Mikið klóra Framsókn og Sjálfstæðismenn
25.11.2006 | 13:41
Var að renna yfir vefmiðlana og blöð síðustu viku og kom ýmislegt fram sem mér þótti áhugavert.
Það er ekki ofsögum sagt að Framsóknarmenn reynda mikið þessa dagana að bera blak af gjörðum sínum í ríkisstjórn og vonast væntanlega til þess að kjósendur gleymi nú bara öllu þessu klúðri sem þeir hafa framkvæmt síðustu árin.
Jón játar mistök vegna innrásarinnar á Írak en það var að sjálfsögðu ekki Framsókn að kenna heldur voru upplýsingarnar rangar. Miðstjórnarfundurinn klappaði heil ósköp fyrir sínum manni - í hvaða heimi lifir þetta fólk ég bara spyr.
Nú svo eru það fjölskyldumálin sem verða efst á baugi hjá Framsókn - bíddu voru þau það ekki fyrir síðustu kosningar og þar áður ..... hvað þarf Framsóknarflokkurinn langan tíma til að gera það sem þeir lofa fyrir hverjar kosningar?
Hann segir að stefna okkar Vinstri grænna sé hömlulaust afturhald - Jón gæti átt við þá stefnu Vinstri grænna að vilja meiri jöfnuð á meðal fólksins í landinu og fjölskylduvæna stefnu okkar sem vita ekki hvað er hjá Framsókn alla vega ekki miðað við öll árin sem þeir hafa haft til framkvæmda. Því félagshyggja Famsóknar er þjóðhyggja en ekki sósíalísk.
Nú svo erum við með upphlaup og öfgar þegar kemur að verndun auðlindanna en Framsókn er með ábyrga og varkára stefnu í umhverfismálum. Ég get svarið það ég held að það sé bara ekki í lagi í kollinum á formanni Framsóknar að láta slíkt útúr sér.
Það eru fleiri ráðherrar Framsóknar sem hafa beðist afsökunar og skemmst að minnast þess að Valgerður utanríkisráðherra reyndi að bera blak af sínum störfum eða ekki störfum.
Það er nú líka dásamlegt að fylgjast með Sjálfstæðismönnum þessa dagana og forsætisráðherra og menntamálaráðerra sem lofa Árna nokkurn Johnsen og tilkynnir formlega stuðning stjórnar flokksins við hann. Allir eru nú komnir í mínus vegna þess að einhverjir segja sig úr flokknum og óánægjuraddir sem ætla ekki að kjósa flokkin vegna þess að hann er með. Allir hlaupa nú upp til handa og fóta og álykta um að ekki sé nú gott að hafa Árna með.
Athyglisvert var líka að lesa svör frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi í Fréttablaðinu minnir mig um viðhorf þeirra til hinna ýmsu umdeildu mála í kjördæminu og víðar. Flestir algerlega ósammála því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera þrátt fyrir að einhverjir hafi nú meira að segja setið á Alþingi á tímabilinu og varið þessar sömu umdeildu aðgerðir.
Síðan eru þessir flokkar að reyna að beina athyglinni frá sínum innanbúðarvandamálum með því að tala um sundrungu innan stjórnarandstöðuflokkana. Einhvern tímann var sagt "maður líttu þér nær".
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.