Gleðilegan 1. maí - eða hvað?

Veit ekki hvort hægt er að tala um gleðilegan dag þegar verkamenn, hjúkrunarfræðingar og kennarar ásamt svo mörgum öðrum eru enn að berjast fyrir mannsæmandi launum þrátt fyrir áratuga langa baráttu.

Óðaverðbólga, nú þegar búið að éta upp þá samninga sem gerðir hafa verið, og efnahagsstjórnin í molum og ekkert í kortunum sem gefur til kynna að það breytist í náinniframtíð.

Ég vona líka að kennarar hlaupi ekki til og skrifi undir án þess að hugsa svolítið um samninginn. Eitt og annað hefur verið reynt til að hífa upp launin, viðbótarpottur, 6500 kr. með hverju stöðugildi osfrv. Nú eru TV einingarnar komnar inn í samninginn og þurfa skólastjórnendur að rökstyðja fyrir sveitarstjórn ef þeir kjósa að nýta þá og borga sínum kennurum ofan á grunnlaunin.

Með þessum samningum erum við líka að elta t.d. leikskólakennara, sem náðu sem betur fer þokkalegum áfanga í samningagerðinni síðast, en þeirra samningur er laus að mig minnir í nóvember og þá vonandi ná þeir einhverjum af sínum kröfum fram. En hvað eru sambærileg laun?

En ég verð að segja að kennarastarfið er misjafnt og hef ég kynnst kennslu í framhaldsskóla og háskóla sem nemi og foreldri og fullyrði að álagið í grunnskólanum er mun meira - ekki bara öðruvísi. Samfélagið og foreldarnir fylgjast með hverju fótmáli grunnskólakennarans en þegar börnin eru komin í framhaldsskóla - oft í burtu frá heimahögunum - þá er eftirlit foreldra í lágmarki - oftast. Það er ekki það að kennslan þoli ekki nálaraugað- ekki misskilja mig en fáar stéttir eru undir slíku nálarauga. Miðsstýring er töluverð vegna námsskrár, samræmdra prófa og fleiru þrátt fyrir að ýmsir haldi annað.

En að sama skapi þá hef ég aldrei unnið eins gefandi og skemmtilega vinnu en það kemur að því eins og við sjáum á þenslusvæðum að fólk gefst upp þrátt fyrir að vilja kenna. Við viljum eins og flestir fá laun fyrir álag og menntun okkar.

Ég verð líka að segja að það er jákvætt að skólastjórar, deildarstjórar, kennslufræðingar og sérkennarar semja nú sér en ég harma að náms- og starfsráðgjafar séu ekki í þeim pakka. Nú er alveg ljóst að félagið okkar NS verður að bretta upp ermar og láta til sín taka í launabaráttunni við erum afgangsstærð í þessum samningum. Hér er hægt að reikna út hvað laun grunnskólakennara og náms- og starfsráðgjafa hækka á samningstímabilinu. Hér má sjá samninginn í örstuttu máli.

Í bili..........


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Bjarkey.

Það verður þrautin þyngri að ná einhverju mannsæmandi launahækkunum í þeim aðstðum sem ríkja í samfélaginu í dag. Það þýðir varla að benda á einn sökudólg, margir þættir sem spila inn í. Lánsframboð bankanna var stutt gaman ef ég get orðað það svo.

Launkjör kennara verða þannig að með nýjum samning hugsar maður sig um, hvort eigi að leggja fyrir sig kennslu. Það var þó sem áður var !!

En við sjáum hver framvindan verður.

Helga Dögg (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 13:16

2 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Já það er þetta með TV einingarnar.  Gott að hafa svigrúm í sérverkefni eins og fyrir afmæli, þemavinnu og námsskrárgerð.  En gallinn er sá að þessum einingum fylgja ekki aukapeningar. Já ég held að það sé rétt að kennarar þurfa að skoða þessa samninga vel og sérstaklega með verðbólguna í huga.

Rósa Harðardóttir, 2.5.2008 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband