Margt um að vera

Eins og sjá má hef ég lítið bloggað. Mikið að gera á öllum vígstöðvum og þá mætir þetta afgangi.

Ekki það að verkefnum hafi fækkað - líklega fjölgað en ég ákvað nú samt að setjast niður og setja hugrenningar mínar á blað.

Þar ber fyrst að geta að Klara Mist og Dísa eru væntanlegar heim úr sínu langa ferðalagi um Mið - og Suður Ameríku frá því í desember og óneitanlega hlökkum við mikið til. Áætluð lending frá New York er kl. 7 á föstudagsmorgun. Ég verð komin í borgina og tek vonandi á móti þeim.

En að allt öðru. Í dag er bæjarstjórnarfundur og sitthvað þar á dagskrá samkvæmt venju. Útboð vegna trygginga Fjallabyggðar og einnig í sorphirðumálum. Kaup á bátasmíðaskemmunni og yfirtaka á gömlu dráttarbrautinni á Sigló verður líklega ákveðin í dag. Rekstur sveitarfélagsins janúar - mars hefur gengið ágætlega en þó eru ákveðnir liðir sem eru komnir töluvert framúr og viðbúið að bæta þurfi enn frekar í.

Hámarkshraði á Aðalgötu í Ólafsfirði verður tekinn fyrir og er tillaga skipulags- og umhverfisnefndar sú að hann verði hækkaður aftur í 50 km. 3 ára áætlun þar sem gert er ráð fyrir minni hækkun tekna og minni lækkun gjalda frá því hún var lögð fram um daginn. Eitthvað gengur hægt að fá uppsettar hraðahindranir sem búið er að samþykkja í 3 ár en vonandi verður bragabót á því fljótlega.

Fundargerð frístundanefndar gefur tilefni til að ræða ýmislegt s.s. framtíð golfvalla í Fjallabyggð, rekstur skíðasvæðis í Skarðsdal og þá ætti svæðið hér í Ólafsfirði að ræðast líka svo eitthvað sé nefnt.

Lagning háspennustrengs hefur verið ræddur töluvert í skipulags- og umhverfisnefnd og hvaða leið verður farin í þeim efnum.

Nú er búið að ákveða í bæjarráði að gefa íbúum Fjallabyggðar kost á að rækta sitt eigið grænmeti í matjurtargörðum og er búið að leggja til svæði sem vonandi verður samþykkt í dag. Spennandi að sjá hvort íbúar verði ekki duglegir að nýta sér þetta tækifæri og sjá það líka sem stað þar sem fólk skiptist á skoðunum um kryddið sitt og grænmeti og veiti hvort öðru góð ráð.

Minni svo á íbúaþingið sem haldið verður á Siglufirði á laugardaginn og er þar fjallað um skólamálin ásamt fleiru. Hvet alla til að kynna sér málið og mæta. Rúta verður fyrir þá sem ekki geta nýtt sér eigin bíl. Þarna verða teknar mótandi ákvarðanir sem hafa áhrif á okkur öll og þetta er okkar tækifæri til að hafa áhrif. Frjálslegar umræður skoðið dagskrána á http://fjallabyggd.is

Í bili.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband