Fjármálaráðstefna sveitarfélaga
14.11.2008 | 07:28
Sat í gær fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem mörg áhugaverð erindi voru flutt. Hinn nýji framkvæmdastjóri Karl Björnsson var með gott yfirlit yfir rekstrarstöðu sveitarfélaga 2007 og hugsanlega áætlun fyrir 2009 þar sem hann gaf sér forsendur sem við vitum flest að eru mjög á reiki.
Honum var tíðrætt um að 2007 væri svolítið "plat" niðurstaða þar sem hjá stóru sveitarfélögunum væru allar þessar lóðir sem seldar voru og nú er búið að skila inn. Bakreikningurinn er sem sagt mjög stór og kemur á 2008.
Óttar Guðjónsson framkvæmdastjóri lánasjóðs sveitarfélaga var einnig með mjög gott erindi um lánasjóðinn. Það er nefnilega þannig að ekki er nóg að fá leyfi til að skila áætlun sveitarfélaga með halla - einhver þarf samt að fjármagna hallan og ljóst að sjóðurinn stendur ekki undir því.
Vonbrigði dagsins var ræða fjármálaráðherra, veit ekki af hverju ég hélt að hann myndi segja eitthvað en það gerðist ekki. Eftir að Halldór formaður sambandsins hafði ítrekað kröfu sambandsins um viðbótarframlagið úr jöfnunarsjóði og miklar umræður úr sal þá sagðist hann hafa það í huga þegar yfir málin yrði farið. Hann kom hins vegar upp um fáfræði sína þegar hann var spurður hvort hann teldi að viðbótarframlagið væri nota í lúxus eins og hann komst sjálfur að orði þegar hann talaði um í hvað peningar sveitarfélaga færu. Hann vissi sem sagt ekki í hvað viðbótin væri yfir höfuð notuð - mismunandi vissulega en flest til reksturs grunnþjónustannar.
Ráðherra sveitarstjórnarmála byrjaði eftir hádegi og fengu sveitarstjórnarmenn líka lítil svör þar.
Í kjölfarið voru flottar konur með framsögu og fannst mér Aldís, bæjarstjóri í Hveragerði, með fína framsögu. Hún talar "mannamál" eins og stundum er sagt og velti upp stöðunni sem flest sveitarfélög eru í - hvað á að skera niður og hvaða álögur á að hækka.
Annars var það sammerkt í framsögunum að meiri og minnihlutar eru að vinna saman að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og svolítið talað þannig að það væri alveg nýtt undir sólinni.
Sigurbjörg Árnad. endaði svo með yfirferð yfir Finnsku leiðina sem mér sýndist stuða marga í salnum. Margur ekki gert sér grein fyrir hvernig hún birtist fólki sem bjó og býr í Finnlandi.
Jæja best að koma sér í morgunmat og síðan heldur dagskráin áfram.
Í bili........
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.