Ljúfir dagar

Já þeir hafa liðið ótrúlega hratt þessir dagar á nýju ári og á morgun verður litla heimasætan 10 ára. Af því tilefni vorum við að baka mæðgur í dag.

Ég hef gaman af því að baka og tekst það oftast hreint ágætlega en fyrir morgundaginn var heimasætan með óskir um Barbie köku. Keypt var þar til gert form með afar fallegum myndum og fyrirmyndin var örugglega teiknuð í Photoshop af framleiðendum Disney en ekki unnin af amerískum bakara.

Ég var tilbúin með útskýringar á því að líklega gæti ég nú ekki skreytt þessa elsku eins og myndirnar væru sem með fylgdu en hún var fyrri til og vildi alls ekki svona hafmeyju eða þessa í kjólnum með öllum rósunum sem voru á stærð við títuprjónshaus. Mikið var mér létt þegar tillagan kom um að hún væri í grænum marsipankjól.

Þegar ég var svo búin að fletja út marsipanið og troða því á blessaða kökuna þá komu vonbrigðin í ljós.

Samtalið var einhvern veginn svona:

Jódís Jana, með þvílíkan sorgarsvip, mér finnst hann ekki fallegur mér finnst þessi hlið ljót

Ég reyndi að bjarga mér úr klípunni og svaraði að kjólar væru nú ekki alltaf rennisléttir, við gætum kannski falið misfellurnar með súkkulaði eða einhverju öðru

Jódís Jana: já við getum kannski snúið ljótu hliðinni, nei ég meina krumpuðu hliðinni, mamma verður þú ekki sár þegar ég segi ljótu hliðinni?

Ég: Nei vinan þetta hefði nú getað verið betra ég þarf greinilega að æfa mig í svona kjólaskreytingum

Jódís Jana: það er náttúrlega ekki allt fullkomið hjá manni í fyrsta skipti það segir þú alltaf við mig

Ég: Æi takk elskan fallega sagt hjá þér við æfum okkur saman í sumar

Síðan var kakan skreytt með súkkulaði og barbí sett í svartan/silfraðan topp og þá sagði Jódís Jana: Oh mamma hún er frábær ég vil helst ekki borða hana hún er svo flott hjá þér.

Veit ekki hvort þetta er fyrsti fyrirboði unglingsáranna þegar skipt er um skap og tilfinningarnar flæða á alla kanta en mín fékk bara knús frá mömmu í þetta skipið fyrir þessi fallegu orð.

Nú verður tekin mynd af kökunni þannig að hún geti ásamt afmælisgestum borðað blessaða kökuna sem vonandi smakkast þokkalega - annars er aðalmálið að hún er glöð þennan síðasta dag sem 9 ára stúlka.

Það er nefnilega merkilegur áfangi að fanga fyrsta tuginn í lífinu - maður er svo ótrúlega stór og þroskaður þegar honum er náð.

Í bili......

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Til hamingju með dótturina....og að sigra kökuna;-)

Vilborg Traustadóttir, 12.1.2009 kl. 01:22

2 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Til hamingju med dótturina tótt seint sé.

Kvedja úr sólinni í Jyderup

Gudrún Hauksdótttir, 21.1.2009 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband