Bæjarmál
13.9.2007 | 14:15
Á föstudaginn var hélt bæjarráð fund þar sem m.a. var tekin fyrir beiðni tónskólans á Akureyri um niðurgreiðslu vegna nemenda frá Ólafsfirði sem þar stunda nám. Ekki sá meirihlutinn ástæðu til að greiða niður enda hafði slíkt ekki viðgengist á Siglufirði. Það var sem sagt gert hér í Ólafsfirði í tíð síðustu bæjarstjórnar og ekki ástæða til að fara eftir því.
Mér finnst það dapurt að krakkar sem fara frá okkur í framhaldsskóla geti ekki stundað áframhaldandi nám í tónskóla vegna þess að bærinn vill ekki styðja við bakið á þeim eins og hann gerir ef þau eru hér heima. Það á ekki að bitna á þeim eitthvert þras á milli ríkis og sveitarfélaga. Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir treysti sér til að stunda hér nám í tónskóla Ólafsfjarðar/Siglufjarðar þegar framhaldsskólinn verður risinn hér í Ólafsfirði.
Við höfum greitt niður leikskóla fyrir börn sem hér hafa lögheimili en einhverra hluta vegna eru annars staðar með tímabundið aðsetur. Okkur hefur þótt vænt um útsvarið sem foreldrar þessara barna hafa greitt til sveitarfélagsins og talið það vega þyngra heldur en neitun á slíkri þjónustu.
Meirihlutinn fól síðan fræðslunefnd að ákveða hvort niðurgreiðsla ætti sér stað eða ekki. Ég er náttúrulega svolítið skrítin en mér finnst það vera verk bæjarráðs/stjórnar, hinna pólitíst kjörnu fulltrúa að ákveða slíkt en ekki nefnda þó þær geti og eigi að sjálfsögðu að hafa skoðun á slíkum málum.
Sem betur fer tók bæjarráð ekki undir með skipulags- og umhverfisnefnd, sem hafnaði tillögu Helga míns, um að vinna að friðlýsingu Héðinsfjarðar. Þar má velta því fyrir sér hvort menn eru vanhæfir þegar þeir eiga land í firðinum góða. Alla vega þá ætlar bæjarráð að óska eftir fundi með landeigendum og heyra ofan í þá enda að mínu viti ekkert annað í boði en að friðlýsa Héðinsfjörð. Með því er verið að vernda eigur þeirra sem þar eiga land en ekki skerða eins og margir virðast halda. Ég held nefnilega að miskilnings gæti hjá mörgum varðandi orðið "friðlýsing".
Nú bæjaráð samþykkti að vera áfram með ferðakort fyrir námsmenn sem eru í framhalds- og háskóla og vona ég að sem flestir nýti sér það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæl Bjarkey
Síðbúin athugasemd ég var að lesa þessi orð þín:" Það má velta því fyrir sér hvort menn eru vanhæfir þegar þeir eiga land í firðinum góða." Ég þakka pent og skoðun mín á friðlýsingu fór snarlega í gangstæða átt við þessi orð þín. Hvað sem honum Helga þínum líður þá mun ég á öðrum stað gera grein afstöðu minni. Kveðja Ásgerður.
Ásgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.