Hvað er að gerast í Fjallabyggð?
25.7.2008 | 15:06
Mikið er skrafað á götum bæjarins og líkast til víða annars staðar um málefni sveitarfélagsins. Flestum sem ég heyri í þykir lítið um framkvæmdir a.m.k. Ólafsfjarðarmegin. Þetta hefur borist bæjarstjóra til eyrna og sá hann ástæðu til að skrifa bréf á heimasíðu sveitarfélagsins til að árétta hver verkefnastaða sveitarfélagsins væri. Ég hvet ykkur til að lesa yfir bréfið það er ekki langt og sýnir að flest af því sem á að gera í Ólafsfirði gerist síðar á árinu ef frá er talinn leikskólinn, bæjarskrifstofurnar og nú vonandi verður skólamötuneytið tilbúið á réttum tíma. Það þótti hins vegar forgangsmál að laga veginn fram að Auðnum sem kostaði 1.500.000 en ekki mátti eyða 400.000 í að laga innkomuna í bæinn sem Árni Helga bauðst til að gera áður en hann fór með tækin, sem hann notaði í Mararbyggðinni, úr bænum. Nú er talið að þessi framkvæmd kosti mun meira líklega 1.200.000 eins og kom fram í máli formanns skipulags- og umhverfisnefndar á bæjarstjórnarfundi í júní. Hraðahindranir voru samþykktar 2006 og er enn ekki farið að bóla á þeim, planið við kirkjuna var tekið út sumarið eftir kosningar og er enn í hönnun. Þegar ég spurði á bæjarstjórnarfundinum nú í júlí hvort fólk væri ekki sammála því að hinir kjörnu fulltrúar bæru ábyrgð á því að það sem samþykkt væri í bæjarstjórn væri unnið, og þá að sjálfsögðu meirihlutafulltrúarnir sem hafa valdið, þá tók fólk undir það. En fólki finnst verkefnin mörg og mikið álag.
Það vantar skilvirkni sem lýsir sér best í því að formaður skipulags- og umhverfisnefndar kvartar sáran yfir því að nefndin fái ekki að ráðstafa þeim peningum sem á fjárhagsáætlun er heldur þurfi að bera alla hluti undir bæjarráð og helst bæjarstjórn. Nei það borgar sig ekki að veita nefndum völd það gæti reynst árangursríkara. Ég er hins vegar mjög reið yfir því að meirihlutinn vill ekki malbika göngustíginn fyrir ofan fótboltavöllinn heldur bera ofan í hann einhverja möl. Ég spyr bara er dvalarheimilisfólk á Hornbrekku afgangsstærð? Fólk sem þarf að nota göngugrind eða hjólastól getur ekki nýtt sér stíg sem er með möl. Brekkan að dvalarheimilinu er erfið og ef fólk ætlar að ganga eða fara með hjólastól er það verulegur þröskuldur á þeirra leið og nánast ómögulegt. Enda kemur þú beint niður á veg þar sem þjóðvegsumferðin fer í gegn. Það á að setja þarna malbik og laga þannig að dvalarheimilisfólk og gestir sem vilja ganga fram eftir geti gert það án þess að vera í þjóðvegsumferð og fara erfiða brekku. Í bili... |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.