Hvernig skilgreinum við fíkn?

Tölvufíkn er vaxandi vandamál alls staðar í heiminum bæði hjá börnum og fullorðnum. Við fáum reglulega fréttir af einhverjum sem fremur voðaverk vegna þess að viðkomandi gerir ekki greinarmun á veruleika og óraunveruleika.

Nú er ég tölvukennari og sé það í mínu starfi að krakkar á grunnskólaaldri kunna oft ekki mikið á tölvur en ef þeir eru spurðir um einhverja leiki stendur sjaldan á svörum. Ég hef miklar áhyggjur af því hvað þeir eyða miklum tíma fyrir framan tölvuna í drápsleikjum.

Þeir krakkar sem tölvuleikina stunda mikið eru mun verr staddir félagslega og færni þeirra til samskipta er áberandi verri en þeirra sem lítið gera af því að vera í tölvuleikjum. Offita er líka hluti af þessu þar sem þessir krakkar stunda að jafnaði minni hreyfingu en hinir.

Aukið einelti og margskonar misnotkun á sér stað í gegnum msn og ekkert sem bendir til þess að það sé að breytast.

Tölvur eru eins og annað góðar í hófi og fæst gætum við liklega án þeirra verið í dag. Við foreldrar verðum hins vegar að axla ábyrgð og takmarka tíma barnanna okkar í tölvum og fylgjast með því sem þau eru að fást við hverju sinni.


mbl.is Sonurinn flúði úr heimi fíkniefna í heim tölvuleikja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En núna kemur hin klassíska spurning: Hvort kom hænan eða eggið fyrst?

Margir vilja nefnilega stilla því þannig upp að tölvuleikir, sjónvörp, fíkniefni, óhollur matur o.s.frv. séu að skemma okkur. En er það ekki mannskepnan sjálf sem fær sjálfseyðileggingarhvatir og notar svo ýmis tól eftir að slíkar hvatir hefjast? Það er allavega mín skoðun að við spáum of mikið í hlutföllum og hlutum en ekki nógu mikið í manneskjunni sjálfri og hennar andlegu ástandi (þó það sem betur fer hafi farið batnandi seinustu ár). Það hefur alltaf verið þannig að það er auðveldara að benda á hluti heldur en fólk. Það er mjög algengt að fíkill fari úr einu í annað, t.d. veit ég um einn sem varð háður áfengi eftir að hann sigraðist á spilafíkn.  McDonalds borgari, kókaín, skammbyssa og tölvuleikur gera engum mein ef þau liggja ósnert á borði. 

Sjálfur var ég mikill tölvu- og sjónvarpsfíkill sem unglingur. Hinsvegar hef ég engar efasemdir um það að ég varð andlega veikur fyrst og þessi hegðun var bara einkenni. Einnig trúi ég því að það séu engin sérstök fíkn-gen sem við fæðumst með þó að sumir séu byrjaðir að fullyrða slíkt, ætla allavega að bíða eftir því að slík gen finnist áður en ég sannfærist. Ég held að þetta séu allt andleg vandamál sem þarf að vinna í, sama hvort viðkomandi sé dópisti eða tölvufíkill.

Geiri (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 11:13

2 identicon

Vil bæta smá við...

Það er mín skoðun að foreldrar eigi að vera meira vakandi fyrir andlegu ástandi barna sinna, en hinsvegar er ég einnig sammála því að það eigi að takmarka aðgengi þeirra að hinum rafræna heimi. Hinsvegar verða þeir að passa sig á því að vera ekki of harðir (klukkutími á dag er ekki nóg fyrir unglinga) því það eykur líkurnar á uppreisn, sem meðal annars getur endað í fíkniefnaneyslu. Einnig er ég á móti því að börn fái að hafa tölvu inni í herberginu sínu, finnst lágmark að þau séu komin á framhaldsskólaaldur til þess að mega slíkt. Kompás hefur sannfært mig um það.

Geiri (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 11:17

3 identicon

"Ég sat með honum fyrir framan tölvu og kenndi honum að búa til vefsíður og annað. Hann flúði svo inn í þennan heim í staðinn."

 Já það er hræðilegt þegar fólk sekkur inn hinn grimma og dökka heim vefsíðugerðar...  

Simmi (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 11:23

4 identicon

"Þeir krakkar sem tölvuleikina stunda mikið eru mun verr staddir félagslega og færni þeirra til samskipta er áberandi verri en þeirra sem lítið gera af því að vera í tölvuleikjum."

 Afsakið?  Ég á ekki til orð.

Þetta er eins sú mesta fáviska sem ég hef lesið.  Fyrir utan að koma með engin rök eða heimildir þá skelliru fram þessari ótrúlegri staðhæfingu.

Ég hef spilað tölvuleiki í miklu magni síðan fyrir skólaaldur.  Nær allir mínir vinir, æskuvinir, skólafélagar og fólk sem ég umgenst yfir höfuð, unglingar á aldrinum 16-18, spila tölvuleiki í töluverðu magni og fylgir það svosannarlega ekki sögunni að það fólk eigi félagslega erfiðara en það sem gerir það ekki, þegar þú minnist á það þá er það frekar á hinn veginn.

Vissulega er til fólk sem spilar tölvuleiki í miklu magni sem á við félagslega vandamál að stríða en það er það sem fólk lokar augunum ávallt fyrir.  það fólk á við vandamál að stríða og þau leita til tölvuleikjana og sekkur í þá eins og til dæmis strákurinn í fréttinni.  Fólk virðist vera duglegt við að koma sökinni á tölvuleiki, svipað og kláminu.  Þó fólk sem nauðgi horfi á klám þá gerir það ekki klám slæmt, ekki frekar en eitthvað annað hobbí?  Eru 10 fréttirnar slæmar því að það er fólk sem er þunglynt og á við félagsleg vandræði að stríða?  Fólk finnur ósýnileg tengsl milli allskonar hlutum sem tengjast tölvum vegna gífurlegrar fáfræði.

Þetta blogg fannst mér skína af fáfræði og heimildar-og röklausum staðhæfingum.

Oft virðist fólk aðeins heyra frá neikvæðu hliðunum á málunum.  Ég er sjálfur eins og ég segi mun yfir "optimal" tölvutíma markana samvæmt SAFT, en ég er nú á öðru ári í Menntaskólanum við Hraðbraut, klára nú 18 ára stúdentinn í sumar, spila á tvö hljóðfæri sem ég hef spilað síðan ég var 7 ára og er mjög ríkur á frábæra vini.  Með þessu dæmi er ég *ekki* að reyna að finna óraunveruleg tengsl milli tölvuleikjum eins og virðist vera venjan hjá fólki sem reynir að slá að tölvuleikjum.

Vífill Valdimarsson (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 12:56

5 identicon

Það er akkúrat það sem ég er að spá í andleg heilsa krakka er undir þegar ekki er fylgst með. Í mínu starfi verð ég vör við þessi slöku félagslegu tengsl en þetta er ekki bara það sem mér finnst. Hvað er fíkn og hvernig hún er tilkomin eru skiptar skoðanir á. Bendi á eina grein og svo eru margar rannsóknir sem gerðar hafa verið á tölvufíkn sem hver sem er getur flett upp á netinu.

Missa tökin á lífinu

Afleiðingarnar af slíkri ofnotkun eru flestar neikvæðar og koma fram í vanrækslu af ýmsu tagi. Hjá unglingum er algengt að mæting þeirra í skóla dali og þeir hætti að læra heima. Björn vísar til danskrar rannsóknar sem sýndi að námsárangur hafði versnað hjá 10% unglinga í grunnskóla vegna tölvunotkunar þeirra. Í tilfellum strákanna var það aðallega út af tölvuleikjanotkun. Eldri karlmenn missa líka smám saman tök á lífi sínu. "Þeir mæta illa í vinnu af því að þeim gengur illa að vakna eða þeir eru óútsofnir og illa upplagðir. Ef þeir eru komnir með fjölskyldur kemur fyrir að þeir gleyma að sækja börnin sín eða gleyma að elda fyrr en allt of seint."

Björn segir að smám saman verði æ minna um félagsleg tengsl hjá þessum mönnum. "Þeir hætta að umgangast vini sína og missa öll önnur áhugamál þegar þetta fer að taka yfir. Í rauninni fara þeir að draga sig út úr öllu. Ég hef verið með nokkra unga stráka sem allir áttu það sameiginlegt að hafa náð miklum árangri í íþróttum en smátt og smátt hafa þeir dregið sig út úr þeim. Afsökunin hefur verið að þeir hafi ekki lengur ánægju af þessu og þetta sé bara búið tímabil en það sem er að gerast í rauninni er að það fer meiri og meiri tími í tölvuleikina og minni og minni tími í annað."

http://www.lydheilsustod.is/greinar/fjolmidlaumfjollun/tolvufiknr/nr/1509

Bjarkey (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 13:46

6 identicon

Ég og vinir mínir spilum mjög mikið af tölvuleikjum. Ég tek ekkert eftir því að við séum eitthvað félagslega einangraðir, margir þeirra spila íþróttir og lyfta. Við erum ekki allir 100kg landskrímsli með bólur í andlitinu og langar ekkert út.

Við hittumst oft og spilum saman í góðum vinskap.

Yfirleitt fer fólk sem er með vanda að stríða og finnur sér eitthvað sem það getur sekkt sér í og gleymt öllu.

Fíkn? Ég myndi segja að það væri eitthvað sem fólk sökkvir sér alltof mikið í og reynir að gleyma öllu öðru.

Ragnar (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 00:05

7 identicon

Sæl Bjarkey.

Er það nú ekki svo að upplag hvers og eins gerir það að verkum að félagsleg einangrun á sér stað, burtséð frá áhugamáli. Það má vara sig á að tengja tölvunotun og félagslega einangrun saman, jafnvel þó hún sé fram úr hófi að okkar mati. Að spila tölvuleik getur reynt þó nokkuð á spilarann, hann þarf að beita rökhugsun, vinna með öðrum ef um þanning leik er að ræða, reikna út svo fátt eitt sé nefnt. En í þessu eins og öllu þarf að gæta hófs.

Kveðja Helga Dögg

Helga Dögg (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 20:23

8 identicon

Eins og ég sagði hér að ofan: Fíkn, drápsleikir, langur tími, minni hreyfing og endaði svo á "tölvur eru góðar í hófi" eins og flest annað í henni veröld.

Bjarkey (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband