Ég og Solskjer - sannfæring
23.7.2009 | 13:52
Á síðu 16 í Fréttablaðinu í dag er þetta að finna:
Súpersöbb
Ole Gunnar Solskjer er öllum að góðu kunnur. Hann fékk fljótt viðurnefnið súpersöbb, þar sem hann lagði það í vana sinn að skora þegar hann kom inn á hjá Manchester United.
Nú hefur nýr súpersöbb litið dagsins ljós, Bjarkey Gunnarsdóttir. Í síðustu viku samþykkti hún ESB-tillögu ríkisstjórnarinnar, í fjarveru Björgvins Vals Leifssonar, (á væntalega að vera Björns Vals Gíslasonar) og í gær nefndarálit í fjarveru Lilju Mósesdóttur.
Það er ekki leiðum að líkjast þegar talið kemur að svo góðum fótboltamanni en hitt er svo annað mál og öllu merkilegra en það er að sumt telst sannfæring en annað ekki.
Mín sannfæring t.d. í atkvæðagreiðslu ESB var mjög eindregin og rökstuddi ég hana með ágætum að ég tel. Það er ekki verri sannfæring en hjá þeim sem greiddu atkvæði gegn tillögunni. En það hefur borið töluvert á því í umræðum um hin umdeildu mál sem Alþingi hefur verið að fjalla um og er að gera. Má jafnvel tala um að heilt yfir tali þingmenn þá gegn sannfæringu sinni eða með þegar hópurinn er sammála nú eða sammála um að vera ósammála einhverju? Ef einhverjir skera sig ekki úr í umræðunni þá hvað?
Nú er látið svo að ég sé mjög auðsveip og geri eins flokksforustan ætlast til en ég held að þeir sem þekkja mig viti betur en svo. Ég hef haft ákveðnar skoðanir á lífinu og tilverunni hingað til og ekki látið beygja mig í duftið. Hins vegar tel ég það mjög mikilvægt að hafa í huga að það sem mér finnst er ekki endilega alltaf best fyrir fjöldann og ég get tekið rökum ef því er að skipta en að segja að ég sé varamaður á þingi sem hafi ekki sannfæringu er í besta falli hlægilegt og lýsandi fyrir þá sem ekki hafa önnur rök fram að færa gagnvart mér.
Í bili.....
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:20 | Facebook
Athugasemdir
Látum vera með ESB atkvæðagreiðsluna en hvernig gastu sóma þíns vegna skrifað undir meirihluta álit Efnahags og Skattanefndar án þess að sitja einn einast fund? Þingmennska snýst ekki um uppáskriftir heldur upplýstar ákvarðanir "frjálsra" fulltrúa þjóðarinnar. Vinsamlegast hættið að setja flokkshag ofar þjóðarhag :(
Jóhannes Laxdal (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.