Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Akureyri, blómlegt samfélag á landsbyggðinni án stóriðju

Hér er ályktun sem samþykkt var á laugardagsfundi stjórnar Vinstri grænna á Akureyri. 

Stóriðjustefnan er á fullri siglingu, drifin áfram meðal annars af ráðherrum Samfylkingarinnar. Frávísun umhverfisráðherra á kæru Landverndar undirstrikar kjarkleysi ráðherrans, sem hafði næg rök og lagaheimildir til að láta náttúruna njóta vafans og efna þannig loforð sín við kjósendur. Stjórnmál eiga að snúast um stefnumótun en ekki hagsmunagæslu kerfisins. Þar hafði umhverfisráðherra tækifæri til að standa við stóru orðin, setja náttúruvernd í forgang. Með álveri í Helguvík er ekki aðeins verið að stefna umhverfinu í voða, heldur líka efnahag þjóðarinnar sem nú berst við verðbólgu og himinháa vexti, afleiðingar þenslu af völdum stóriðjuframkvæmda undanfarinna ára.

Til viðbótar eru í undirbúningi álver á Bakka og í Þorlákshöfn og vægast sagt langsóttar hugmyndir uppi um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, sem allt ýtir undir væntingar og verðbólgu. Þannig er þjóðinni haldið í heljargreipum á meðan engin skilaboð koma frá stjórnvöldum. Það er skaðlegt fyrir byggðirnar sjálfar að vera í stöðugu óvissuástandi um framtíð atvinnumála sinna. Slíkt ástand drepur niður frumkvæði heimamanna. Vísbendingar eru nú um að álversframkvæmdir fyrir austan hafi því miður ekki skilað Austfirðingum þeim viðsnúningi í byggðaþróun sem lofað var á sínum tíma.

Vinstri-græn leggja áherslu á að styrkja innviði samfélagsins á hverjum stað, eins og gert hefur verið hér á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu, meðal annars með framúrskarandi heilsugæslu og öflugu skólastarfi. Þá er sérstaklega ánægjulegt hvernig tekist hefur að styrkja samfélagið með gjaldfrjálsum almenningssamgöngum. Enginn vafi leikur á því að blómlegt atvinnu- og menningarlíf á Akureyrarsvæðinu á rætur að rekja til þess að hlúð hefur verið að þessum grunnstoðum samfélagsins. Reynsla Eyfirðinga sýnir að byggðarlög á landsbyggðinni eru betur sett án stóriðju og þeirrar röskunar sem slíkri atvinnuuppbyggingu fylgir óhjákvæmilega.

Kominn er tími til að stórkarlalegar skammtímalausnir víki fyrir stjórnmálum þar sem hugsað er til lengri tíma með því að byggja upp fjölbreytt og blómleg samfélög á landsbyggðinni með sjálfbærni og félagslegt jafnrétti og stöðugleika að leiðarljósi.


Steingrímur Joð - Flottasti formaðurinn

Má til með að setja inn myndabandið sem mikið er talað um enda frábært.


Skemmtilegt fólk

Rauk til Akureyrar í hádeginu á föstudaginn og var í starfsþjálfun eftir hádegi. Um klukkan fjögur hitti ég Helgu Erlings gjaldkera VG-kjördæmisráðs og fékk hjá henni reikningana þar sem hún var að fara til Reykjavíkur.

Átti notalega stund hjá Pálínu og Boga á föstudagskvöldið og vaknaði snemma á laugardagsmorgun og sá litla kút rétt áður en ég rauk af stað á fund.

Fyrst var stjórnarfundur hjá VG og var frábært að fá þau öll norður enda áætlaður góður tími til að spjalla. Klukkan 13:30 var svo komið að stjórnarfundi hjá kjördæmisráði sem ég boðaði til þar sem mér fannst heppilegt að nýta daginn enda formaðurinn á staðnum og mikið upptekinn en við reynum að hafa hann og Þuríði með á stjórnarfundum ef það er nokkur kostur. Við erum svo heppin að vera búin að fá starfsmann sem um leið er aðstoðarmaður Þuríðar. Gott að hafa hjálparhönd við undirbúning funda sem hefur góða tengingu við svæðisformenn í Norðausturkjördæmi.

Þessum fundi lauk kl. 15 en þá hófst fyrsti fundur í fundarröð VG sem hefur yfirskriftina Tökumst á við efnahagsvandann - tillögur Vinstri grænna.

Mjög góð mæting var og flottur fundur. Steingrímur og Svandís fóru yfir helstu aðgerðir sem VG leggja til og síðan voru fyrirspurnir úr sal.

Næstu fundir eru í dag á Neskaupsstað og í Grindavík. Fylgist með á www.vg.is

Eftir fundinn fórum við á Bláu könnuna og áttum góða stund saman þar til sunnan fólkið fór í flug til borgarinnar.

Dagurinn endaði svo á því að minn kæri kom til Akureyrar og við borðuðum frábæran mat og áttu fína kvöldstund hjá Þurý og Bjössa.

Í dag er það bókhaldsvinna þar sem vaskdagur er á morgun og því ekki seinna vænna að hespa því af.

Í bili.......


Snillingar

Unga fólkið okkar í Vinstri grænum er alveg frábært og alveg á tánum í þjóðfélagsmálunum. Cool

Það er ekki ofsögum sagt að þessi ríkisstjórn er mjög upptekin af flottræfilshætti og ætti að skammast sín fyrir svona bruðl.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband