Silfur Egils og umræður dagsins

Ég hlustaði á Silfur Egils, sem ég geri reyndar sjaldan, finnst yfirleitt allir tala hver í kapp við annan og oft lítið heyrast hvað sagt er. En í dag voru gestir Egils að ræða um afstöðu Frjálslyndra til útlendinga og frumvarps sem Magnús greiddi atkvæði gegn í  apríl síðast liðunum. Þarna voru Atli Gíslason,  Jón Magnússon, nýr liðsmaður Frjálslyndra og Sigurjón, félagi minn var þarna líka ásamt Eiríki Bergmann, stjórnmálafræðingi. Ég kíkti á heimasíðuna Sigurjóns í kvöld og sé ég að hann telur sig vera að leiðrétta Atla eftir viðtalið í dag.  

Í pólitík eru orð gjarnan toguð og teygð svo best falli að því sem hentar. Það sem mér finnst málið í þessu er að þegar Magnús greiddi atkvæði gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar í apríl þá var hann að mæla með því að flæðið yrði frjálst. Hann getur ekki neitað því þar sem hann sagði og nú vitna ég í heimasíðu Sigurjóns þar sem hann hefur þetta eftir félaga sínum:

 

„Ég hef hins vegar ekki lagt fram neina breytingartillögu eða nefndarálit. Ég tel að það sé algerlega tilgangslaust. Ég sé alveg hvert stefnir í þessu máli, það væri bara tímaeyðsla.“

 

Þeir sem eru í pólitík vita alveg að þegar maður er í minnihluta er það oftast þannig að þær tillögur sem lagðar eru fram eru hundsaðar af meirihlutanum. Það firrir okkur sem minni hlutann skipum því ekki að leggja til einhverjar leiðir til úrbóta sem við teljum að séum ásættanlegar. Það er auðvelt að klóra sig út úr málum með því að leggja ekkert formlegt til og láta einungis orð í pontu duga. En auðvitað þarf að koma með formlegar tillögur.  

Ég hef áhyggjur af því viðhorfi sem Magnús telur sig ekki halda á lofti en ég kýs að líta svo á að hann geri það og félagar hans Sigurjón og Jón.

Magnús sagði í ræðu sinni á Alþingi m.a.

 „Það er einnig alveg ljóst að frjálst flæði erlends vinnuafls mun stórskaða það markaðslaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum.“ og síðar þetta;„Ég segi þetta fyrst og fremst vegna þess að ég hef áhyggjur af íslenskum atvinnumarkaði og þróuninni þar. Ég tel að ef hingað flæði útlendingar til að leita sér að vinnu, frá Póllandi, Tékklandi, Ungverjalandi, Slóveníu, Slóvakíu, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, gæti það valdið okkur Íslendingum töluvert miklum vandræðum. “http://www.althingi.is/raeda/132/rad20060421T184323.html 

Að tiltaka þessi lönd lýsir yfir ákveðum fordómum bara að því að þau eru að koma ný inn á atvinnumarkaðinn. Hann líkir þessu fólki síðar í umræðunni við óvopnaðan her. Við teljum að Íslendingar geti farið til allra landa og unnið þar og búið án þess að skaði sé af. Hvað ef þúsundir Svía eða Norðmanna hefðu komið til landsins hefði það haft önnur áhrif bara af því þeir máttu það áður? Við Íslendingar flykkjumst til Norðurlandanna eins og margar aðrar þjóðir og hirðum örugglega vinnu af einhverjum þar í landi.

Jón ráðherra félagsmála svaraði Magnúsi í apríl: félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar): Virðulegi forseti. Svarið við þessu er mjög einfalt. Það þarf að fresta þessu máli með lögum. Ef ekkert er að gert verður frjáls för vinnuafls opin 1. maí. Við erum bundin samkvæmt samningum til að opna þá skilyrðislaust. Lagabreytingin sem hér er um að ræða er sú að skrá vinnuaflið og gæta þess að ráðningarsamningar séu haldnir. Ef við breytum því ekki með lögum fyrir 1. maí þá opnast þetta einfaldlega og án nokkurrar skráningar. Þess vegna er málið komið hér inn núna.

http://www.althingi.is/raeda/132/rad20060421T184520.html

Ræða sú sem Atli Gíslason flutti er afar góð enda orðvar maður sem hefur unnið mikið að mannréttindarmálum. Hún endar á þessum orðum:

Það þarf að nota tímann og aðlaga okkar þjóðfélag að þeirri staðreynd að við erum fjölmenningarþjóðfélag. Skora á ykkur að lesa hana alla. http://www.althingi.is/raeda/132/rad20060428T130412.html

 

Mikið er talað um að það sé þessu fólki að kenna að launin eru lág þar sem það sé tilbúið að vinna á strípuðum töxtum en Íslendingar ekki. Launataxtar snúast um efnahagsmál og hverjir stjórna þeim Sjálfstæðimenn og Framsókn og ef að verkamaðurinn æmtir um hærri grunnlaun þá ætlar þjóðfélagið um koll að keyra því þjóðarbúið þolir það ekki og ríkisstjórnin skýlir sér á bak við það.

Allt þetta fólk hefði getað komið í gegnum vinnumiðlanir en þá hefði atvinnurekandinn fengið leyfið en ekki einstaklingurinn. Vistarbönd nútímans. Ég myndi ekki vilja eiga allt mitt undir einhverjum atvinnurekanda þ.e. hvort ég gæti yfirhöfuð verið í landinu eða ekki. Það eykur líka á lélegri framkomu, aðbúnaði og kjörum eins og raunin hefur orðið.

Sökin er ekki þeirra sem koma til landsins til lengri eða skemmri tíma og vilja brauðfæða sína fjölskyldu. Það er ríkisstjórn landsins sem gat og getur breytt flestu því sem að þessu máli snýr og ykkar kjósenda að meta það hvort henni tókst það.

Svo má ég til með að vitna til Ögmundar félaga míns í þessum sömu umræðum í vor.

 Ögmundur Jónasson: En við leggjum til að opnun vinnumarkaðar gagnvart hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins verði frestað um hálft ár eða fram til næstu áramóta þar til gengið hefur endanlega verið frá reglum sem við teljum nauðsynlegt að liggi fyrir áður en af þessu verður.Hvað er í húfi? Í raun má segja að íslenska vinnumarkaðsmódelið sé í húfi. Hér er það fest í landslög að kjarasamningar, lágmarkssamningar sem verkalýðsfélögin gera um kjör sinna félagsmanna, skuli gilda sem lágmark á vinnumarkaði.Síðan er það hitt sem er í húfi, þ.e. að hér verði ekki margar þjóðir í einu landi þannig að aðkomumönnum til landsins verði gert að búa við einhver allt önnur launakjör og réttindi en Íslendingum. Þetta þýðir að eftirlit þarf með því og aðhald gagnvart því að þessi lög og þetta vinnumódel sem við búum við haldi.Það er rauður þráður í greinargerðum verkalýðsfélaganna að þau segja að stóra spurningin sé ekki — það á alla vega um ASÍ og BSRB — hvenær vinnumarkaðurinn opnist heldur hvernig og á hvaða forsendum þetta gerist. Menn hafa af því nokkrar áhyggjur að við séum ekki tilbúin með nægilega öruggt reglugerðaverk hvað þetta snertir.Nú er það svo að ef ekkert verður að gert, ef þessi lög eða samsvarandi verða ekki lögfest, þá opnast vinnumarkaðurinn að fullu. Þegar hin nýju ríki komu inn í Evrópusambandið árið 2004 var ákveðið að veita heimildir til að takmarka för launafólks til ársins 2011. Við höfum í sjálfu sér heimild til að nýta okkur slíkar takmarkanir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar valið þann kost að fara millileið í þessu máli, falla frá skilyrðum, falla frá takmörkunum, en jafnframt setja ákveðnar reglur, binda þær í lög og skuldbinda sig jafnframt til að setja frekari reglur um eftirlit sem unnið skal að í sumar til þess að ná fram þeim markmiðum sem verkalýðsfélögin hafa sett á oddinn. En ég endurtek að ef ekkert verður að gert þá falla þessar heimildir alveg brott og vinnumarkaðurinn opnast. Væri það góður kostur? Já, það finnst mörgum.

http://www.althingi.is/raeda/132/rad20060428T112013.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband