15
Á föstudaginn var hélt bæjarráð fund þar sem m.a. var tekin fyrir beiðni tónskólans á Akureyri um niðurgreiðslu vegna nemenda frá Ólafsfirði sem þar stunda nám. Ekki sá meirihlutinn ástæðu til að greiða niður enda hafði slíkt ekki viðgengist á Siglufirði. Það var sem sagt gert hér í Ólafsfirði í tíð síðustu bæjarstjórnar og ekki ástæða til að fara eftir því.
Mér finnst það dapurt að krakkar sem fara frá okkur í framhaldsskóla geti ekki stundað áframhaldandi nám í tónskóla vegna þess að bærinn vill ekki styðja við bakið á þeim eins og hann gerir ef þau eru hér heima. Það á ekki að bitna á þeim eitthvert þras á milli ríkis og sveitarfélaga. Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir treysti sér til að stunda hér nám í tónskóla Ólafsfjarðar/Siglufjarðar þegar framhaldsskólinn verður risinn hér í Ólafsfirði.
Við höfum greitt niður leikskóla fyrir börn sem hér hafa lögheimili en einhverra hluta vegna eru annars staðar með tímabundið aðsetur. Okkur hefur þótt vænt um útsvarið sem foreldrar þessara barna hafa greitt til sveitarfélagsins og talið það vega þyngra heldur en neitun á slíkri þjónustu.
Meirihlutinn fól síðan fræðslunefnd að ákveða hvort niðurgreiðsla ætti sér stað eða ekki. Ég er náttúrulega svolítið skrítin en mér finnst það vera verk bæjarráðs/stjórnar, hinna pólitíst kjörnu fulltrúa að ákveða slíkt en ekki nefnda þó þær geti og eigi að sjálfsögðu að hafa skoðun á slíkum málum.
Sem betur fer tók bæjarráð ekki undir með skipulags- og umhverfisnefnd, sem hafnaði tillögu Helga míns, um að vinna að friðlýsingu Héðinsfjarðar. Þar má velta því fyrir sér hvort menn eru vanhæfir þegar þeir eiga land í firðinum góða. Alla vega þá ætlar bæjarráð að óska eftir fundi með landeigendum og heyra ofan í þá enda að mínu viti ekkert annað í boði en að friðlýsa Héðinsfjörð. Með því er verið að vernda eigur þeirra sem þar eiga land en ekki skerða eins og margir virðast halda. Ég held nefnilega að miskilnings gæti hjá mörgum varðandi orðið "friðlýsing".
Nú bæjaráð samþykkti að vera áfram með ferðakort fyrir námsmenn sem eru í framhalds- og háskóla og vona ég að sem flestir nýti sér það.
Framhaldsskóli í Ólafsfirði
5.9.2007 | 19:41
Í heimsókn til Ólafsfjarðar komu á þriðjudaginn var fulltrúar menntamálaráðuneytisins. Tilefnið var að kynna sér staðhætti vegna staðsetningar á framhaldsskóla í Ólafsfirði. Ætlunin er að kennslan fari einnig fram á Dalvík en þar er til húsnæði sem hægt er að nýta að einhverju leyti. Enda má segja að nýjar leiðir séu til náms með aukinni tækni sem nota beri.
Næst er að gera skoðanakönnun í sveitarfélögunum sem að skólanum standa Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð þar sem áhugi foreldra og nemenda verður kannaður. Ætlunin er að hafa mikið samstarf við atvinnulífið í sveitarfélögunum þar sem áhugi er m.a. á starfsnámi.
Mikil bjartsýni er og gert er ráð fyrir að skólinn taki til starfa um leið og Héðinsfjarðargöng opna haustið 2009.
Ekki spurning að þetta er mikilvægt fyrir byggðalögin þar sem unga fólkið verður þá lengur heima og setur sinn svip á bæjarlífið auk þess sem aukin og fjölbreyttari atvinna skapast á svæðinu.
Meðgjöf í Ólafsfirði
5.9.2007 | 19:28
Gat ekki annað en glaðst yfir því að forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar skyldi segja frá því í fréttum sjónvarpsins áðan að bærinn hyggðist bjóða þeim sem byggja vildu íbúðarhús í Ólafsfirði meðgjöf uppá 500.000 þús. þ.e. með því að lækka lóðaverð.
Helgi minn lagði það nefnilega til á fundi skipulags- og umhverfisnefndar um daginn að þetta yrði gert og samþykkti nefndin það. Ekki treysti þó formaður bæjarráðs sér til að taka málið fyrir á bæjarráðsfundi daginn eftir þar sem hún hafði ekki rætt málið í sínum hóp. Skil það reyndar vel en á sama tíma fór formaður nefndarinnar í útvarpið og tjáði sig um málið - þurfti greinilega ekki að ræða við sitt fólk.
En þetta er það sem fyrrverandi meirihluti bauð uppá og ekki spurning að verið er að taka rétta ákvörðun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Akkúrat
5.9.2007 | 19:12
Morgunumferðin þung í borginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |