Að ríplast
8.7.2009 | 18:25
Í gær voru snjóflóðavarnagörðunum fyrir ofan þéttbýlið í Siglufirði gefin nöfn. Það voru tillögur þeirra félaga í Örnefnafélaginu Snóki sem hlaut náð fyrir augum dómnefndar. http://snokur.is Þetta er heimasíða þeirra félaga.
Ég gekk ásamt umhverfisráðherra, samgönguráðherra, bæjarfulltrúum og mörgum fleirum eftir görðunum í ljómandi góðu veðri og fannst gönguleiðin styttri en ég taldi í upphafi. Hvet fólk til þess að sjá garðana "ofan frá" með þessum hætti og horfa yfir bæinn. Það er bæði hægt að ganga uppá görðunum og eins fyrir neðan þá þ.e. þar sem snjórinn safnast.
Nöfn þvergarðana, talið frá suðri:
1. Hlíðarrípill
2. Hafnarrípill
3. Skriðurípill
4. Skálarrípill
5. Bakkarípill
Leiðigarðurinn sem nyrstur er fær nafnið:
6. Kálfur
Þeir félagar útskýra orðið rípill sem svo: Rípill er nafn á garði eða hrygg í landslagi og er alloft notað í jarðfræði t.d. jökulríplar. Í norðanverðum Héðinsfirði ( framundan Músardal ) er örnefnið Rípill.
Þeim þótti viðeigandi að segja okkur að orðið rípill beygist eins og spegill.
Þess má geta að Rípil er einnig að finna í Ólafsfjarðmúla.
Það eru líka tvær tjarnir sem fengu nöfn önnur er við innkomuna í bæinn og heitir Bakkatjörn en hin er syðst í bænum við enda garðanna og heitir Bolatjörn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:27 | Facebook
Athugasemdir
Rípill beygist náttúrlega líka eins og skrípill
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.7.2009 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.