Hvern fjandann er fólkið að meina?

Starfs míns vegna neyðist ég til að lesa kreppufréttir daginn út og daginn inn. Auðvitað finnst mér þetta alveg hræðilegt og allt það en það er eitt sem ég skil ekki. Flestir tala um að nú sé kominn tími til að sinna börnunum sínum, fjölskyldu og vinum. Hvað í andskotanum heldur þetta fólk að íslenskur almenningur hafi haft fyrir stafni? Skyldi það ætla að við höfum verið viti okkar fjær og stigið trylltan dans í kringum gullkálfinn á meðan börnin okkar, vinir og ættingjar lágu óbættir hjá garði?  Umkomulausir og einmana þar sem enginn hafði nokkurn tíma fyrir þá?  

Ég sjálf og allir sem ég þekki hafa nú verið uppteknir af því að vinna fyrir sér, að vísu ekki að vinna fyrir bankastjóralaunum heldur bara svona til að eiga fyrir salti í grautinn. Þessi sauðsvarti almúgi sem ég þekki hefur bara hugsað vel um börnin sín, takk fyrir. Hringt í vini og ættingja og heimsótt þá jafnvel ef sérlega vel hefur legið á fólki.
 
Mér finnst þessi umræða gjörsamlega fáránleg. Það er verið að slá ryki í augun á okkur með því að við getum nú gert svo margt gott og nytsamlegt þótt búið sé að ræna okkur aleigunni og marga starfinu. Nú þakkar maður fyrir það helst að hafa þó vinnu. Það er verið að koma inn hjá okkur samviskubiti, að við höfum nú ekki hugsað sem best um þá sem næst okkur standa. Nú þegar við erum orðin atvinnulaus og blönk getum við allavega gefið okkur tíma að sinna börnunum í stað þess að æsa okkur yfir því að það sé búið að svipta okkur aleigunni og atvinnunni. Við eigum nefnilega ekkert að vera að velta okkur upp úr því hver sé ástæðan fyrir þessum hremmingum, við erum hvort eð er svo vitlaus að við munum aldrei geta skilið að þetta var eiginlega alveg óvart og mönnum í útlöndum að kenna. Hvað er svo sem að marka einhverja aumingja sem eiga ekki einu sinni part í þyrlu?

Ég fyrir mína parta ætla að halda áfram að sinna börnunum mínum, ættingjum og vinum. En ég ætla líka að vera reið, alveg fjúkandi vond, og ekki hætta fyrr en ég hef fengið svör við því hvernig í andskotanum allt gat farið hér til helvítis á einni nóttu.
 
Afsakið orðbragðið.
Kona


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband