Álag á há laun
29.3.2009 | 11:03
Tillögur VG um álag á há laun
Tillögur Vinstri grænna ganga út á að á tekjur yfir 500.000 kr. á mánuði (1.000.000 hjá hjónum) leggist 3% álag (hátekjuskattur) en á tekjur yfir 700.000 kr. (1.400.000 hjá hjónum) leggist 5% álag í viðbót (8% samtals). Rétt er að taka fram að álagið myndi aðeins leggjast á þær tekjur sem eru yfir þessum mörkum en leggjast ekki á allar tekjur viðkomandi einstaklings. Allt tal um skattagildrur er því á misskilningi byggt.
Hvað þýðir þetta í krónum talið? Dæmi. Einstaklingur með mánaðartekjur 500.000 kr. eða minna borgar ekkert aukalega samkvæmt þessum tillögum. (Meðallaun Íslendinga eru 368.000 kr. á mánuði svo að meðal Íslendingur myndi ekki borga krónu í hátekjuskatt.) Sá sem er með 600.000 kr. myndi borga 3.000 aukalega (3% af 100.000), sá sem er með 700.000 kr. myndi borga 6.000 kr. aukalega (3% af 200.000). Sá sem er með mánaðartekjur upp á 800.000 myndi borga 14.000 (3% af 200.000 plús 8% af 100.000) en sá sem er með 900.000 kr. á mánuði 22.000 aukalega (3% af 200.000 plús 8% af 200.000). Og svo framvegis.
Hversu mikið kæmi í hlut ríkisins? Sé miðað við laun í september 2008 en þau lækkuð um 4% til að leiðrétta fyrir fyrirsjáanlega launalækkun kæmu 3,4 milljarðar í hlut ríkisins á ári. Sú tala yrði líklega eitthvað lægri nú en stærðargráðan á tekjum ríkisins af svona álagi er um 3 milljarðar.
Hversu margir myndu borga álagið? Miðað við sömu tölur og að ofan (laun í september 2008 lækkuð um 4%) myndu 17.400 einstaklingar borga 3%-álagið. Það eru um 7,5% skattgreiðenda. Með öðrum orðum væri vel yfir 90% skattgreiðenda hlíft við nokkru álagi. 8.200 manns eða 3,5% skattgreiðenda myndi borga 8% álagið. Athugið að ef laun lækka almennt fækkar þeim sem borga hátekjuálagið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir gott innlegg Bjarkey. Mér finnst að skipti máli að fólk með lágar tekjur sé ekki að greiða skatt. Skattmörk séu miðuð við framfærslu mörk en það er ekki svo í dag. Síðan sé skilgreint hvað sé góð afkoma og hátekjumark miðað við það og fari stigvaxandi eins og þú leggur til.
Trausti Traustason (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 11:43
P.S. Mig langar að rannsaka nafnið 'Bjarkey'. Ef þú gætir sagt mér eitthvað um það væri það velkomið.
Trausti Traustason, 29.3.2009 kl. 11:44
Það væri vel hægt að sætta sig við skattahækkanir ef maður vissi ekki tiln hvers kommablækurnar munu nota þessa peninga. Þeir munu fara í tóma vitleysu og óráðsíu eins og komma er háttur. Þið hafið aldrei kunnað að fara með peninga. Sjálfsstæðisflokknum er einum treystandi til þess að annast fjármál þjóðarinnar. Viðurkenndu það.
Baldur Hermannsson, 1.4.2009 kl. 13:42
Já það er líklega rétt hjá þér þetta með Sjallana enda sérðu hvar við erum stödd í dag þjóðfélagið á hvínandi kúpunni og allt eins og vera ber að hætti Sjálfstæðismanna.
Bjarkey (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 20:58
Kommon Bjarkey, hefur þú aldrei runnið til í hálku? Það hendir jafnvel bestu bílstjóra að renna til á ísi lögðu stræti, ekki satt?
Baldur Hermannsson, 1.4.2009 kl. 21:05
Já en með 17 ára hálkuvarnarreynslu kommon.
Bjarkey (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 23:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.