Ósannindi og villandi framsetning í auglýsingu
21.4.2009 | 22:29
Í auglýsingu Áhugafólks um endurreisn Íslands eru sett fram fjórar fullyrðingar í fjórum liðum um skattatillögur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.
Hvað Vinstri græn varðar eru tveir liðir af fjórum hrein ósannindi en hinir tveir afskaplega villandi framsetning sem er augljóslega ætlað að valda misskilningi.
Hvergi hafa verið settar fram tillögur af hálfu VG um 2% flatan eignaskatt eins og fullyrt er í auglýsingunni, svo það eru hrein ósannindi. Það hefur heldur aldrei verið rætt um að hækka fyrirtækjaskatta og er sú fullyrðing hreinn uppspuni frá rótum.
Hvað hátekjuskattinn varðar er framsetningin í auglýsingunni mjög villandi þar sem verið er að bera saman laun á mánaðargrundvelli og skatta á ársgrundvelli þannig virðist álagið sem við viljum leggja á hæstu laun vera 12 sinnum meira en raunin er, t.d. 36.000 kr. en ekki 3.000 kr. á 600.000 kr. mánaðarlaun. Rétt er að taka fram að 92,5% skattgreiðenda myndu ekki borga þetta álag.
Svipaða sögu er að segja af framsetningunni á tillögum VG um fjármagnstekjuskatt. Þar höfum við lagt til að sett yrði skattleysismörk við 120.000 kr. á ári til að hlífa smásparendum við fjármagnstekjuskatti en hækka á móti skatthlutfallið úr 10% í 14%, þ.e.a.s um 4%. Þetta er kallað 40% hækkun fjármagnstekjuskatts í auglýsingunni, sem er klárlega ætlað að valda misskilningi á okkar tillögum.
En er rétt að taka fram að rúm 90% einstaklinga þyrfti ekki að borga neinn fjármagnstekjuskatt samkvæmt okkar tillögum, öfugt við það sem nú er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.