Er eitthvað að marka það sem sagt er fyrir kosningar?
18.5.2007 | 14:17
Var á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn en þar kenndi ýmissa grasa. Upplýst var að Stefna ehf hefur tekið að sér að gera vefsíðu fyrir Fjallabyggð - þótt fyrr hefði verið, áætlað að hún verði klár í júní.
Nú auglýsa á eftir nýjum manni/konu í áhaldahúsið en þar hafa tveir látið af störfum vegna aldurs.
Umdeilt samkomulag vegna Aðalgötu 16 var samþykkt en spurningu minni um hvort lögfræðingur bæjarins hefði komið að málinu var ekki svarað.
Nú það sem mér fannst helst jákvætt við þennan fund var sú ákvörðun bæjarstjórnar að samþykkja að bjóða unglingum í vesturbænum uppá rútuferð í austurbæinn á sjómannadag. Sá dagur er mikill hátíðisdagur í Ólafsfirði og mikil almenn þátttaka bæjarbúa í skemmtidagskráinni og því við hæfi að reyna að fá hinn helming Fjallabyggðar til að vera með.
Töluvert var rætt um framhaldsskóla en þar fór Birkir Jón fremstur í flokki og byrjaði á því að biðja fólk að leggja til hliðar pólitískar væringar hvað þetta varðaði. Frá mínum bæjardyrum séð er ekki um pólitískan ágreining að ræða í þessu máli en hins vegar missti Birkir sig sem og sjálfstæðismenn hér í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar og blöðungar frá þeim bárust í hús degi fyrir kosningar þar sem það var fullyrt að framhaldsskóli opnaði hér í Ólafsfirði haustið 2009. Ég gat því ekki á mér setið eftir ræðu Birkis Jóns og sagði það sem ég tel því miður vera vont að slíkt skyldi hafa verið gert. Það þyrfti nefnilega stuðning Dalvíkurbyggðar til eins og við vissum en hvorki Birkir Jón né Sjálfstæðismenn nefndu það í blöðungnum sem þeir sendu inn. Ég veit fyrir víst að þetta ásamt því að pistill eða hvað við getum kallað það sem Þorgerður Katrín skrifaði á dag.net fyrir kosningar þar sem hún fullyrti slíkt hið saman fór ekki vel í Dalvíkingana. Það gleymdu nefnilega allir að minnast á að bæði sveitarfélögin þyrftu að koma sér saman annars rís ekki framhaldsskóli á svæðinu og þegar ég sé yfirlýsingu frá báðum sveitarfélögunum um staðsetningu hér í Ólafsfirði þá fyrst er ég örugg og tilbúin í framhaldsvinnuna sem slíkt krefst.
En líklega er ekkert að marka það sem Birkir Jón sagði fyrir þessar kosningar frekar en fyrir sveitarstjórnarkosningarnar en það voru hans orð eftir þær síðari að það væri svo margt sagt í kosingabaráttunni að það væri ekkert að marka.
Svo mörg voru þau orð.
Hitt stóra málið var hins vegar skipulag stjórnsýslu Fjallabyggðar. Það fannst mér illa undirbúið af hálfu meirihlutans og finnst kappið meira en forsjáin. Þetta er það stórt mál að vanda þarf til þess og ef ekki má kalla saman aukafund fyrir það þá veit ég ekki hvenær.
Ekki hef ég séð þarfagreiningu vegna þeirra starfa sem við eru að bætast en þar með er ég ekki að segja að þeirra sé ekki þörf vil bara sjá slíka greiningu sem og skilgreiningu á þeim störfum sem nú eru að breytast en hafa að hluta verið til. Engin starfslýsing er til á þeim einungis hvaða málaflokkar heyra undir viðkomandi. Meirihlutinn var ekki ákveðinn hver færi með mannaforráð og hver ekki og sá sem hafði með höndum að gera skipuritið hefur greinilega önnur sjónarmið en hluti meirihlutans eins og fram kom í "hringborðsumræðum" á bæjarstjórnarfundinum. En til þess var gripið vegna lélegs undirbúnings meirihlutans.
Heilmikið var rætt um skipulagsmál en á Siglufirði vill fjölskylda byggja sér sumarhús á svæði sem ekki er deiliskipulagt (Jónstúnið - milli Hávegar og Hverfisgötu) inn í miðju grónu íbúðarhverfi. Íbúar eru ekki sátti - skil þá mjög vel og vilja að byggt verið á þeim lóðum sem lausar eru í þessu sama hverfi og um fullgilt íbúðarhús verði að ræða en ekki frístundahús til þess sé skipulögð frístundabyggð. Ég spurði formanninn hvort ég gæti óskað eftir að byggja á óskipulögðu svæði og fengið - miðað við áhuga á því að gera þetta. Það er ákveðin örvænting í því að rjúka til og deiliskipuleggja bara af því að einhver vill "loksins" byggja á Siglufirði.
Einnig eru deilur um deiliskipulag hesthúsahverfisins en þar vill formaður skipulags- og umhverfisnefndar hafa byggð báðu megin og taka þar með besta svæðið til að kenna t.d. krökkunum fyrir neðan veginn auk þess færa veginn til sem kostar mikla peninga.
Hugsa málin betur!!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.