Akureyri, blómlegt samfélag á landsbyggðinni án stóriðju

Hér er ályktun sem samþykkt var á laugardagsfundi stjórnar Vinstri grænna á Akureyri. 

Stóriðjustefnan er á fullri siglingu, drifin áfram meðal annars af ráðherrum Samfylkingarinnar. Frávísun umhverfisráðherra á kæru Landverndar undirstrikar kjarkleysi ráðherrans, sem hafði næg rök og lagaheimildir til að láta náttúruna njóta vafans og efna þannig loforð sín við kjósendur. Stjórnmál eiga að snúast um stefnumótun en ekki hagsmunagæslu kerfisins. Þar hafði umhverfisráðherra tækifæri til að standa við stóru orðin, setja náttúruvernd í forgang. Með álveri í Helguvík er ekki aðeins verið að stefna umhverfinu í voða, heldur líka efnahag þjóðarinnar sem nú berst við verðbólgu og himinháa vexti, afleiðingar þenslu af völdum stóriðjuframkvæmda undanfarinna ára.

Til viðbótar eru í undirbúningi álver á Bakka og í Þorlákshöfn og vægast sagt langsóttar hugmyndir uppi um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, sem allt ýtir undir væntingar og verðbólgu. Þannig er þjóðinni haldið í heljargreipum á meðan engin skilaboð koma frá stjórnvöldum. Það er skaðlegt fyrir byggðirnar sjálfar að vera í stöðugu óvissuástandi um framtíð atvinnumála sinna. Slíkt ástand drepur niður frumkvæði heimamanna. Vísbendingar eru nú um að álversframkvæmdir fyrir austan hafi því miður ekki skilað Austfirðingum þeim viðsnúningi í byggðaþróun sem lofað var á sínum tíma.

Vinstri-græn leggja áherslu á að styrkja innviði samfélagsins á hverjum stað, eins og gert hefur verið hér á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu, meðal annars með framúrskarandi heilsugæslu og öflugu skólastarfi. Þá er sérstaklega ánægjulegt hvernig tekist hefur að styrkja samfélagið með gjaldfrjálsum almenningssamgöngum. Enginn vafi leikur á því að blómlegt atvinnu- og menningarlíf á Akureyrarsvæðinu á rætur að rekja til þess að hlúð hefur verið að þessum grunnstoðum samfélagsins. Reynsla Eyfirðinga sýnir að byggðarlög á landsbyggðinni eru betur sett án stóriðju og þeirrar röskunar sem slíkri atvinnuuppbyggingu fylgir óhjákvæmilega.

Kominn er tími til að stórkarlalegar skammtímalausnir víki fyrir stjórnmálum þar sem hugsað er til lengri tíma með því að byggja upp fjölbreytt og blómleg samfélög á landsbyggðinni með sjálfbærni og félagslegt jafnrétti og stöðugleika að leiðarljósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bylgja Hafþórsdóttir

Já mín er komin heim til mömmu, æðislegt. Frétti að Lágheiðin er fær svo ef þú átt mögulega lausa stund einhvers staðar þá endilega la´ttu mig vita og ég renni í heimsókn. Sakna þín og langar að sjá þig.

Love Bylgja

Bylgja Hafþórsdóttir, 8.4.2008 kl. 17:56

2 identicon

Mér fannst seinni hluti ályktunarinnar bara góður.. kv gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband