Geðveikt gaman

Nú nota ég orðin sem krakkarnir nota. Þetta var rosalega gaman og eiginlega ólýsanlegt að vera þarna uppi í slíku góðviðri. Það blakti ekki hár á höfði og sólin skein á okkur öll.

Skíðakrakkarnir voru frábærir og þvílíkt hugrekki að renna sér þarna niður - vá maður. Sumir hina fullorðnu voru líka hugaðir svo sem Björn Þór, Maja - þeir eru svona þessir íþróttakennarar. En svo var a.m.k. einn fulltrúi bæjarapparatsins sem lét sig hafa það og renndi sér niður - Jón Hrói. Kristján Hauks og Kjartan fóru á brettum. Þetta er alger snilld.

BÚIN AÐ SETJA INN MYNDIR.


Múlakolla

Klukkan tvö í dag fer ég ásamt fleira fólki upp á Múlakollu en þar ætlar Sparisjóður Ólafsfjarðar að vera með svolitla uppákomu. Ég hef aldrei áður komið á kolluna og hlakka rosalega til.

Við förum með snjótroðara áleiðis eða jafnvel alla leið en ég fæ vonandi far með mínum kæra á snjósleðanum. Jódís Jana ætlar að koma með líka.

Þetta verður svona fjalla helgi hjá mér þar sem ætlunin er að fara á Kaldbak í fyrramálið með kennarahópnum og sprella svo eitthvað meira fram eftir degi.

Set inn myndir síðar í dag.

Í bili.......


"Nú hafa forsjárhyggjuöflin og valdboðið náð yfirhendinni,"

Já það er grafalvarlegt mál ef þessi lög verða að veruleika óbreytt. Það er gott að Gunnar Birgisson áttar sig á að hans fólk vill vægast sagt taka völdin í landinu -  með handafli ef ekki vill betur í gegnum sveitastjórnirnar með því að leggja niður byggingarnefndir en það eru jafnan þær nefndir sem hafa einna stærst áhrif í hverju byggðalagi og fólkið sem þar býr vill hafa áhrif á.
mbl.is Valdboðið náði yfirhendinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíðamót í sól og hliðarvindi

Það er ekki verið að plata nokkurn mann þegar sagt er að hér sé fallegt veður. Hins vegar verð ég að segja að eftir tæpa tvo tíma með frekar lítilli hreyfingu var mér orðið ansi kalt.

Jódís Jana var að keppa á Sparisjóðsmótinu í göngu og stóð sig að sjálfsögðu vel. Skvísan búin að vera með einhverja lumbru yfir helgina auk þess sem hún æfir í algeru lágmarki.

Hún er búin að ákveða að kenna mömmu sinni á gönguskíði og vill helst byrja strax í dag. Þar sem við foreldrarnir erum ákveðin í því að hún stundi einhverja hreyfingu - en hún ekki eins ákveðin -  þá verður maður líklega að drífa sig með henni og njóta góðrar samveru og um leið hreyfingar.

Nú er bara að setja sig í stellingar fyrir Man. Utd. leikinn og síðan er matarboð í beinu framhaldi af því. Maður verður að kvitta út umburðarlyndi fjölskyldumeðlima sem hafa stutt mig í gegnum námið undanfarin ár og ekki hægt að gera minna en að gefa fólkinu eitthvað gott að borða.

Í bili......


Samfylkingin svíkur kjósendur sína og Björn Bjarna í Útópíu landi

Það getur ekki verið góð líðan sem þeir sem kusu Samfylkinguna við síðustu alþingiskosningar upplifa nú þegar rétt andlit hafa verið sýnd og við vitum hvað koma skal.

Hvet ykkur til að hlusta á þennan pistil Helga Hjörvars sem segir allt sem segja þarf um kosningaloforð Samfó.

Auðmenn - misskipting, lækkun tolla, bæta lífskjörin, verðtrygging afnumin, FAGRA ÍSLAND honum var orðið ljóst að við nálguðumst umhverfismál á rangan hátt... grænir skattar, hætta að menga...... hvað er að þessu liði. http://webis.hexia.net/hjorvar/video/video2.html

Síðan má lesa "áhugaverða" grein í dag í Blaðinu "Best að menga á Íslandi"

Nú svo er það Björn Bjarnason og löggæslumálin. Maðurinn hlýtur að verða settur í sóttkvi um leið og Alþingi fer í sumarfrí.

Maður veltir fyrir sér hvort æskilegt sé að áliti ráðherrans að ná sem minnstum árangri. Alla vega þá hefur Jóhann R. og hans starfsfólk á Keflavíkurflugvelli náð ótrúlegum árangri í að upplýsa fíkniefnamál og að góma afbrotamenn - en hvað Bjössi vill bara helst losna við hann - líklega vegna þess að hann nær of góðum árangri.

Það er engan veginn eðlilegt að fækkun sé í starfsliði efnahagsbrotadeild lögreglunnar en embætti ríkislögreglustjóra bólgnar út - ojbara.

Sérsveitin verður feitari og pattaralegri með hverjum deginum og kostnaðurinn samkvæmt þvi en það sem viðkemur okkur borgurunum dags daglega - það má bara skera það niður. Hverfaþjónusta lögreglunnar og forvarnir sem því fylgja - í ruslið með slíka forvarnavinnu við notum bara sérsveitina á málið þegar það er orðið nógu stórt og afbrotum fjölgar.

Fyrir okkur - fólkið á gólfinu - þá er virkar þetta þannig að verið er að búa til stöður fyrir góðvini og áhugasvið ráðherrans en ekki það sem þjónar hagsmunum heildarinnar.


Akureyri, blómlegt samfélag á landsbyggðinni án stóriðju

Hér er ályktun sem samþykkt var á laugardagsfundi stjórnar Vinstri grænna á Akureyri. 

Stóriðjustefnan er á fullri siglingu, drifin áfram meðal annars af ráðherrum Samfylkingarinnar. Frávísun umhverfisráðherra á kæru Landverndar undirstrikar kjarkleysi ráðherrans, sem hafði næg rök og lagaheimildir til að láta náttúruna njóta vafans og efna þannig loforð sín við kjósendur. Stjórnmál eiga að snúast um stefnumótun en ekki hagsmunagæslu kerfisins. Þar hafði umhverfisráðherra tækifæri til að standa við stóru orðin, setja náttúruvernd í forgang. Með álveri í Helguvík er ekki aðeins verið að stefna umhverfinu í voða, heldur líka efnahag þjóðarinnar sem nú berst við verðbólgu og himinháa vexti, afleiðingar þenslu af völdum stóriðjuframkvæmda undanfarinna ára.

Til viðbótar eru í undirbúningi álver á Bakka og í Þorlákshöfn og vægast sagt langsóttar hugmyndir uppi um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, sem allt ýtir undir væntingar og verðbólgu. Þannig er þjóðinni haldið í heljargreipum á meðan engin skilaboð koma frá stjórnvöldum. Það er skaðlegt fyrir byggðirnar sjálfar að vera í stöðugu óvissuástandi um framtíð atvinnumála sinna. Slíkt ástand drepur niður frumkvæði heimamanna. Vísbendingar eru nú um að álversframkvæmdir fyrir austan hafi því miður ekki skilað Austfirðingum þeim viðsnúningi í byggðaþróun sem lofað var á sínum tíma.

Vinstri-græn leggja áherslu á að styrkja innviði samfélagsins á hverjum stað, eins og gert hefur verið hér á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu, meðal annars með framúrskarandi heilsugæslu og öflugu skólastarfi. Þá er sérstaklega ánægjulegt hvernig tekist hefur að styrkja samfélagið með gjaldfrjálsum almenningssamgöngum. Enginn vafi leikur á því að blómlegt atvinnu- og menningarlíf á Akureyrarsvæðinu á rætur að rekja til þess að hlúð hefur verið að þessum grunnstoðum samfélagsins. Reynsla Eyfirðinga sýnir að byggðarlög á landsbyggðinni eru betur sett án stóriðju og þeirrar röskunar sem slíkri atvinnuuppbyggingu fylgir óhjákvæmilega.

Kominn er tími til að stórkarlalegar skammtímalausnir víki fyrir stjórnmálum þar sem hugsað er til lengri tíma með því að byggja upp fjölbreytt og blómleg samfélög á landsbyggðinni með sjálfbærni og félagslegt jafnrétti og stöðugleika að leiðarljósi.


Steingrímur Joð - Flottasti formaðurinn

Má til með að setja inn myndabandið sem mikið er talað um enda frábært.


Skemmtilegt fólk

Rauk til Akureyrar í hádeginu á föstudaginn og var í starfsþjálfun eftir hádegi. Um klukkan fjögur hitti ég Helgu Erlings gjaldkera VG-kjördæmisráðs og fékk hjá henni reikningana þar sem hún var að fara til Reykjavíkur.

Átti notalega stund hjá Pálínu og Boga á föstudagskvöldið og vaknaði snemma á laugardagsmorgun og sá litla kút rétt áður en ég rauk af stað á fund.

Fyrst var stjórnarfundur hjá VG og var frábært að fá þau öll norður enda áætlaður góður tími til að spjalla. Klukkan 13:30 var svo komið að stjórnarfundi hjá kjördæmisráði sem ég boðaði til þar sem mér fannst heppilegt að nýta daginn enda formaðurinn á staðnum og mikið upptekinn en við reynum að hafa hann og Þuríði með á stjórnarfundum ef það er nokkur kostur. Við erum svo heppin að vera búin að fá starfsmann sem um leið er aðstoðarmaður Þuríðar. Gott að hafa hjálparhönd við undirbúning funda sem hefur góða tengingu við svæðisformenn í Norðausturkjördæmi.

Þessum fundi lauk kl. 15 en þá hófst fyrsti fundur í fundarröð VG sem hefur yfirskriftina Tökumst á við efnahagsvandann - tillögur Vinstri grænna.

Mjög góð mæting var og flottur fundur. Steingrímur og Svandís fóru yfir helstu aðgerðir sem VG leggja til og síðan voru fyrirspurnir úr sal.

Næstu fundir eru í dag á Neskaupsstað og í Grindavík. Fylgist með á www.vg.is

Eftir fundinn fórum við á Bláu könnuna og áttum góða stund saman þar til sunnan fólkið fór í flug til borgarinnar.

Dagurinn endaði svo á því að minn kæri kom til Akureyrar og við borðuðum frábæran mat og áttu fína kvöldstund hjá Þurý og Bjössa.

Í dag er það bókhaldsvinna þar sem vaskdagur er á morgun og því ekki seinna vænna að hespa því af.

Í bili.......


Snillingar

Unga fólkið okkar í Vinstri grænum er alveg frábært og alveg á tánum í þjóðfélagsmálunum. Cool

Það er ekki ofsögum sagt að þessi ríkisstjórn er mjög upptekin af flottræfilshætti og ætti að skammast sín fyrir svona bruðl.


Alveg að taka enda

Nú er ég búin að vera í starfsnáminu við HA þessa vikuna, nema í dag þá kenndi ég krökkunum mínum í 7. - 8. bekk - reyndi það minnsta kosti. Nú á ég bara þrjá og hálfan dag eftir og klára um miðjan apríl. Jibbí.Smile

Er reyndar búin að læra helling hjá henni Solveigu í náms- og starfsráðgjöfinni og vona að ég fái vinnu við þetta í nánustu framtíð.

En er á leið á Akureyri aftur þar sem við stöllur, Adda, Heiða, Þurý og ég ætlum að vera í bústað í Kjarnaskógi og reyna að klára þau tvö verkefni sem eftir eru.Whistling 

Við ætlum að hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

Í dag er:

Alþjóðlegur dagur brjálæðislega glæsilegra og geysilega gáfaðra kvenna þar sem boðorðið er:Lífið á ekki að vera rólyndis rölt að grafarbakkanum með það að markmiði að komast örugg á áfangastað í huggulegum og vel varðveittum líkama. Miklu heldur á það að vera blússandi gleðibuna og ískrandi yndisflug með súkkulaði í annarri og vínglas í hinni í fullnýttum og gatslitnum skrokki öskrandi.

Fjárans fjör sem þetta er!

Í bili..........


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband