Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
Sumarþingi að ljúka
27.8.2009 | 15:48
Nú er sumarþingi loks að ljúka enda sumarið á enda runnið og hinir fallegu haustlitir að birtast okkur í landslaginu.
Ég get ekki annað sagt en að þetta hafi verið bæði strembinn og lærdómsríkur tími hjá mér þetta sumarið hér á Alþingi. Stærstu mál þjóðarinnar, alla vega síðari tíma, hafa verið til umfjöllunar og líklega einnig þau umdeildustu.
Það er ljóst að framundan er áframhaldandi mikil vinna hjá nefndum Alþingis og þá sérstaklega fjárlaganefnd. Fjárlög næsta árs verða strembin og ljóst að það verður hlutverk vinstristjórnar að skera niður og hækka skatta þar sem búið var að keyra hér allt á kaf í sýndarmennskubrjálæði.
En eins og einhvers staðar er skrifað þá birta öll él upp um síðir. Mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að halda í vonina og leggjast á eitt við að finna nýjar leiðiðr sem byggja á hugviti okkar og þeim krafti sem í þjóðinni býr.
Gömul hugmyndafræði á ekki við og okkar að blása lífi í nýjar og góðar hugmyndir telja kjark í hvort annað og leggja rækt við unga fólkið okkar með því að búa þeim aðstöðu sem gerir þeim kleift að fylgja hugmyndum sínum til enda.
Ég tel ekki að við séum að endurreisa heldur að byggja nýtt samfélag ég vil heldur ekki endurreisa það sem svo illa lukkaðist.
Nýtt samfélag á nýjum grunni leiðir okkur til betra þjóðfélags þar sem við höfum jafnrétti og bræðralag að leiðarljósi.
Í bili.........
Fjárlaganefnd
15.8.2009 | 03:17
Þessi tími minn á alþingi hefur um margt verið ólíkur því sem ég hef áður reynt á hinu pólitíska sviði.
Fundir hafa staðið lengi og ógrynni af upplýsingum sem maður hefur þurft að melta. Margir gestir og ótal margt sem lærst hefur.
Málið umdeilda -Icesave hefur tekið mikið á og er ég ánægð með að frumniðurstaða hefur náðst í svo mikilli sátt meðal þingflokka sem raun ber vitni. Nú hefst hin þinglega meðferð og fær vonandi farsælan endi von bráðar.
En skemmtilegast hefur þó verið að ég hef eignast nýja vini þar sem nálægðin er óneitanlega mikil við nefndarfólk.
Við Oddný, samfylkingarkona, höfum mikið rætt karlapólitík og kem ég að því einhvern tímann síðar.
Í bili.......
Ályktun gegn aðflugsæfingum Nató á Akureyrarflugvelli
4.8.2009 | 21:15
Algerlega ónauðsynlegt og engan veginn ásættanlegt þetta eilífa hernaðarbrölt.
Friðarsinnar á Norðurlandi ályktuðu um komu bandaríska hersins til Akureyrar og fylgir ályktunin hér.
Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi lýsa furðu sinni á því að utanríkisráðherra þjóðarinnar skuli heimila aðflugsæfingar orrustuflugvéla Atlantshafsbandalagsins og vörslu hergagna þess á Akureyrarflugvelli undir yfirskini loftrýmiseftirlits.
Samtökin krefjast þess að herafli bandalagsins yfirgefi Akureyri án tafar og að utanríkisráðherra biðji þjóðina afsökunar á þeirri fylgisspekt hans við Bandaríkjaher sem hér birtist. Slíkur stuðningur við núverandi útþenslustefnu Bandaríkjanna og NATO í norðurhöfum sem öðrum heimshlutum þjónar ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar og er neyðarleg uppákoma fyrir sitjandi vinstri stjórn.