Tími til að breyta
24.10.2008 | 21:39
Verð að láta þessa grein fljóta hér. Hún segir allt sem segja þarf í ástandinu sem nú ríkir. Frábær grein hjá nýkjörnum formanni UVG.
Nú, rétt eins og fyrir tæpum 19 árum, horfum við á þjóðskipulag byrja að hrynja til grunna. Þá byrjaði hrun sovétkommúnismans með falli Berlínarmúrsins sem var táknmynd þess þjóðskipulags. Hrun íslensku bankanna markar upphafið á falli nýfrjálshyggjunnar, sem er þjóðskipulag græðgi og sérhagsmuna. En hún fellur ekki ein, heldur tekur hún ævisparnað stórs hluta Íslendinga, sparnað sem átti að tryggja þeim áhyggjulaust ævikvöld, með sér í gröfina. Við syrgjum því ekki nýfrjálshyggjuna, heldur allt það sem hún tók frá okkur.
Fólk er, skiljanlega, reitt og sorgmætt. Þetta átti aldrei að gerast. Enginn getur sagt að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir þetta. Það er óþarfi að reyna að afsaka skefjalausa græðgi með því að tala um alþjóðafjármálakreppu, einfaldlega því að við sjáum að aðrar þjóðir eru ekki jafn djúpt sokknar og við. Þetta er sárt og þetta er ósanngjarnt því íslenskur almenningur á ekki sök á þessu. En við höfum hins vegar ekki rétt á því að láta sorgina og reiðina heltaka okkur. Við skuldum komandi kynslóð að þerra tárin, standa á fætur og hefja uppbyggingu.
Tækifærin eru til staðar á Íslandi og það sem mikilvægara er, þau eru enn sameign íslensks almennings, ekki séreign þeirra sem vilja skapa af þeim gróða fyrir sig eina. Sem betur fer voru sumir alsgáðir í einkavæðingarpartíinu og stóðu vörð um það sem við erum fegnust að eiga ennþá, nú þegar skóinn kreppir að. Þau tryggðu að orkulindir landsins yrðu áfram sameign þjóðarinnar. Þau börðust með kjafti og klóm gegn markaðsvæðingu heilbrigðis- og menntakerfisins og hafa varist stöðugum árásum nýfrjálshyggjunnar á velferðakerfið síðustu ár. Þau hafa staðið með íslenskri náttúru og hafa talað fyrir jafnrétti allra í þjóðfélaginu. Og þau standa enn vaktina fyrir íslensku þjóðina, því má hún treysta.
Ísland er ekki á hausnum. Það er fiskur í sjónum, matvælaframleiðsla í sveitum, orka og fegurð í náttúrunni, duglegt fólk á öllum aldri í framhalds-, iðn- og háskólum og útflutningsiðnaður í sókn. Við höfum tækifæri til menntunar, við höfum duglegt fólk sem ekki mun draga af sér við uppbygginguna og við höfum hvort annað. Við erum nógu klók til að læra af reynslunni og byggja ekki upp sama þjóðfélagsskipulag og var við lýði til þess eins að láta það hrynja undan okkur aftur.
Það er kominn tími til að breyta. Það er kominn tími til að bæði kynin komi í jöfnum mæli að ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Það er kominn tími til að aflétta leynd og pukri og gefa fólki aftur trú á lýðræðisleg stjórnmál. Það er kominn tími til að taka velferð þjóðarinnar fram yfir gróðavon einstaklinga. Og það er kominn tími til að stokka spilin og gefa aftur, því síðast var vitlaust gefið.
Steinunn Rögnvaldsdóttir
Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. október 2008
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.