Sannkölluð fundarvika
18.10.2007 | 21:47
Það er ekki ofsögum sagt að þessi vika er fundarvika hjá mér. Byrjaði á mánudaginn með fundi um námsmat með félögum mínum í skólanum, síðan var haldið á Sigló á þriðjudaginn strax eftir kennslu kl. 16 á bæjarstjórnarfund sem lauk ekki fyrr en kl. 21:30.
Þar samþykkti meirihlutinn m.a. að hækka gjaldskrá tónskólans sem var þó hækkuð í fyrra. Nú það er líka búið að fresta því að taka upp skólamáltíðir hérna megin í Fjallabyggð en á að reyna Siglufjarðarmegin. Ekkert klárt um hvernig eigi að hátta þessu í Ólafsfirði yfirleitt.
Hið ánægjulega er að nú fer að hefjast íslenskukennsla fyrir útlendinga, hér í austurbænum, sem eru eins og áður hefur komið fram hjá mér orðnir þónokkuð margir hér í Ólafsfirði.
Mynd af íbúafundinum í Ólafsfirði.
Eftir bæjarstjórnarfundinn var Alta með niðurstöður úr íbúafundunum og var ánægjulegt að sjá hve fólk er bjartsýnt og tilbúið til að vinna að framgangi bæjarins. Skýrsluna verður hægt að lesa á www.fjallabyggd.is vonandi fljótlega og síðan má nálgast hana á skrifstofum sveitarfélagsins.
Í gær var svo vinnufundur í skólanum og í dag var ég á fundi sjálfsmatsteymis skólans.
Þar næst fór ég svo á fund í bæjarráði kl. 16:15 sem lauk kl. 19:40. Ýmislegt var þar á dagskrá s.s. endurskoðun fjárhagsáætlunar, málefni hestamanna sem ég er ekki allskostar sátt við hvernig gengið hafa fyrir sig. Nú Vignir verður eftirlitsaðili vegna Héðinsfjarðargangna fyrir hönd bæjarins þar sem bæjartæknifræðingurinn er hættur störfum. Samningur við slökkviliðsstjóra sveitarfélagsins var samþykktur sem og álagningarforsendur næsta árs.
Um helgina er svo Hallarvinna auk annars sem maður tekur sér fyrir hendur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.